Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Jón Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021

Jón Hjartarson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021 fyrir ljóðahandritið Troðningar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema einni milljón króna. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið út hjá JPV útgáfu.

Jón Jóhann Hjartarson er fæddur árið 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Hann var fastráðinn leikari um margra ára skeið hjá Leik­fé­lagi Reykja­víkur og lék í kringum 80 hlut­verk á ferlinum. Jón lék einnig leikið með ýmsum leik­hópum, s.s. Grímu, Litla leik­fé­laginu, Litla leik­húsinu, auk þess sem hann lék í fjöl­mörgum kvik­myndum sem og sjón­varps- og út­varps­verkum.

Jón hefur samið fjölda leik­rita bæði fyrir börn og full­orðna, auk barna- og ung­linga­bóka. Fyrsta leik­rit hans, Af­mælis­boðið, er frá 1969. Hann hefur bæði leik­stýrt verkum sínum og annarra hjá at­vinnu­leik­húsum og á­huga­leik­hópum. Síðasta bók hans er ung­menna­bókin Auga í fjallinu sem kom út hjá Skruddu árið 2017.

Jón sagði við athöfnina í gær að hann hafi löngum dáð þjóðskáldin og eins atómskáldin. „Ég dái þá höfunda sem nú fást við ljóð. Og mér sýnist íslensk ljóðagerð dafna býsna vel sem er gott. Ljóðið ratar til sinna og setur veruleikann svolítið úr skorðum sem er hollt“, sagði Jón. 

Í dómnefnd sátu Sif Sigmarsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Eyþór Árnason. Í umsögn dómnefndar segir: „Troðningar eftir Jón Hjartarson er kraftmikið verk um hið óvænta í hinu augljósa, fegurðina í hversdagsleikanum og mikilfengleika þess smáa. Í bókinni fer Jón um víðan völl. En hvort sem yrkisefnið er náttúran, sagan eða samtíminn er sjónarhornið ávallt óvænt. Þekkt minni eru færð í nýjan búning. Kímnar hvunndagsmyndir eru dregnar upp innan um vísanir í stórskáldin. Hið hversdagslega verður ljóðrænt, hið háfleyga hversdagslegt,“

Rithöfundasamband Íslands óskar Jóni innilega til hamingju með verðlaunin!


RSÍ hefur hlotið félagsaðild að CEATL

Rithöfundasamband Íslands hlaut á dögunum ingöngu í CEATL – Evrópsk samtök samtaka bókmenntaþýðenda.

CEATL eru alþjóðleg samtök stofnuð 1993 í þeim tilgangi að skapa sameiginlega vettvang fyrir samtök bókmenntaþýðenda víðs vegar í Evrópu til að skiptast á upplýsingum og skoðunum og sameina krafta sína til þess að bæta starfsumhverfi og stöðu bókmenntaþýðenda. Samtökin eflast með hverju árinu og núorðið eiga tæplega fjörutíu þýðendasamtök frá rúmlega 30 Evrópulöndum félagsaðild að CEATL.

Yfirlýst markmið samtakanna eru tvenns konar. Annars vegar að safna og halda til haga upplýsingum um stöðu bókmenntaþýðinga og -þýðenda í aðildarlöndunum og skiptast á upplýsingum um ýmis álitaefni. Hitt yfirlýst markmið samtakanna er að fylgjast með þróun laga, reglna og viðskiptahátta og gæta hagsmuna og réttinda bókmenntaþýðenda innan Evrópu og vera aðildarsamtökum innan handar við að styrkja stöðu og tryggja réttindi bókmenntaþýðenda í hverju aðildarlandi um sig.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 21. október – Ingibjörg Hjartardóttir

Fimmtudaginn 21. október verður fjallað um nýjustu skáldsögu Ingibjargar Hjartardóttur, Jarðvísindakona deyr, sem kom út í byrjun sumars.

Sagan gerist í Selvík, afskekktu þorpi á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Eftir dapurlegt tímabil í sögu byggðarlagsins, með miklu atvinnuleysi, horfir nú loks til betri vegar því erlendur auðkýfingur ætlar að reisa þar eitt stærsta kísilver í heimi. Hjól atvinnulífsins hafa þegar tekið að snúast því fátt sem skyggir á gleði þorpsbúa þegar fyrsta skóflustungan að verinu er tekin – ekki einu sinni hörmulegt slys sem varð á svæðinu aðeins nokkrum dögum áður þegar 32 ára gömul jarðvísindakona úr Reykjavík lést eftir að hafa ekið út af veginum skammt utan við þorpið. En þetta bílslys vekur forvitni Margrétar Guðmundsdóttur, sjálfskipaðs kvenspæjara, sem nýorðin er ekkja og komin af léttasta skeiði. Hún fer að rannsaka tildrög slyssins og linnir ekki látum fyrr en sannleikurinn liggur fyrir.   Á yfirborðinu virðist þetta vera sakamálasaga í léttum dúr en undir niðri er þetta háalvarleg samfélagsgagnrýni þar sem pólitískir og efnahagslegir hagsmunir svífast einskis.

Höfundakvöldið hefst kl 20:00 í Gunnarshúsi. Spyrill verður Björg Árnadóttir rithöfundur og ritlistakennari.

Léttar veitingar í boði. Allir velkomnir.


Höfundakvöld 2021 hefjast í kvöld

Rithöfundasambandið vekur athygli á því að nú er að hefjast röð höfundakvölda í Gunnarshúsi þar sem höfundar kynnar nýjar bækur haustsins. Líkt og undanfarin ár verða bókmenntaviðburðir í Gunnarshúsi í október og fram í byrjun desember. Kvöldin eru með ýmsu sniði enda móta þátttakendur þau eftir sínu höfði. Hver viðburður verður auglýstur sérstaklega þegar nær dregur.

Á sviðsbrúninni – ný bók um leiklist og menningarpólitík 

Í kvöld, fimmtudaginn 14. október kl. 20.00, verður fjallað um bók Sveins Einarssonar Á sviðsbrúninni sem Ormstunga gefur út. Bókin skiptist í fjóra meginkafla; þar er fjallað um að vinna í sjónvarpi og hvaða stefnu má fylgja en lítið hefur verið skrifað um þau mál áður; þar er rætt um á hverju verkefnaval í leikhúsi grundvallast, um sögu óperuflutnings á Íslandi allt frá 1951 og loks um ýmis verkefni á vettvangi sviðslista sem blasa við. Höfundakvöldið hefst kl. 20.00 og situr Sveinn þar fyrir svörum. Spyrlar eru Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri og Stefán Baldursson leikstjóri og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri. Ókeypis er á kynninguna að vanda, en léttar veitingar bornar fram.


Ljósvakasjóður – umsóknarfrestur til 5. nóvember

Bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11.gr. höfundalaga

Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) tekur við greiðslum frá Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM). Greiðslurnar renna í Ljósvakasjóð sem úthlutar til höfunda og þýðenda leiktexta og annarra skáldverka í samræmi við reglur þessar. Hagþenkir annast úthlutanir til rétthafa fræðslu- og heimildaefnis eftir eigin reglum.

Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi verki hafi verið útvarpað, hafi verið gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafi verið gefið út á hljóðriti eða myndriti. Rétturinn nær til frumsaminna og þýddra verka, þ.m.t. leikins hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, kvikmynda, stakra þátta eða þáttaraða, leikinna atriða, útvarpssagna, ljóða, brota úr verkum og annarra skáldverka. Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra.

Réttur til úthlutunar er án tillits til félagsaðildar.

Skráning í Ljósvakasjóð: Leitað er eftir skráningarupplýsingum rétthafa, sem telja sig eiga rétt til úthlutunar skv. 2. gr. Skráningarupplýsingum skal skilað á þar til gerðu umsóknarareyðublaði. Athugið að greitt er út skv. 2. gr. eftir skýrslum frá sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Þeir sem þegar hafa skilað skráningu og/eða fengið greitt úr sjóðnum þurfa ekki að skrá sig aftur.

Úthlutun skv. 5. gr. B: Rétthafagreiðslur skv. sérstökum umsóknum. Um slíka úthlutun geta sótt; þýðendur skjátexta, rétthafar að styttri verkum, brotum úr verkum, stökum ljóðum sem og frumhöfundar skáldverka sem leikgerðir, þættir eða kvikmyndir hafa verið gerðar eftir.  Í umsóknum um greiðslur skv. þessum lið skal rökstyðja og gera grein fyrir notkun á einstökum verkum á umsóknartímabili. Úthlutað er á grundvelli mats úthlutunarnefndar. Umsóknareyðublað.

Umsóknarfrestur vegna úthlutunar fyrir birt efni 2020 er til 5. nóvember 2021.Ekki er tekið við umsóknum eftir þann tíma.


Íslensku barnabókaverðlaunin 2021

Ólafur Gunnar Guðlaugsson bar sigur úr býtum í samkeppninni um Íslensku barnabókaverðlaunin 2021 með söguna Ljósbera, fyrsta bindinu í þríleiknum um síðasta seiðskrattann. Ólafur hefur áður sent frá sér vinsælar barnabækur og leikrit um Benedikt búálf en Ljósberi er fyrsta skáldsaga hans fyrir eldri lesendur.

Rithöfundasamband Íslands óskar Ólafi Gunnari innilega til hamingju með verðlaunin!


Dvalarsetur í La Rochelle 2022 fyrir barna- og ungmennabókahöfund

RitRithöfundasamband Íslands (RSÍ) og Centre Intermondes de la Rochelle og la Maison des écritures de la Rochelle í samstarfi við Franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavik auglýsa eftir umsóknum um dvöl í dvalarsetrinu Centre Intermondes í einn mánuð í maí 2022. Umsóknir skulu vera á ensku.

Centre Intermondes í La Rochelle

LESA MEIRA


Kristín Bjarnadóttir látin

Kristín Bjarnadóttir, ljóðskáld, leikkona og tangódansari, lést í Gautaborg þann 1. október 73 ára gömul.

Ljóð eftir Kristínu birtust fyrst 1979 í Lesbók Morgunblaðsins og safnritinu Nýgræðingar í Ljóðagerð 1970-1981. Seinna stuttar frásagnir og textar fluttir á sviði og í útvarpi. Hún vann við þáttagerð hjá RÚV, meðal annars þáttaröð um skandinavískar samtíðaskáldkonur, í samvinnu við Nínu Björk Árnadóttur. Hún þýddi ljóðabálkinn Ástarsaga aldarinnar og sviðsútgáfu í samvinnu við Kristbjörgu Kjeld.

Kristín gaf út ljóðsöguna Því að þitt er landslagið (1999), Heimsins besti tangódansari (2005) og Ég halla mér að þér og flýg (2007). Einþáttungur hennar Gættu þín var sýndur í Þjóðleikhúsinu 1987

Kristín átti sæti í stjórn Höfundamiðstöðvarinnar Författarcentrum Väst í Gautaborg allt frá árinu 2010, varaformaður frá 2012 og formaður síðan 2017. Innan höfundamiðstöðvarinnar átti hún frumkvæði að stofnun ljóðahópsins PoPP (poeter orkar poetiska projekt) sem kom til Reykjavíkur sumarið 2017 með upplestrardagskrá í samvinnu við kollega og ljóðskáld í Rithöfundasambandi Íslands. Meðal verkefna sem hún átti frumkvæði að og hafði yfirumsjón með er Waters and Harbours in North  – WHiN, 2017 þar sem Bókmenntaborgin Reykjavík var meðal samvinnuaðila.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Kristínu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Álfrún Gunnlaugsdóttir minning

Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands er fallin frá. Hún var ekki einungis magnaður höfundur, óumdeilanlega framúrskarandi með einstaka rödd, heldur var hún einnig einn fremsti fræðimaður okkar á sviði bókmennta, vel heima í verkum annarra rithöfunda og framandi menningargeirum.

Álfrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt ári síðar til náms í rómönskum málum og bókmenntum í Barcelona. Hún lauk licenciatprófi (M.A,) frá Háskólanum í Barcelona (1965), öðlaðist rétt til að verja doktorsritgerð ári síðar við sama skóla, og vann að ritgerðinni við Háskólann í Lausanne í Sviss á árunum 1966 -1970. Doktorsritgerð sína varði hún svo við hinn nýstofnaða Óháða háskóla Katalóníuhéraðs 1970

Hún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77, síðan dósent í sömu grein og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum.

Eftir Álfrúnu liggur fjöldi skáldverka af ýmsu tagi, smásagnasafn og skáldsögur og oft og einatt hlutu verk hennar verðlaun og viðurkenningar, voru tilnefnd til Íslensku bókmennta¬verð¬laun¬anna, Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, hlutu bókmenntaverðlaun DV og Fjöruverðlaun, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem Álfrúnu var veitt viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.

Álfrún var gerð að heiðursdoktor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands árið 2010, og í ávarpi af því tilefni sagði Ástráður Eysteinsson um verk Álfrúnar sem þá voru komin út:

„ … þessar sex bækur búa yfir sterkum höfundareinkennum – í viðfangsefnum, frásagnaraðferðum, persónusköpun og lífssýn. Hér hefur orðið til eitt sérstæðasta höfundarverk íslenskra bókmennta á síðustu áratugum, mótað af samslætti djarfrar framsetningar, tilvistarhyggju og húmanisma. Verk Álfrúnar eru engan veginn öll steypt í sama móti en í þeim öllum er einhver sterkur og seiðandi höfundarkjarni sem við höfum enn ekki gert okkur nema takmarkaða grein fyrir.“

Íslenskir rithöfundar þakka Álfrúnu Gunnlaugsdóttur framlag hennar til íslenskra bókmennta og bókmennta heimsins. Minning hennar mun lengi lifa í þeim glæsilegu verkum sem hún lætur eftir sig.

Karl Ágúst Úlfsson formaður RSÍ


Unnur Lilja Aradóttir hlýtur Svartfuglinn

Unnur Lilja Aradóttir og Eliza Reid forsetafrú.

Unnur Lilja Aradóttir hlaut Svartfuglinn í ár. Eliza Reid, forsetafrú og bókmenntafrömuður, afhenti verðlaunin þann 29. september sl. og fyrsta eintak bókarinnar, Höggið. Í áliti dómnefndar um bókina segir m.a.: „Höfundurinn magnar upp mikla sálfræðilega spennu og hleypir lesandanum smám saman nær glæpnum sem kemur verulega á óvart.“ Ung kona vaknar á sjúkrahúsi með höfuðáverka – og hefur auk þess misst minnið. Hún þekkir hvorki tilveru sína né sjálfa sig en fljótlega fær hún á tilfinninguna að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Hún leggur upp í ferðalag á vit fortíðar sinnar – viðsjárvert ferðalag þar sem skelfilegir atburðir afhjúpast smám saman.

Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld, og er þetta í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu.

Yrsa og Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.

Rithöfundasamband Íslands óskar Unni Lilju til hamingju með verðlaunin!