Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Innanfélagskrónika

Haustið hlaut að koma fyrr eða síðar og hér í Gunnarshúsi boðar það miklar annir eins og víðar. En það hefur líka fært með sér góðar fréttir, sem staðfesta að barátta okkar fyrir bættum kjörum ber árangur þó að oft miði hægt.

Ég hef áður velt vöngum yfir nýlegum lögum um skattabreytingar á afnotagreiðslum hugverka.  Lögin heita réttu nafni Breyting á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og ná m.a. yfir skattlagningu á tekjum af höfundaréttindum. Vissulega vekja þessi lög nokkrar spurningar, því sitthvað er óljóst í þeim eins og gjarnan gerist og enn á eftir að afgreiða reglugerð sem væntanlega tekur af tvímæli um hvernig beri að túlka þau. Stjórn RSÍ og starfsfólk hafði nokkur afskipti af þessu máli á meðan það var til umfjöllunar í þinginu og okkur sýnist að athugasemdir og ábendingar um sérstöðu rithöfunda á meðal listamanna hafi skilað sér inn í lögin. Við lítum svo á að allar afleiddar tekjur af verki sem gefið hefur verið út einu sinni eigi að skattleggjast eins og fjármagnstekjur. Með öðrum orðum sé hugverk sambærilegt við fasteign, sem geti skilað arði og sá arður eigi að skilgreinast sem fjármagnstekjur og bera skatt sem slíkur. Samkvæmt þessum skilningi eiga skattar að lækka á greiðslur úr bókasafnssjóði og IHM sjóði, en einnig teljum við að lögin nái yfir sölu á kvikmyndarétti, rétti til leikgerðar, greiðslur fyrir verk sem koma út í erlendum þýðingum, hljóðbókarétt, tekjur vegna flutnings verks í útvarpi og fleira. Reynist þessi skilningur okkar réttur er um að ræða umtalsverða kjarabót fyrir íslenska rithöfunda.

Á dögunum voru síðan boðuð stóraukin framlög í Bókasafnssjóð höfunda í fjárlögum fyrir árið 2020, en það er eitt af þeim mikilvægu hagsmunamálum sem RSÍ beitir sér fyrir jafnt og þétt. Hækkunin er hvorki meira né minna en 62 prósent, sem þýðir að sjóðurinn vex úr 76,4 milljónum í 124,9 milljónir á milli ára. Þessi upphæð kemur til úthlutunar næsta vor fyrir útlán ársins 2019. Það er full ástæða til að gleðjast innilega yfir þessum tíðindum.

Af vettvangi kjarasamninga er það helst að frétta að samningar við Félag íslenskra bókaútgefenda eru farnar af stað og stefnt er að því að þær verði í höfn áður en árið er úti. Eins og ég hef áður minnst á gerum við þær kröfur fyrst og fremst að stuðningur íslenska ríkisins við útgáfu bóka á íslenskri tungu skili sér til þeirra sem bækurnar skrifa og verður það rauður þráður í samningaviðræðum okkar við útgefendur, en auk þess er eitt og annað í gildandi samningum sem þarf að leiðrétta. Fulltrúar RSÍ í samninganefnd eru Auður Jónsdóttir, Vilborg Davíðsdóttir og Dagur Hjartarson.

Einnig eru ákveðin teikn á lofti um að samningaviðræður við Ríkisútvarpið ohf. fari að lifna á ný, en þær lognuðust út af fyrir u.þ.b. tveimur árum, þegar svo virtist sem áhugi RÚV á að semja við höfunda hefði fengið hægt andlát. RSÍ hefur æ ofan í æ reynt að ýta þessum samskiptum aftur í gang, en án teljandi árangurs, þar til nú fyrir skömmu, og nú lítur loks út fyrir að hægt verði að blása lífi í samningaviðræður á ný. Við vonumst til að til tíðinda dragi í náinni framtíð.

Við minnum svo alla félagsmenn á að í Gunnarshúsi starfar fólk sem ætíð er boðið og búið til að rétta rithöfundum hjálpandi hönd, gefa góð ráð eða bara rabba yfir kaffibolla. Húsið er félagsheimili okkar allra og við hvetjum félagsmenn í RSÍ að nota sér aðstöðuna.

Bestu kveðjur úr Gunnarshúsi

Karl Ágúst


Skáld í skólum 2019

Skáld í skólum – Bókmenntadagskrár til flutnings í grunnskólum og leikskólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Haustið 2019 fara sex skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.

Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Í ár fara einnig tvö skáld á vegum Höfundamiðstöðvar RSÍ í ævintýraleiðangur um leikskóla. Það er fagnaðarefni að Höfundamiðstöð geti boðið fyrsta skólastiginu vandaða og líflega bókmenntadagskrá, rétt eins og grunnskólunum.

Dagskrár 2019 

SKÁLD Í SKÓLUM – Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU | 2019

SKÁLD Í SKÓLUM – UM LANDIÐ ALLT | 2019

SKÁLD Í LEIKSKÓLUM | 2019

Verð kr. 40.000.
Upplýsingar og pantanir í síma 568 3190
tinna@rsi.is


Ísnálin 2019

Sjöunda september, var Ísnálin 2019 afhent í Borgarbókasafninu, en hún er veitt fyrir bestu þýðingu á glæpasögu. Friðrik Rafnsson hlaut verðlaunin að þessu sinni, fyrir þýðingu sína „Þrír dagar og eitt líf“ eftir Pierre Lemaitre (Útgefandi: JPV útgáfa).

Auk Bandalags þýðenda og túlka standa Hið íslenska glæpafélag og Þýðingasetur Háskóla Íslands að verðlaununum.

Tilnefnd auk Friðriks voru:
Einar Örn Stefánsson, fyrir þýðingu sína „Stúlkan með snjóinn í hárinu“ eftir Ninni Schulman (Ugla útgáfa)
Elín Guðmundsdóttir, fyrir þýðingu sína „Mínus átján gráður“ eftir Stefan Ahnhem (Ugla útgáfa)
Nanna B. Þórsdóttir, fyrir þýðingu sína „Líkblómið“ eftir Anne Mette Hancock (JPV útgáfa)
Þórdís Bachmann, fyrir þýðingu sína „Glerstofan“ eftir Ann Cleeves.

Við óskum tilnefndum og verðlaunahafa innilega til hamingju!


Birgir Sigurðsson – minning

Birgir Sigurðsson rithöfundur er fallinn frá. En verk hans lifa og þær ómetanlegu gjafir sem hann gaf okkur þjóð sinni eru gersemar sem við fáum seint fullþakkað.

Birgir stimplaði sig rækilega inn í íslenskt leikhús- og menningarlíf með leikriti sínu Pétri og Rúnu árið 1972, þá 35 ára að aldri, en áður hafði hann sent frá sér ljóðabækurnar Réttu mér fána og Á jörð ertu kominn. Í Pétri og Rúnu, sem varð hlutskarpast í leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, kvað við ferskan tón í íslenskri leikritun og með verkunum sem í kjölfarið fylgdu, Selurinn hefur mannsaugu, Skáld-Rósu og Grasmaðki tók Birgir af öll tvímæli um að Ísland hafði eignast eitt af öflugustu leikskáldum samtímans. Þegar Dagur vonar var frumsýndur 1987 gat engum blandast hugur um þau ofurtök sem höfundurinn hafði á leikritsforminu, hvort sem litið var á persónusköpun, samskipti leikpersóna eða uppbyggingu og framvindu leiksögunnar.

Verk Birgis eru oft persónuleg og samúð hans með fólkinu sínu, persónunum sem hann leiðir fram, er ótvíræð, auk þess sem sársauki höfundarins skín á stundum í gegnum tilfinningalíf fólksins á sviðinu. Verk hans stíga listilegan dans á mörkum þess ljóðræna og hversdagslega – á mörkum þess grimma og þess blíða – og hann er örlátur á innsæi sitt, bæði vitsmunalegt og tilfinningalegt.

Um þörfina fyrir að skrifa segir Birgir í viðtali við DV árið 2000:

„Maður veit ekki hvaðan þörfin kemur en það ræðst ekki við hana. Ef svo væri þá væri maður líklega í öðru starfi. Þetta er eins og að vera haldinn; það er eins og lagðir hafi verið á mann galdrar; það er engin leið út.“

Eftir Dag vonar birtust leikritin Óskastjarnan, Dínamít og Er ekki nóg að elska?, smásagnasöfnin Frá himni og jörðu og Prívat og persónulega, sagnfræðiritið Svartur sjór af síld og skáldsögurnar Hengiflugið og Ljósið í vatninu.

„Fyrst og fremst gerir maður þetta fyrir sjálfan sig og sinn eigin sannleik.“ segir Birgir í viðtali við Helgarpóstinn í desember 1984,  „Ef svo vill til að einhver eða einhverjir aðrir eru sammála mínum sannleik, þá er það ágætt — en það er ekkert sem rithöfundur á heimtingu á.“

Birgir tók virkan þátt í félagsmálum og réttindabaráttu listamanna á Íslandi. Hann var varaformaður Rithöfundasambands Íslands á árunum 1982 til ’86 og forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1985 – ’87. Á sömu árum var hann einnig í stjórn Listahátíðar.

Í Degi vonar vitnar höfundurinn í ljóð systur sinnar Sigríðar Freyju og leggur þessi orð í munn stúlkunnar Öldu:

Hún var nú stödd hjá tré sem var fegurst allra trjáa. Það var eins og huggun sem sagði að enn væri til fegurð, þrátt fyrir allt. Og hún gaf sig á tal við lífið: „Þú hefur gefið mér margt og sagt mér hvers virði allt er, en eitt met ég mest.“ – Lífið langaði þá til þess að vita, hvað af þess miklu auðæfum væri dýrast. „Fagra líf,“ sagði hún, „ef mér væri ekki gefinn skilningur væri ég eins mikil þögn og dauðinn.“

Íslenskir rithöfundar þakka Birgi hans góðu verk, kveðja hann með virðingu og votta fjölskyldu hans og aðstandendum dýpstu samúð.

f.h. Rithöfundasambands Íslands
Karl Ágúst Úlfsson formaður


Listamannalaun 2020 – umsóknarfrestur til 1. október

Auglýst eru til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2020 í samræmi við ákvæði laga nr. 57/2009.

Umsóknarfrestur rennur út 1. október.

Úthlutað verður úr eftirfarandi sjóðum:
launasjóður hönnuða
launasjóður myndlistarmanna
launasjóður rithöfunda
launasjóður sviðslistafólks
launasjóður tónlistarflytjenda
launasjóður tónskálda

Allar umsóknir eru nú einstaklingsumsóknir. Í vinnuáætlun er hægt að tilgreina samstarf sérstaklega.

Nota þarf rafræn skilríki við umsóknina. Eingöngu verður tekið við rafrænum fylgigögnum.

Hafi umsækjandi hlotið starfslaun áður, verður umsókn aðeins tekin til umfjöllunar ef loka- eða framvinduskýrslu vegna síðustu úthlutunar hefur verið skilað til stjórnar listamannalauna, sbr. ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009.

Vakin er athygli á að atvinnuleikhópar sækja til leiklistarráðs (styrkir til atvinnuleikhópa); umsóknin getur einnig gilt til listamannalauna sé merkt við þar til gerðan reit í umsóknarformi.

Umsóknareyðublað og eyðublað fyrir framvinduskýrslu ásamt lögum og reglugerðum um sjóðinn og stefnu stjórnar, má finna á vefslóðinni http://www.listamannalaun.is.

Nánari upplýsingar veita Ragnhildur Zoëga og Guðmundur Magnússon á skrifstofu Rannís, listamannalaun@rannis.is.

Stjórn listamannalauna, ágúst 2019


Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Reykjavíkurborg auglýsir hér með eftir óprentuðu handriti að skáldverki fyrir börn eða unglinga, frumsömdu á íslensku, til að keppa um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.

Verðlaun að upphæð 1 milljón króna verða veitt fyrir eitt handrit. Þriggja manna dómnefnd metur verkin og eru meðlimir hennar tilnefndir af menningar-, íþrótta- og tómstundaráði, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasambandi Íslands.

Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert innsent handrit fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka má fella verðlaunaafhendinguna niður það árið.

Handritum skal skilað undir dulnefni, en nafn og símanúmer höfundar fylgi með í lokuðu umslagi.

Handrit berist í síðasta lagi 9. janúar.

Utanáskrift:
Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur
b.t. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO
Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11
101 Reykjavík.


Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að frá 2019 verði Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur veitt árlega að vori fyrir handrit að nýrri barna- eða ungmennabók. Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut verðlaunin árið 2019 fyrir handritið að bókinni Kennarinn sem hvarf.
 


Birgir Sigurðsson heiðursfélagi látinn

Birg­ir Sig­urðsson, rit­höf­und­ur og leik­skáld, lést á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi 9. ág­úst sl., á 82. ald­ursári.

Birg­ir fædd­ist í Reykja­vík 28. ág­úst 1937. Hann auk kenn­ara­prófi frá KÍ 1961, stundaði tón­list­ar­nám við Tón­list­ar­skól­ann í Reykja­vík í fimm ár og söngnám í Amster­dam 1967. Birg­ir var blaðamaður á Tím­an­um 1961-64 og var kenn­ari og skóla­stjóri í nokkr­um skól­um þar til hann sneri sér al­farið að ritstörf­um árið 1979. Eft­ir Birgi ligg­ur fjöldi rit­verka; leik­rit, skáld­sög­ur, ljóð, þýðing­ar og fræðirit. Þekkt­asta leik­rit Birg­is er án efa Dag­ur von­ar, sem frum­sýnt var 1987, til­nefnt til bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs 1989 og hef­ur verið sýnt víða um heim. Fyrsta leik­ritið, Pét­ur og Rúna, vann 1. verðlaun í sam­keppni Leik­fé­lags Reykja­vík­ur 1972 og vakti mikla at­hygli. Meðal annarra leik­rita hans eru Skáld-Rósa, Sel­ur­inn hef­ur mannsaugu, Grasmaðkur, Óska­stjarn­anog Dína­mít. Birg­ir var heiðurs­fé­lagi Leik­fé­lags Reykja­vík­ur en hann þýddi einnig fjöl­mörg leik­rit, m.a. Barn í garðinum, eft­ir Sam Sheph­ard, Gler­brot,eft­ir Arth­ur Miller, og Kött­ur á heitu blikkþaki, eft­ir Tenn­essee Williams. Þá þýddi hann tvær skáld­sög­ur eft­ir Dor­is Less­ing, Grasið syng­urog Marta Qu­est.

Birg­ir var vara­formaður Rit­höf­unda­sam­bands Íslands 1982-1986, var for­seti Banda­lags ís­lenskra lista­manna 1985-87 og átti m.a. sæti í stjórn Lista­hátíðar og út­hlut­un­ar­nefnd Kvik­mynda­sjóðs. Birg­ir var á þessu ári gerður að heiðurs­fé­laga Rit­höf­unda­sam­bands­ins.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Birgi samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.