Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


TILNEFNT TIL BARNABÓKAVERÐLAUNA REYKJAVÍKURBORGAR

Fimmtán bækur voru í dag tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar en verðlaunin verða hefðinni samkvæmt veitt í Höfða á síðasta vetrardag, 20. apríl, fyrir frumsamda barna- og ungmennabók, myndlýsingar og þýðingu. Tilnefningarathöfnin fór fram á Torginu í Borgarbókasafninu í Grófinni. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, flutti ávarp og dómnefnd kynnti tilnefndar bækur og rökstuðning fyrir valinu.

Eftirtaldir rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur eru tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2022 fyrir eftirtaldar bækur.

BARNA- OG UNGMENNABÆKUR FRUMSAMDAR Á ÍSLENSKU:

–        Þórunn Rakel Gylfadóttir: Akam, ég og Annika. Angústúra gefur út.

–        Arndís Þórarinsdóttir: Bál tímans. Mál og menning gefur út.

–        Hilmar Örn Óskarsson: Holupotvoríur alls staðar. Bókabeitan gefur út.

–        Kristín Helga Gunnarsdóttir: Ótemjur. Bjartur gefur út.

–        Margrét Tryggvadóttir: Sterk. Mál og menning gefur út.

MYNDLÝSINGAR Í BARNA- OG UNGMENNABÓKUM:

–        Rán Flygenring: Koma jól? Angústúra gefur út.

–        Áslaug Jónsdóttir: Skrímslaleikur. Mál og menning gefur út.

–        Hallveig Kristín Eiríksdóttir: Fuglabjargið. Bókabeitan gefur út.

–        Linda Ólafsdóttir: Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

–        Elísabet Rún: Sólkerfið. JPV gefur út.

ÞÝDDAR BARNA- OG UNGMENNABÆKUR:

–        Guðni Kolbeinsson: Kynjadýr í Buckinghamhöll. Bókafélagið gefur út.

–        Jón St. Kristánsson: Seiðmenn hins forna. Angústúra gefur út.

–        Sólveig Sif Hreiðarsdóttir: Á hjara veraldar. Kver gefur út.

–        Sverrir Norland: Eldhugar. AM forlag gefur út.

–        Sverrir Norland: Kva es þak? AM forlag gefur út.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs.

Dómnefnd verðlaunanna í ár er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Guðrúnu Láru Pétursdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

Rökstuðning fyrir vali dómnefndar má finna á heimasíðu Bókmenntaborgar.


Tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

13 norrænar myndabækur, unglingabækur og ljóðabækur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmennta- verðlauna Norðurlandaráðs 2022. Ærslafull frásagnargleði, sérstæð kímni og angurværð skína í gegn í hinum tilnefndu bókum, þar sem fjölbreyttir möguleikar myndabókaformsins eru áberandi. Verðlaunin verða afhent í Helsinki þann 1. nóvember.

Bækurnar sem tilnefndar eru í ár fjalla meðal annars um erfið viðfangsefni á borð við fordóma og uppreisn æru og leiða okkur í gegnum stríð og hryðjuverkaárásir áleiðis að von og gagnkvæmum skilningi. Einnig er fjallað um kynhlutverk, sjálfsmynd og uppruna út frá rökvísi barna – og ævaforn kálfskinnshandrit öðlast nýtt líf. Að auki er náttúru, vistfræði og óvissu og ringulreið ástarinnar lýst á þeysispretti.

Tvær íslenskar bækur eru tilnefndar:

Bál Tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndís Þórarinsdóttur. Myndir eftir Sigmund B. Þorgeirsson. Útgefandi: Mál og menning, 2021.

Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason. Myndir eftir Rán Flygenring. Útgefandi: Mál og menning, 2021.

Hér má sjá lista yfir allar tilnefndar bækur.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundum til hamingju með tilnefningarnar!


Heiðursfélagi látin

Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, er látin 86 ára að aldri. Hún lést í nótt á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík. Guðrún starfaði í stjórnmálum, bæði í borgarstjórn og á Alþingi, en er ekki síst minnst fyrir bækur sínar fyrir börn. Fyrsta bók hennar kom út 1974 og kynnti bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna fyrir þjóðinni.

Bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna urðu þrjár talsins en auk þeirra má nefna bækur eins og Sitji guðs englar, Óvitar og bókina um brúðuna Pál Vilhjálmsson. Guðrún hlaut fjölda verðlauna fyrir skrif sín, allt frá því hún fékk barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir frumraun sína Jón Odd og Jón Bjarna 1975 þar til hún fékk Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY árið 2018. Í millitíðinni fékk hún Menningarverðlaun DV, bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina Undan illgresinu. Guðrún var gerð heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands árið 2002.

Guðrún hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1992.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Guðrúnu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Opið fyrir umsóknir um ferðastyrki úr Höfundasjóði RSÍ

Rithöfundasamband Íslands veitir félagsmönnum ferðastyrki til utanlandsferða úr Höfundasjóði RSÍ. Rétt til að sækja um ferðastyrk hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við sambandið.  Úthlutað er eftir úthlutunarreglum og sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ.

Hægt er að sækja um fyrir ferðum sem þegar hafa verið farnar ef sótt er um innan þriggja mánaða frá ferðalokum. Einnig eru veittir styrkir til ferða sem farnar eru allt að níu mánuðum eftir umsóknarfrest.

Alla jafna eru veittir tíu ferðastyrkir við hverja úthlutun. Ef ekki næst að úthluta tíu styrkjum að þessu sinni verða þeir sem eftir standa veittir í næstu úthlutunum.

Umsóknarfrestur er t.o.m. 1. apríl 2022.


STATEMENT: SUPPORT FOR UKRAINE

The board of the Icelandic Writers’ Union voices its strong support for writers, artists and journalists in Ukraine and emphasizes the importance of freedom of expression and speech at all times. At a time when nations and individuals have to endure tyranny and violence, the message of free expression and creativity is urgent.

Peace, freedom of speech and democratic and open exchange of views play a fundamental role in human society and these evident and valuable rights must never be restricted. The board of the Icelandic Writers’ Union demands a satisfactory solution to be found immediately to the horrible situation that the war-torn people of Ukraine are currently experiencing and that the voices of freedom and peace to be heard loud and clear.


Fjöruverðlaun 2022

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða þann 7. mars 2022.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Merking eftir Fríðu Ísberg (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Sigurður Þórarinsson, mynd af manni
eftir Sigrúnu Helgadóttur (Náttúruminjasafn Íslands)

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Reykjavík barnanna
eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur (Iðunn)

Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra og formanni valnefndar.Þetta í sextánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í áttunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.
 

Rökstuðningur dómnefnda


Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.
 

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.
 

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.

Rithöfundasamband Íslands óskar rithöfundum til hamingju með verðlaunin!


Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Aðalheiður Guðmundsdóttir er Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021 fyrir ritin: Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls og Arfur aldanna II: Norðvegur. Háskólaútgáfan

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 2. mars við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana veitti formaður Hagþenkis, Ásdís Thoroddsen, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og var settur upp sýningarkassi tengdur ritunum í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson. Tónlist flutti Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson.


Viðurkenningarráð, skipað fimm félagsmönnum af mismunandi fræðasviðum stóð að valinu og það skipuðu: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Sússanna Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir 

Úr rökstuðningi ráðsins: 

Undanfarin hundrað ár eða svo hefur hugtakið fornsögur fyrst og fremst vakið í huga Íslendinga þanka um Íslendingasögur, um Sturlungu og um verk Snorra Sturlusonar. En færum við 250 ár aftur í tímann og nefndum fornsögur við þálifandi Íslendinga, er líklegt að það fólk vildi helst ræða um Friðþjóf hinn frækna, Hrólf kraka eða Hrafnistumenn, en síður um til dæmis Guðrúnu, Kjartan og Bolla. Þær sögur sem nú ganga undir samheitinu Fornaldarsögur Norðurlanda (og segja m.a. af þessum hetjum sem ég nefndi) voru óheyrilega vinsælar hér á landi öldum saman og fundu sér ekki einungis farveg í lausamálsfrásögnum heldur einnig í fjölda rímnaflokka. Vaxandi þjóðerniskennd og stýrandi smekkur menntamanna olli því að þessar skemmtibókmenntir urðu eins konar olnbogabörn þegar kom fram á 20. öld, já meira eins og curiosum heldur en fullgildar bókmenntir. En á síðustu 30 árum eða svo hefur orðið gleðilegur viðsnúningur á þessu. Fornaldarsögurnar eru rannsakaðar og ræddar frá sífellt nýjum sjónarhornum og nú hillir meira að segja undir að þær verði aðgengilegar í nýjum útgáfum.

Verkið sem í dag hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis sprettur úr þessari spennandi deiglu. Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur sinnt rannsóknum á fornaldarsögum og skyldu efni í um aldarfjórðung og hefur öðlast ómetanlega yfirsýn um sögurnar og fyrri rannsóknir á þeim. Í ritinu Arfur aldanna setur hún sér það metnaðarfulla markmið að fjalla á heildstæðan hátt um uppruna fornaldasagna, efnivið, útbreiðslu og bókmenntaleg einkenni. Þetta er ekkert smáræði, því sögurnar draga langan slóða. Rætur þeirra liggja í sameiginlegum germönskum sagnaarfi sem rekja má aftur á þjóðflutningatímann í Evrópu og landfræðilega verður að ferðast bæði suður í álfu og langt í austurveg til þess að ná utan um dreifingu og þróun sagnaminna sem að endingu öðluðust framhaldslíf í íslenskum frásögnum. Bækurnar tvær sem verðlaunaðar eru í dag, Handan Hindarfjalls og Norðvegur, fjalla einmitt um baksvið fornaldarsagnanna á meginlandi Evrópu annars vegar og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hins vegar. Í þeim opnar Aðalheiður lesendum sýn á fjölbreytt og heillandi samanburðarefni, allt frá króníkum á latínu og germönskum hetjukvæðum til útskurðar, vefnaðar og myndsteina. Hún dregur á ljósan hátt saman rannsóknir fyrri fræðimanna (ritaðar á ýmsum tungumálum) um leið og hún segir frá nýjum aðferðum til þess að nálgast þennan arf, til dæmis þeim sem taka mið af kenningum um minni eða um lifandi flutning og áhrif áheyrenda á sköpun söguefnis.

LESA MEIRA


ALLSKONAR ÖÐRUVÍSI | Skáldskapur í margbreytilegum heimi?

Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir
Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Laugardaginn 5. mars kl. 10:30 – 13:00

Mynd: Ari H. G. Yates

Árleg ráðstefna um skáldskap fyrir börn og unglinga verður haldin í Borgarbókasafninu Gerðubergi laugardaginn 5. mars kl. 10:30-13:00. Í ár beinum við sjónum okkar að því hvernig margbreytileiki birtist í barnabókmenntum. Um mikilvægi þess að tilheyra og eiga heima í skáldskap. Persónur, börn og unglingar, fjölskyldur, kyn, kynhneigð, efnahagur, skynjun, þjóðerni, tungumál, upplifun á veruleikanum er allskonar og það er gott að vera öðruvísi.

Fjórir rit- og myndhöfundar halda erindi um sýn sína á barnabókmenntir fyrr og nú. Það eru þau Þórunn Rakel Gylfadóttir, handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021, Atla Hrafney, myndasöguhöfundur og formaður Íslenska myndasögusamfélagsins, Sverrir Norland, rithöfundur, þýðandi og útgefandi barnabóka, Þórdís Gísladóttir, rithöfundur og þýðandi. Þau munu fjalla um það hvernig er að skrifa og teikna fyrir börn og ungmenni í dag. Um fjölbreytta og jafnvel jaðarsetta hópa, um hugarflug og frelsi til þess að vera og tilheyra í myndasögum og margbreytilegum skáldskap, að fá að vera aðalpersónan og geta speglað sig og vaxið í raunverulegum ævintýrum.

Fundarstjóri er rithöfundurinn Hilmar Örn Óskarsson og myndhöfundur kynningarefnis er Ari H. G. Yates. Þeir sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með streyminu á Facebook.

Fjölbreytileiki heillar  – hvað getum við lært af barnabókmenntum?

Gestum gefst tækifæri til að hlýða á hugleiðingar um barnabókmenntir og taka þátt í umræðum um hlutverk og stöðu bókmennta fyrir börn og ungmenni í dag.

Öll velkomin í Borgarbókasafnið Gerðubergi!

Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir er samstarfsverkefni Félags fagfólks á skólasöfnum, IBBY, SFS, SÍUNG, Upplýsingar og Borgarbókasafnsins.

Viðburður á heimasíðu
Viðburður á Facebook


Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Elísabet Jökulsdóttir og Steinar Bragi Guðmundsson eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Elísabet fyrir bók sína Aprílsólarkuldi. Skáldsaga. Forlagið, 2020.

Steinar Bragi Guðmundsson fyrir skáldsöguna Truflunin. Forlagið, 2020.

Ást, vald og það að vera utangarðs eru á meðal gegnumgangandi stefja í hinum 14 norrænu skáldsögum og ljóðabókum sem tilnefndar eru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022. Bækurnar sem tilnefndar eru í ár koma frá öllum norrænu löndunum og málsvæðunum. Verðlaunabókin verður kynnt í Helsingfors 1. nóvember.

Hér má lesa um aðrar tilnefndar bækur.

Umsögn dómnefndar um Aprílsólarkulda:

„Dáinn. Dáinn. Hvernig gat það verið. Hvað þýddi þetta orð.“ Þannig hefst skáldævisaga Elísabetar Jökulsdóttur Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt). Frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni.

Sagan hverfist um Védísi sem á þröskuldi fullorðinsáranna verður fyrir því áfalli að missa föður sinn, en reynist ófær um takast á við þær tilfinningar sem því fylgja. Andlát föðurins neyðir hana nefnilega ekki aðeins til að horfast í augu við forgengileika manneskjunnar heldur það hvernig uppvöxturinn á alkóhólíseruðu heimili með tilheyrandi feluleikjum út á við, óreiðu, hildarleik, æðisköstum móðurinnar og fjarlægð í samskiptum hefur mótað persónuleika hennar og tilfinningalíf. Hún er alin upp við það að nota tungumálið til að blekkja sjálfa sig og aðra, til að segja ekki það sem hún meinar og meina ekki það sem hún segir. Frá blautu barnsbeini hefur henni þannig verið innrætt að bæla niður allar tilfinningar og frysta, því ekkert er eins hættulegt og tilfinningar. Treginn sem herjar á Védísi eftir föðurmissinn er þannig litaður reiði og eftirsjá, sem hún veit ekki hvernig hún á að höndla eða tjá. Loks flækist það fyrir henni að syrgja föður sem henni finnst að hún hafi í reynd misst löngu áður – eða mögulega aldrei átt. Stærsta sorgin í lífi Védísar felst nefnilega í því að hún fékk aldrei að upplifa áhyggjuleysi æskunnar sem barn.

Stuttu eftir andlátið og í taugaáfallinu miðju kynnist Védís Kjartani og ástarsamband þeirra bræðir klakabrynjuna innra með henni þannig að hún lætur undan afli tilfinninganna. Samband þeirra einkennist af ástsýki og stöðugri vímuefnaneyslu með tilheyrandi þráhyggjuhugsunum, ótta, kvíða og þunglyndi.

Lýsing Elísabetar á því hvernig Védís missir smám saman tengslin við raunveruleikann vegna veikinda sinna og telur sig heyra og sjá margvísleg skilaboð í umhverfinu sem eru öðrum hulin er meistaralega vel útfærð. Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.

Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) hefur á þeim rúmlega þrjátíu árum sem liðin eru frá því hún sendi frá sér sína fyrstu bók verið mikilvæg rödd í íslensku samfélagi. Með einlægni, innsæi, húmor og hispursleysi hefur hún snert við lesendum og beint sjónum að vandasömum viðfangsefnum á borð við ástina í öllum sínum myndum, fíkn af ýmsum toga, ofbeldi í samskiptum, geðveiki og geðheilbrigði. Hún hefur sent frá sér ljóð, örsögur, smásögur, skáldsögur og leikrit. Samhliða ritstörfum hefur Elísabet framið ýmsa gjörninga og var heiðurslistamaður alþjóðlega myndlistartvíæringsins Sequences haustið 2021. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 fyrir Aprílsólarkulda. Hún hefur tvisvar hlotið Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Fyrst árið 2007 fyrir skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins, sem er nokkurs konar systurbók Aprílsólarkulda, og síðan árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett, en ári síðar var hún í fyrsta sinn tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók.

Umsögn dómnefndar um Truflunina:

Skáldsagan Truflunin fjallar um lítið svæði sem er öðruvísi en umheimurinn. Það getur að mati yfirvalda ekki gengið. Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar.

Hið truflaða svæði nær yfir þær götur í miðbæ Reykjavíkur sem bera nöfn hinna fornu guða ásatrúarmanna, Óðinsgata skiptir þar að sjálfsögðu miklu máli, einnig Óðinstorg og Óðinsvé. Utan við hið truflaða svæði er umheimurinn og hann er fjölþjóðlegur, þar skiptir þjóðerni litlu sem engu. Aðalpersónan hefur unnið sér harðsóttan rétt til þess að fara gegnum leyndardómsfullan hjúp eða ormagöng og inn á hið truflaða svæði. Erindi aðalpersónunnar inn í Truflunina er að leita skýringa á því sem á seyði er. Því fer þó fjarri að allt sé sem sýnist í þeirri sendiför. Veraldir í þessari sögu eru lengst af tvær, umheimurinn og truflunin. Í þeim líður tíminn ekki á sama hraða en flest annað er óljóst. Truflunin er samkvæmt textanum hola í umheiminum sem opnaðist inn í söguna 5. mars 2030.

Hið eiginlega viðfangsefni þessarar bókar er að í tölvuvæddum heimi hefur vitund okkar verið teygð yfir allan umheiminn, tengd alnetinu og þannig séð erum við öll að breytast í örlítið mismunandi útgáfur af eins konar samvitund. Sérkenni okkar sópast burtu með straumi tækninnar. Hver treystir sér til að staðhæfa að hann sé einstakur eða frábrugðinn öðrum? Samt hefur einstaklingshyggja ef til vill aldrei risið jafn hátt og hún gerir nú. Þverstæður nútímans láta ekki að sér hæða.

Spurningarnar sem vakna við lestur þessarar bókar eru viðamiklar meginspurningar, meðal annars um vísindasiðgæðið og nútímann. Hér eru nokkur slík dæmi: Sumar þeirra eru vel kunnar: hvenær verður gervigreindin svo öflug að hún verði ekki skilin frá greind mannsins. Ef eftirlíkingin af greind mannsins verður alfullkomin, verður hún þá ekki jafnframt fullkomnari en sú greind sem hver og einn hefur fengið úthlutað? Í kvikmyndum og bókmenntum er oft lýst átökum milli manna annars vegar og ofurtölva/sæborga eða geimvera hins vegar. Þeirri viðureign lýkur yfirleitt með naumum sigri mannsandans sem byggist oftast á hæfileika mannsins til þess að elska og trúa – en hver segir að ekki sé hægt að læra það líka?

Það er svolítið fyndið að þessi gamli bæjarhluti í Reykjavík skuli fá það hlutverk í bókinni að verða tímaskekkjan og truflunin í veröldinni. Kannski höfum við Íslendingar verið tímaskekkja og truflun lengur en okkur grunar.

Steinar Bragi Guðmundsson (f. 1975) hefur gefið út margar bækur og telst til virtustu höfunda Íslands.

„Hvernig lýsir maður því þegar manneskja fer úr einum heimi yfir í annan, sem er alveg eins, og það er engin leið til baka?“ Þetta sagði rithöfundurinn Steinar Bragi um skáldsögu sína, Truflunina.

Rithöfundasamband Íslands óskar Elísabetu og Steinari Braga til hamingju með tilnefninguna!


Íslensku þýðingaverðlaunin 2022 afhent á Gljúfrasteini

Íslensku þýðingaverðlaunin 2022 voru veitt á Gljúfrasteini laugardaginn 19. febrúar sl. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Guðrún C. Emilsdóttir formaður ÞOT, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Þorgerður Agla Magnúsdóttir útgefandi, Gunnar Þorri Pétursson þýðandi og María Rán Guðjónsdóttir útgefandi.


Í ár hlaut Gunnar Þorri Pétursson verðlaunin fyrir þýðingu sína Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlana Aleksíevítsj. Angústúra gefur út.


Umsögn dómnefndar er eftirfarandi:


Verkið samanstendur fyrst og fremst af frásögnum fórnarlamba slyssins í Tsjernobyl sem hingað til hefur of lítill gaumur verið gefinn, en þessi aðferð er í anda annarra verka höfundarins, Svetlönu Aleksíevítsj, sem áður hefur skrifað um sovéskar konur sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni, frásagnir barna úr því stríði og hernaðarbrölt Sovétmanna í Afganistan. Þeir sem segja sögu sína hér eru af ýmsum meiði, fræðimenn, eiginkonur þeirra sem verst urðu úti, foreldrar sem horfa á börn sín veikjast og deyja, flóttafólk sem sneri aftur, fólk sem flutt var með valdi af hættusvæðinu, fólk sem vildi ekki yfirgefa jarðir og búfénað, börn, hermenn sem sáu um hreinsun og svo „hetjurnar”.


Þetta er ekki predikun, en af frásögnunum sést að erindið er brýnt og að ekki má gleyma atburðunum í Tsjernobyl, því áhrifa þeirra gætir enn og þeir munu hafa áhrif um ókomna tíð. Verkið segir skelfilega sögu, ekki einungis um atburðinn sjálfan, heldur og um það sem fylgdi í kjölfarið og ekki síst um vald og valdsmenn sem bregðast þjóð sinni með lygum og þöggun þannig að öll viðbrögð fólksins verða ómarkviss og tilviljanakennd.


„Sagnfræði sem lendir á milli þilja, ” eins og höfundur verksins orðar það. Undirtitill verksins „framtíðarannáll”, vekur skelk og ekki síður einkunnarorðin, „Við erum úr lofti en ekki úr jörðu komin”. Það boðar ekki gott að vera úr loftinu sem Tsjernobyl andaði yfir okkur.


Hér skilar Gunnar Þorri góðu verki. Hann þarf að setja sig í spor allra þeirra ólíku aðila sem hér segja sögu sína og túlka stöðu þeirra og tilfinningar í gegnum málfarið. Hann gerir það af mikilli þekkingu og góðu innsæi sem sést best af því hvernig hann miðlar röddum verksins og af blæ orðanna skynjum við ólíkar persónur. Hér er ekki um oftúlkun að ræða, heldur raunsæja lýsingu án nokkurrar yfirborðsmennsku. Verkið sýnist auðvelt í framkvæmd, en mikla kunnáttu þarf til að þekkja slík blæbrigði og mikið þolgæði þegar lýst er svo hrikalegum atburðum. Gunnar Þorri vinnur verk sitt af einurð.

<iframe width="560" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/JR_wettxcuc" title="YouTube video player" frameborder="0" allow="accelerometer; autoplay; clipboard-write; encrypted-media; gyroscope; picture-in-picture" allowfullscreen></iframe>

Aðrir tilnefndir þýðendur voru:

Ásdís R. Magnúsdóttir, fyrir þýðingu sína Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda. Ýmsir höfundar. Háskólaútgáfan gefur út.

Hallgrímur Helgason, fyrir þýðingu sína Hjartað mitt. Höfundar Jo Witek og Christine Roussey. Drápa gefur út.

Jóhann Hauksson, fyrir þýðingu sína Rannsóknir í heimspeki. Höfundur Ludwig Wittgenstein. Háskólaútgáfan gefur út.

Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Glæstar vonir. Höfundur Charles Dickens. Mál og menning gefur út.

Jón Hallur Stefánsson, fyrir þýðingu sína Ef við værum á venjulegum stað. Höfundur Juan Pablo Villalobos. Angústúra gefur út.

Sólveig Sif Hreiðarsdóttir, fyrir þýðingu sína Á hjara veraldar. Höfundur Geraldine McCaughrean. Kver gefur út.

Íslensku þýðingaverðlaunin, sem Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda standa að, voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.