Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Tilnefningar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017

Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Tólf verk eru tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017. Frá Íslandi eru Kristín Ragna Gunnarsdóttir er tilnefnd fyrir Úlfur og Edda: Dýrgripurinn (2016) og Hafsteinn Hafsteinsson fyrir Enginn sá hundinn (2016).

Verðlaunin verða afhent þann 1. nóvember 2017 í Helsinki. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu norden.org.

kápumyndir


Kosningar til stjórnar RSÍ 2017

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 27. apríl n.k. kl. 19.30.

Framboðsfrestur til stjórnar rann út 23. mars s.l.

Kosnir verða tveir meðstjórnendur og einn varamaður. Kosningarnar munu nú í fyrsta sinn fara fram rafrænt. Kjörfundur hefst 12. apríl og lýkur á miðnætti 26. apríl. Allir skuldlausir félagsmenn (einnig heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagsmenn) munu fá sendan hlekk á kjörseðil áður en kjörfundur hefst.

Í framboði til meðstjórnenda eru: Margrét Tryggvadóttir, Óskar Magnússon og Vilhelm Anton Jónsson.

Til varamanns: Halla Gunnarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

Meðfylgjandi kynningar hafa borist frá frambjóðendum.

Til meðstjórnanda:

MVT

Ég heiti Margrét Tryggvadóttir og býð mig fram til starfa í stjórn Rithöfundasambandsins. Nýlega voru SÍUNG – Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda endurvakin og þar sit ég í stjórn. Okkur hefur verið bent á að æskilegt sé að fulltrúi frá SÍUNG sitji í stjórn RSÍ og sá háttur var á áður.

Ég hef skrifað nokkrar bækur, flestar fyrir börn en þýtt eða ritstýrt enn fleiri verkum. Það veganesti sem ég vil taka með mér er þó ekki síður meistararitgerð sem ég vann á síðasta ári um opinbera stefnumótun og stuðning (eða stuðningsleysi) við barnabækur á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku (sjá nánar http://skemman.is/handle/1946/26777 ).

Blómlegri barnabókaútgáfa er ekki bara hagsmunamál barnabókahöfunda eða ungra lesenda heldur okkar allra. Þeir sem ekki lesa sér til yndis og ánægju sem börn munu vart taka upp á því síðar á lífsleiðinni. Áfram barnabækur!

Til meðstjórnanda:

VAJ

Vilhelm Anton Jónsson hefur sent frá sér sex bækur. Hann hefur verið virkur í menningar- og listalífi landsins undanfarin ár. Hann er forsprakki hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar, hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og fjórum kvikmyndum. Hann hefur samið eða verið tónlistarstjóri í fjórum leiksýningun, m.a. samdi hann tónlist fyrir leikritið Horn á Höfði sem vann Grímuverðlaun sem besta barnaleikritið. Vilhelm hefur auk þess unnið sem dagskrárgerðarmaður í mörg ár og komið að skipulagningu stórra viðburða ýmisskonar. Vilhelm var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir Vísindabók Villa sem var fyrsta bókin í þeirri ritröð sem hefur hlotið frábærar viðtökur.

„Ég held að reynsla mín og áhugi á starfi listamanna muni nýtast mér afar vel sem stjórnarmaður í Rithöfundasambandinu, eins þau tengsl við fólk í ólíkum geirum sem snerta starf og hag rithöfunda á einn eða annan hátt.“

Til varamanns:

HallaÉg heiti Halla Gunnarsdóttir og hef verið félagi í Rithöfundasambandinu frá árinu 2008. Eftir mig liggja fjórar útgefnar bækur, tvær ljóðabækur, fræðibók og ævisaga.

Ég er menntuð sem kennari og með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum. Ég starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2003–2008 og síðan sem aðstoðarmaður ráðherra fram til ársins 2013 þegar ég fluttist til Bandaríkjanna. Ég er nú búsett í Bretlandi þar sem ég starfa fyrir þverpólitískan stjórnmálaflokk, Women’s Equality Party, en stefni að heimflutningi á næstunni. Ég tel að reynsla mín úr fjölmiðlum og þekking á íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálum geti komið að góðu gagni í þeim baráttumálum sem framundan eru hjá Rithöfundasambandinu. Ég myndi leggja mig alla fram í hagsmunabaráttunni, sem að mínu mati snýst ekki einvörðungu um rithöfunda heldur líka um listir og menningarlíf í víðu samhengi.

Til varamanns:

bjarneyÉg heiti Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Ég hef gefið út fjórar ljóðabækur, eina nóvellu og eitt smásagnasafn. Fyrsta bókin, Fjallvegir í Reykjavík, kom út fyrir tíu árum.

Ég hef fengist við ýmislegt eins og kennslu, leiðsögustörf, aðstoð á Bókmenntahátíð í Reykjavík o.fl. Ég hef meðal annars numið ritlist og íslenskar bókmenntir í Háskóla Íslands en þessa dagana fæst ég við lestur og skrif um hugmyndaheim sautjándu aldar.

Í mörg ár starfaði ég á Einkaleyfastofunni og síðan hjá STEFi (Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar) og hef því þekkingu á höfundarétti. Ég hef setið sem varamaður í stjórn RSÍ frá 2015 og hef ásamt Kristínu Ómarsdóttir séð um að birta bréfaskrif höfunda/listamanna á höfundavef sambandsins.


Heiðursfélagi og fyrsti formaður Rithöfundasambands Íslands er fallinn frá

formenn 012

Sigurður A. Magnússon rithöfundur og þýðandi er látinn 89 ára að aldri, hann lést í Reykjavík 2. apríl. Sigurður var ötull baráttumaður fyrir hagsmunum rithöfunda og leiddi sameiningu þeirra í eitt stórt og öflugt stéttarfélag. Hann var formaður Rithöfundafélags Íslands 1971 – 1972, formaður Rithöfundasambands Íslands hins fyrra 1972 – 1974 og fyrsti formaður Rithöfunda- sambands Íslands hins síðara 1974 – 1978. Íslenskir rithöfundar eiga SAM mikið að þakka.

Í stjórnartíð Sigurðar hjá RSÍ var loks gengið frá samningum við Ríkisútvarpið, fyrsti samningur við útgefendur var undirritaður í desember 1975 og skömmu síðar var í fyrsta sinn undirritaður samningur milli leikhúsanna í Reykjavík og leikritahöfunda. Á þessum tíma var líka gerður fyrsti samningur við Námsgagnastofnun. Stofnun Launasjóðs rithöfunda var síðan lögfest í árslok 1975. Verk Sigurðar í þágu menningar sjást víða og samverkamenn og þjóð eiga honum mikið að þakka. Barátta hans fyrir réttindum höfunda er undirstaða þess umhverfis sem ritlistinni er búið í dag. Okkar hlutverk er að standa vörð um þann góða grunn.

Rithöfundasambandið þakkar Sigurði samfylgdina og dýrmæta leiðsögn og sendir fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur.


Degi barnabókarinnar fagnað

Smásagan Stjarnan í Óríon frumflutt fyrir alla
grunnskólanema landsins í stærstu sögustund ársins

Kynferðislegt áreitiÍ fyrramálið verður smásaga eftir Hildi Knútsdóttur frumflutt í öllum grunnskólum landsins kl. 9.10. Sagan verður samtímis flutt á Rás 1 svo að öll þjóðin getur lagt við hlustir.
Hildur skrifaði söguna Stjarnan í Óríon fyrir börn á aldrinum 6-16 ára í tilefni dags barnabókarinnar að beiðni IBBY á Íslandi, en þetta er í sjöunda sinn sem félagið fagnar deginum með þessum hætti. Hildur hlaut fyrr í vor Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir nýjustu bók sína, Vetrarhörkur, en bækur hennar hafa fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Stjarnan í Óríon fjallar um stúlkuna Þebu sem uppgötvar glænýja stjörnu á himinhvolfinu. Hildur segir um söguna:

„Alheimurinn er svo fáránlega stór og við vitum í rauninni svo rosalega lítið um hann. Við gleymum því stundum því við erum svo upptekin af okkar daglega amstri. Þessvegna langaði mig til að skrifa sögu um dularfulla stjörnu sem birtist skyndilega á himnum og möguleikann á því að við séum ekki ein í heiminum.“

Sagan verður lesin fyrir grunnskólabörn á öllum aldri og er verkefnið hluti af þeirri hugsjón félagsins að lestraráhugi og lestrarfærni fáist fyrst og fremst með því að færa ungum lesendum vandaðar og spennandi sögur. Dagur barnabókarinnar er sunnudaginn, 2. apríl, sem er fæðingardagur H.C. Andersen, en sagan er flutt 30. mars svo allir grunnskólanemar landsins geti hlustað á hana saman.
Mjög góð þátttaka hefur verið í sögustundinni undanfarin ár og skemmtileg stemning myndast um allt land. Við hvetjum fjölmiðla til þess að hafa samband við nærliggjandi grunnskóla og fá að fylgjast með – og hlusta í leiðinni á skemmtilega sögu!


Sviðslistir í brennidepli – Framtíð leikritunar á Íslandi

Umræðukvöld um framtíð leikritunar á Íslandi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8,
mánudaginn 27. mars kl. 20.15.

Frummælendur:
Hrafnhildur Hagalín listrænn ráðunautur Borgarleikhússins
Símon Birgisson handrits- og sýningadramatúrg Þjóðleikhússins
Friðrik Friðriksson leikari og framkvæmdastjóri Tjarnarbíós
Bjarni Jónsson leikskáld

Hlín Agnarsdóttir rithöfundur og leikstjóri stjórnar umræðum

Hægt er að taka leið 14 nánast upp að dyrum á Gunnarshúsi.

Slide1


Ævar Þór á Aarhus 39-listanum

AEvarThorBenediktsson_72Alþjóðlega barnabókahátíðin Hay Festival hefur kynnt hinn svokallað Aarhus 39-lista, 39 bestu evrópsku barnabókahöfundana undir 39 ára aldri. Ævar Þór Benediktsson,  var þar á meðal. Hann er staddur í London til að veita viðurkenningunni móttöku og taka þátt í pallborðumræðum um barnabækur.

Höfundarnir á listanum koma til með að vinna saman að metnaðarfullu verkefni fyrir menningarborg Evrópu, Aarhus. Til stendur að halda bókmenntahátíð þar síðar á árinu auk þess sem að út koma tvö söfn með verkum höfundanna á dönsku og ensku.

Í dómnefnd sátu þrír virtir barnabókahöfundar; Kim Fupz Aakeson frá Danmörku, Ana Cristina Herreros frá Spáni og Matt Haig frá Englandi. Höfundarnir sem valdir voru fengu það verkefni að skrifa sögu byggða á þemanu „Ferðalag“ en þær koma út í fyrrnefndum söfnum hjá Alma Books í Bretlandi og Gyldendal í Danmörku. Saga Ævars, ,,Bókaflóttinn mikli”, fjallar um einstaklega vaskan bókasafnsfræðing sem kemst í hann krappan.


Menningarverðlaun DV

sjon

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2016 voru veitt við hátíðlega athöfn í Iðnó í gær, miðvikudaginn 15. mars. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu.

Rithöfundurinn Sjón hlaut verðlaunin í flokki bókmennta fyrir skáldsöguna Ég er sofandi hurð, sem er þriðju hluti þríleiksins CoDex 1962. Hann hefur einmitt hlotið verðlaunin fyrir fyrri tvo hluta þríleiksins, Augu þín sáu mig (árið 1995) og Með titrandi tár (árið 2002). Það er einsdæmi að rithöfundur hafi hlotið verðlaunin fyrir alla hluta eins og sama þríleiksins.

Eftirfarandi einstaklingar og hópar hlutu Menningarverðlaun DV 2016.

Bókmenntir – Sjón fyrir skáldsöguna Ég er sofandi hurð.
Fræði – Guðrún Ingólfsdóttir fyrir fræðiritið Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar.
Tónlist – Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari.
Danslist – Helena Jónsdóttir, fyrir brautryðjandastarf í dansmyndagerð á Íslandi.
Leiklist – Sólveig Guðmundsdóttir, fyrir leik sinn í Illsku og Sóley Rós ræstitæknir.
Kvikmyndir – Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival.
Myndlist – Hildur Bjarnadóttir, myndlistarkona og textíllistamaður.
Hönnun – Hönnunarfyrirtækið Tulipop.
Arkitektúr – PKdM arkitektar fyrir skrifstofur og verksmiðju Alvogen í Vatnsmýri.
Lesendaverðlaun dv.is – Ásrún Magnúsdóttir, danshöfundur, og stelpurnar í dansverkinu Grrrls
Heiðursverðlaun – Kristbjörg Kjeld, leikkona.