Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Auður Ava Ólafsdóttir og Sigurður Pálsson tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018

Tilkynnt var um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Alls eru þrettán verk tilnefnd og tilnefndar bækur frá Íslandi eru Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur og Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. Rithöfundasambandið óskar Auði Övu og fjölskyldu Sigurðar innilega til hamingju með tilnefningarnar!

Kristín Jóhannesdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir

Kristín Jóhannesdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir

Lesa meira um tilnefnd verk.


Jæja frá formanni …

Jæja, kæru félagar. Eitt og annað er títt úr Gunnarshúsi að venju. Öllu miðar áfram, sumu hratt og örugglega, öðru hægt og bítandi. Við sem drögum vagn um stundarsakir reynum að sleppa aldrei takinu, halda þétt við og leita nýrra leiða.

Fyrst ber að telja fund stjórnar og starfsliðs RSÍ með Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, í janúarlok. Við höfðum með okkur aðgerðaráætlun RSÍ fyrir íslenskar bókmenntir og tungumál og fylgir hún hér:

Afnám virðisaukaskatts á bókum. Mikilvæg táknræn og hagræn aðgerð fyrir þjóðfélag, tungumál og bókmenntir.

Margföldun Bókasafnssjóðs og breyting á lagaumhverfi hans. Grundvöllur barnabókmennta.

Innviðasjóður íslenskrar tungu: Framtíð og umhverfi bókmennta á íslensku. Starfslaunasjóður rithöfunda þarf að stækka til muna til að viðhalda stétt atvinnuhöfunda sem semur á íslensku.

MÍB- Miðstöð íslenskra bókmennta. Stórefla þarf þýðingasjóð – menningarsjóð og útflutningssjóð. Auk þess þarf að stofna sérstakan útgáfusjóð fyrir bækur handa yngstu lesendunum.

Metnaðarfull innkaupastefna fyrir skóla- og héraðsbókasöfn. Bækur fyrir alla að norskri fyrirmynd.

Kynning á kjaramálum rithöfunda. Fjárhagslegur veruleiki atvinnuhöfundar.

Ráðherra tók vel í erindi okkar og var sammála mörgum af okkar áhersluatriðum. Bókmenntir, læsi og tungumál virðast hennar stærstu áherslumál í ráðuneytinu og við erum bjartsýn á samstarfið. Hún var sammála okkur um að hún væri fagmálaráðherra bókmenntanna og að náið samstarf yrði að vera á milli fulltrúa rithöfunda og ráðuneytisins. Þannig var ákveðið að funda fljótlega aftur til að kanna hvernig miðar.
Á borði ráðherra liggja tillögur að bókmenningarstefnu, en þær eru niðurstaða úr starfi nefndar sem Kristján Þór Júlíusson setti á laggirnar áður en hann hvarf til annarra starfa.  Í þeirri nefnd sátu fulltrúar RSÍ, Hagþenkis, MÍB og FÍBÚT ásamt tveimur fulltrúum frá menntamálaráðherra og einum frá fjármálaráðuneyti.

Samningar við RÚV þokast í rétta átt og vænti ég þess að til tíðinda dragi fljótlega. Vonandi verður hægt að undirrita þá fyrir sumarið.

RSÍ auglýsti á dögunum eftir umsóknum um greiðslur úr IHM-sjóði Rithöfundasambandsins. Rétt til úthlutunar eiga rithöfundar, leikskáld, þýðendur, handritshöfundar og aðrir höfundar og þýðendur leikins efnis og annarra skáldverka, sem frumflutt voru eða endurflutt í sjónvarpi árin 2013-2016. Umsækjendur geta sótt um óháð félagsaðild. Þetta er í síðasta sinn sem greitt er úr sjóðnum samkvæmt þessu fyrirkomulagi.  Verið er að hanna nýtt umhverfi og semja nýjar úthlutunarreglur fyrir næstu úthlutun sjóðsins.

Tinna Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri, og Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri RSÍ hafa undanfarnar vikur unnið ýtarlega kjararannsókn sem varpar ljósi á fjárhagslega stöðu rithöfunda og þann bitra veruleika sem höfundur stendur frammi fyrir þegar hann reynir að lifa eingöngu af ritverkum sínum. Þessar niðurstöður verðum við, félagar RSÍ,  að skoða og ræða saman á félagsfundi sem allra fyrst. Fljótlega verður boðað til hádegisfundar þar sem rannsóknin verður kynnt.

Ástkær heiðursfélagi og skáldbróðir, Þorsteinn frá Hamri, féll frá nú í janúarlok. Verkin lifa, snerta og móta um ókomna tíð. Með trega og þakklæti kveðjum við góðan félaga.

Kristín Helga


Þorsteinn frá Hamri minning

Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri

Í dag fylgjum við heiðursmanni og þjóðskáldi, Þorsteini frá Hamri, til grafar.

Eftirfarandi eru kveðjuorð frá Rithöfundasambandi Íslands sem birtust í Morgunblaðinu í morgun:

Andrá
Að vísu
Að vísu
er stundin hverful og stutt
en gefum dýpt hennar gaum
sem alkyrrð vatni
og auga
(Þorsteinn frá Hamri)

Heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands kveður. Þorsteinn frá Hamri hverfur hljóðlega út í ljóðheiminn eilífa. Í sorg og söknuði finnum við hin svo þunglega hve stundin er hverful og stutt. En um leið gefum við dýpt hennar gaum í gegnum skilningarvit skáldsins. Við skynjum hve listsköpun Þorsteins stækkar heiminn og skilgreinir veröldina – hvernig verkin hans taka utan um hnattlífið og mennskuna í þéttu faðmlagi ljóða og orða.

Þannig var Þorsteinn líka sem manneskja og þess vegna er hann svo einstök, ógleymanleg og hljómmikil rödd skáldskaparins – af því að hann bjó yfir manngæsku, mildi og næmi fyrir fólki og tungumáli sem er algilt og sérstætt í senn. Umburðarlyndi, víðsýni og hlýja til þess sem nærist og andar gefur rödd skáldsins tæran hljóm, bergmál og dýpt – veitir henni vængi svo hún svífur hærra og segir sögu okkar allra á svo óendanlega vegu.

Tvítugur kvaddi þessi Borgfirðingur sér hljóðs með ljóðabókinni Í svörtum kufli. Þar með hafði hann stillt sinn áttavita og æviverkið er stórt – ljóð, þýðingar, skáldverk og sagnaþættir. Ljóð Þorsteins eru löngu samofin klassískum arfi þjóðar og víða má merkja áhrif hans á samferðaskáldin.

Það kólnaði og fölnaði þegar skáldið kvaddi. Við, félagar og samferðamenn, söknum og minnumst. Þorsteinn var heiðursfélagi sambandsins frá 2006 og sat í stjórn á árunum 1984 til 1988. Áður hafði hann setið í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1966 til 1968. Hann var stéttvís maður, réttsýnn og trúfastur. Þannig fylgdist hann reglubundið með störfum sambandsins, var ráðagóður og bar hag félaga sinna og bókmenntanna ávallt fyrir brjósti. Gjöfult spjall, kímin og skýr sýn, hlýtt handtak, djúpstæður mannkærleikur og sefandi fas lifir í verkum sem við fáum í nesti áfram veginn.

Vísa
Söknuður í brjósti mínu:
svöl tjörn á fjallinu.
Í tærri lygnunni
titrar mynd þín,
þegar blærinn andar
hvísla bárurnar orð þín,
söknuður í brjósti mínu,
segðu það engum.
Svöl og djúp
tjörn á fjallinu.
                          (Þorsteinn frá Hamri)

Fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands votta ég Laufeyju og fjölskyldu dýpstu samúð á kveðjustund. Blessuð sé minning Þorsteins frá Hamri.

Kristín Helga Gunnarsdóttir,
formaður Rithöfundasambands Íslands

 


Ísnálin: Hrafnamyrkur besta þýdda glæpasagan 2017

snjolaug

Ísnálina 2017 hljóta rithöfundurinn Ann Cleeves og þýðandinn Snjólaug Bragadóttir fyrir glæpasöguna Hrafnamyrkur (Raven Black).

Hrafnamyrkur er fyrsta bókin í syrpu sem gerist á Hjaltlandseyjum og það var mat dómnefndar að í bókinni færi saman mjög spennandi og vel uppbyggð glæpasaga frá einum fremsta glæpasagnahöfundi Bretlands og afburðagóð íslensk þýðing frá afar reyndum þýðanda.

Snjólaug Bragadóttir tók við verðlaununum, en Ann Cleeves átti ekki heimangengt.

Þetta er fjórða árið sem verðlaunin eru veitt. Að verðlaununum standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka.

Dómnefnd skipa Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Jóhann R. Kristjánsson og Ragnar Jónasson.

Ljósmynd: Snjólaug Bragadóttir tók við Ísnálinni 2017 í Gunnarshúsi í gær.


Úthlutanir úr IHM-sjóði

Í samræmi við reglur um ráðstöfun greiðslna frá Innheimtumiðstöð gjalda auglýsir RSÍ hér með eftir umsóknum um fjárframlög úr svonefndum IHM-sjóði Rithöfundasambandsins. Rétt til úthlutunar úr myndbanda- og geisladiskageira eiga rithöfundar, leikskáld, þýðendur, handritshöfundar og aðrir höfundar og þýðendur leikins efnis og annarra skáldverka, sem flutt (frumflutningur og endurflutningur) hafa verið í sjónvarpi ári 2013, 2014, 2015 og 2016. Um úthlutun geta sótt allir þeir sem telja sig eiga rétt, án tillits til félagsaðildar. Höfundum handrita fræðslu- og heimildarmynda er bent á að sækja um til Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslu­gagna.

Með umsóknum fylgi yfirlit um birt verk umsækjanda í sjónvarpi  2013, 2014, 2015 og 2016. Taka skal fram lengd flutnings í mínútum, flutningsstað, dagsetningu flutnings og hlutfall ef höfundar eru fleiri en einn.

Sótt er um á rafrænu umsóknareyðublaði á heimasíðu Rithöfundasambandsins, https://rsi.is/verdlaun-og-sjodir/ihm-sjodur-umsoknareydublad/

Umsóknir skulu berast fyrir 1. mars n.k.

Vakin er athygli á að þetta er  í  síðasta sinn sem úthlutað er á grundvelli núgildandi úthlutunarreglna. Nýjar reglur verða lagðar fyrir aðalfund RSÍ í apríl. Úthlutun vegna ársins 2017 verður auglýst þegar nýjar reglur liggja fyrir og greiðslur hafa borist frá Innheimtumiðstöð gjalda.


Tíu framúrskarandi rit tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis

Hagthenkir2018Til­kynnt var 1. febrúar sl. hvaða tíu bæk­ur eru til­nefnd­ar til Viður­kenn­ing­ar Hagþenk­is, fé­lags höf­unda fræðirita og kennslu­gagna, fyr­ir árið 2017. Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings.

Viður­kenn­ing Hagþenk­is 2017 verður síðan veitt við hátíðlega at­höfn í Þjóðar­bók­hlöðunni um mánaðamót fe­brú­ar og mars og felst í sér­stöku viður­kenn­ing­ar­skjali og 1.250.000 kr. Á Degi bók­ar­inn­ar þann 23. apríl standa Hagþenk­ir og Borg­ar­bóka­safnið að fyr­ir kynn­ingu á til­nefnd­um bók­um í sam­starfi við höf­unda þeirra.

Viður­kenn­ing­ar­ráð Hagþenk­is er skipað fimm fé­lag­mönn­um til tveggja ára i senn og í því eru: Auður Styr­kárs­dótt­ir, Guðný Hall­gríms­dótt­ir, Henry Al­ex­and­er Henrys­son, Helgi Björns­son og Sól­rún Harðardótt­ir

Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings. Árið 2006 var tek­in upp sú nýbreytni að til­nefna tíu höf­unda og bæk­ur er til greina kæmu.

Eft­ir­far­andi höf­und­ar og bæk­ur eru til­nefnd í staf­rófs­röð höf­unda:

Aðal­heiður Jó­hanns­dótt­ir. Inn­gang­ur að skipu­lags­rétti – lag­arammi og réttar­fram­kvæmd. Há­skóla­út­gáf­an. „Heild­stætt rit um flók­inn heim skipu­lags­rétt­ar. Hand­bók sem gagn­ast bæði lærðum og leik­um,“ seg­ir í um­sögn ráðsins.
Ásdís Jó­els­dótt­ir. Íslenska lopa­peys­an – upp­runi, saga og hönn­un. Há­skóla­út­gáf­an. „Margþætt rann­sókn í tex­tíl­fræði sem lýs­ir sam­spili hand­verks, hönn­un­ar og sögu prjónaiðnaðar í fal­legri út­gáfu.“
Eg­ill Ólafs­son og Heiðar Lind Hans­son. Saga Borg­ar­ness I og II. – Byggðin við Brákarpoll og Bær­inn við brúna. Borg­ar­byggð og Opna. „Áhuga­verð saga sem á sér skýr­an sam­hljóm í þróun Íslands­byggðar al­mennt, studd ríku­legu og fjöl­breyttu mynd­efni.“

Hjálm­ar Sveins­son og Hrund Skarp­héðins­dótt­ir. Borg­in – heim­kynni okk­ar. Mál og menn­ing.  „Fróðleg hug­vekja og fram­lag til þjóðfé­lagsum­ræðu um skipu­lag, lífs­hætti og um­hverf­is­mál í borg­ar­sam­fé­lagi.“

Stefán Arn­órs­son. Jarðhiti og jarðarauðlind­ir. Hið ís­lenska bók­mennta­fé­lag. „Ein­stak­lega ít­ar­legt rit um auðlind­ir í jörðu og brýn áminn­ing um að huga að sjálf­bærni við nýt­ingu nátt­úru­auðæfa.“

Stefán Ólafs­son og Arn­ald­ur Sölvi Kristjáns­son. Ójöfnuður á Íslandi – skipt­ing tekna og eigna í fjölþjóðlegu sam­hengi. Há­skóla­út­gáf­an. „Skýr og aðgengi­leg grein­ing á þróun eigna og tekna á Íslandi og mis­skipt­ingu auðs í alþjóðleg­um sam­an­b­urði.“

Stein­unn Kristjáns­dótt­ir. Leit­in að klaustr­un­um – klaust­ur­hald á Íslandi í fimm ald­ir. Sögu­fé­lag og Þjóðminja­safn Íslands. „Um­fangs­mik­il og vel út­færð rann­sókn sem varp­ar nýju ljósi á sögu klaust­ur­halds á Íslandi. Frá­sagn­ar­stíll höf­und­ar gef­ur verk­inu aukið gildi.“

Unn­ur Jök­uls­dótt­ir. Und­ur Mý­vatns – um fugla, flug­ur, fiska og fólk. Mál og menn­ing. „Óvenju hríf­andi frá­sagn­ir af rann­sókn­um við Mý­vatn og sam­bandi manns og nátt­úru.“

Úlfar Braga­son. Frelsi, menn­ing, fram­för – um bréf og grein­ar Jóns Hall­dórs­son­ar. Há­skóla­út­gáf­an. „Næm lýs­ing á sjálfs­mynd, vænt­ing­um og viðhorf­um vest­urfara við aðlög­un þeirra að sam­fé­lagi og menn­ingu Norður-Am­er­íku.“

Vil­helm Vil­helms­son. Sjálf­stætt fólk – vist­ar­band og ís­lenskt sam­fé­lag á 19. öld. Sögu­fé­lag. „Aðgengi­legt og vel skrifað rit sem sýn­ir hvernig vinnu­fólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hvers­dags­legu and­ófi og óhlýðni.“


Íslensku bókmenntaverðlaunin

verðlaunin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum.

Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler hlutu verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Skrímsli í vanda.

Í umsögn dómnefndar um bókina segir að hún sé litríkt og fallegt verk sem taki á viðfangsefni sem snertir okkur inn að kviku. „Skrímsli í vanda er marglaga saga fyrir alla aldurshópa, sem sómir sér vel í hinum glæsilega skrímslabókaflokki.“

Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt.
Í umsögn dómnefndar um bók Kristínar segir að hún sé vandlega úthugsuð og margslungin skáldsaga, „sem te‏flir fínlega saman ólíkri veruleikaskynjun persónanna í áhrifaríkri frásögn af hverfulu eðli minninga.“

Unnur Jökulsdóttir hlaut verðlaun fyrir bókina Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Í umsögn dómnefndar um bók Unnar segir að hún sé einstætt listaverk sem  „miðlar fræðilegri þekkingu með ástríðu fyrir lífskraftinum og persónulegri sýn á það sem fyrir augu ber, jafnt óvægna grimmd sem blíðustu fegurð.“

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé, Sigurjón Kjartansson og Gísli Sigurðsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar. Hér má sjá hvaða bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í ár.