Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Maístjarnan veitt 18. maí

8stjarna9Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn bjóða félagsmönnum RSÍ að vera viðstaddir afhendingu Maístjörnunnar vegna ársins 2016 en Maístjarnan verður veitt í fyrsta sinn við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí, á degi ljóðsins, kl. 17.

 

Dagskrá:

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður býður gesti velkomna og kynnir dagskrá afhendingar ljóðaverðlaunanna.

Kári Tulinius segir frá tildrögum Maístjörnunnar.

Fulltrúi dómnefndar kynnir verðlaunahafann og flytur rökstuðning fyrir vali sínu.

Verðlaunahafinn ávarpar samkomuna.

Sigurður Skúlason leikari les ljóð úr verðlaunabókinni.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar opnuð.

Lesa meira


Fundur um málefni Hljóðbókasafns

Það var góð mæting á hádegisfund um málefni Hljóðbókasafns í Gunnarshúsi í dag. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, skýrði frá lagaumhverfi safnsins og þeim lagabreytingum sem í vændum eru. Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður, og Einar Hrafnsson voru gestir okkar frá Hljóðbókasafni. Þau gerðu grein fyrir starfssemi safnsins og því breytta tækniumhverfi sem safnið er að taka í gagnið í ár, en það mun takamarka mjög möguleika á misnotkun. Félagsmenn lögðu fram spurningar og viðruðu áhyggjur sínar af efnisnotkun Hljóðbókasafnsins. Þetta var upplýsandi fundur og gott veganesti fyrir forystu RSÍ í viðræðum sem framundan eru við Menntamálaráðuneyti um samning vegna Hljóðbókasafnsins.


HÁDEGISFUNDUR Í GUNNARSHÚSI 11.MAÍ

Opinn kynningarfundur fyrir félagsmenn RSÍ um Hljóðbókasafn

Kæru félagar, við boðum til hádegisfundar í Gunnarshúsi, fimmtudaginn 11. maí næstkomandi, um réttindi höfunda vegna framleiðslu og útlána Hljóðbókasafns.

Fundurinn hefst kl. 12:00 og lýkur 13:00. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, gerir stuttlega grein fyrir lagaumhverfinu og Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands, skýrir frá starfssemi safnsins. Vonandi koma sem flestir sem láta sig málið varða.

Bestu kveðjur,

Kristín Helga,

formaður  RSÍ


Yfirlýsing frá stjórn og starfsfólki RSÍ

Í ljósi þeirrar umræðu sem nú á sér stað á samfélagsmiðlum er rétt að upplýsa að stjórn og starfsmenn sambandsins hafa aldrei átt nokkurn þátt í nauðungarvistun félagsmanns, hvorki með beinum né óbeinum hætti. Þegar fjölmargar kvartanir berast um að félagsmaður fari ekki að reglum fésbókarhóps RSÍ telur skrifstofan rétt að bregðast við. Enda segir m.a. í reglum hópsins að vettvangurinn sé hugsaður sem leið til upplýsingamiðlunar og fyrir félaga til að spyrja spurninga, vekja athygli á málefnum og til umræðna. Sömuleiðis segir að stjórn RSÍ og starfsfólk hafi vald til að fjarlægja færslur sem eru meiðandi eða falla ekki undir málefnalega umræðu. Einnig er rétt að taka fram hér að atvik þau sem lúta að öryggisráðstöfunum í Gunnarshúsi og vísað er í á þræðinum Menningarátökin komu upp fyrir nokkrum árum. Þar var um beinar hótanir að ræða af hálfu einstaklings sem hvorki er né var félagi í RSÍ. Í dag eru allt aðrar aðstæður uppi í Gunnarshúsi.

Stjórn og starfsfólk RSÍ


Opið fyrir umsóknir

Opið er fyrir umsóknir um starfsstyrki úr Höfundasjóði RSÍ. Styrkirnir eru veittir til ritstarfa og áhersla er lögð á að styrkja höfunda til að ljúka verkum sem eru langt komin. Sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ. Til úthlutunar eru 3.500.000 kr. Veittir verða allt að tíu styrkir. Umsóknarfrestur t.o.m. 25. maí 2017.


Ársskýrsla formanns á aðalfundi 27. apríl.

Kæru félagar,

Það er skarð fyrir skildi, því átta félagsmenn létust á liðnu starfsári. Það voru þau: Sigríður Eyþórsdóttir, Ólöf Eldjárn, Ingibjörg Haraldsdóttir, Stefán Sigurkarlsson, Vigfús Geirdal, Þorvarður Helgason, Þórhallur Þórhallsson og Sigurður A. Magnússon

Við minnumst þessa góða fólks með þögn.

Í þessum hópi eru tveir fyrrum formenn og heiðursfélagar, þau Sigurður og Ingibjörg, sem lögðu línur og komu að mótun þess kjaraumhverfis sem við upplifum í dag. Réttindabarátta ritlistamanna er ýmist varnar- eða sóknarbarátta. Það er svo okkar, sem stöndum í brúnni hverju sinni, að meta hvenær skal sækja og hvenær skal verjast – allt eftir því við hverja á að etja og hvers eðlis hagsmunir eru. Sjaldan er það því miður þannig að allir geri sér grein fyrir gildi og vægi ritverka í siðmenningunni og í raun þykir mér alltaf jafn merkilegt að það þurfi að heyja baráttu fyrir sterkri umgjörð um ritlistina, berjast fyrir þessum grunntóni mannlegrar tilvistar. Svo einkennilegt að samfélagar okkar geri sér ekki alltaf og allir grein fyrir mennskunni og félagslæsinu sem felst í ritverkunum.

Á liðnu ári héldum við aðalfund að vori og svo framhaldsaðalfund í haust þar sem ljúka þurfti stjórnarkjöri frá vorfundi. Starfssemi RSÍ er nokkuð umfangsmikil og í mörg horn að líta. Ragnheiður er hér framkvæmdastjóri í fullu starfi, yfir og allt um kring,  og Tinna kom til liðs við okkur í fyrra sem verkefnisstjóri í hálfu starfi. Nýverið staðfesti stjórn fastráðningu hennar, enda er hún mikill happafengur.  Sjálf er ég oftast á þeytingi og dagarnir stundum langir, en sjaldnast leiðinlegir. Hér er atast í mörgu og má skipta starfsseminni í samninga, sjóðamál, samstarf við stjórnvöld og stofnanir, erlent samstarf og fræðslu-  og félagsstörf, svo sem rekstur orlofshúsa og skáldaskjóla.

Lesa meira


Umsögn RSÍ vegna þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018 – 2022

Rithöfundasamband Íslands lýsir áhyggjum af umhverfi og smæð Bókasafnssjóðs höfunda, en úr honum greiðast afnotagjöld fyrir ritverk til almenningsútlána.

1) Bókasafnssjóður höfunda hefur aldrei náð þeirri stærð sem honum var ætlað, en hann er afar mikilvægur, sérlega fyrir barnabókahöfunda.

2) RSÍ hvetur stjórnvöld til að styrkja innkaup til almennings- og skólabókasafna í landinu. Um leið og hávær umræða er um læsi í samfélaginu þá eru innkaup á nýju efni sáralítil fyrir grunnskólana, en víða eru sameinuð skóla- og hérðasbókasöfn. Menntamálayfirvöld þurfa að koma hér að með öflugum og skipulegum hætti til að stórauka aðgengi almennings, sérlega barna og ungmenna, að nýjum ritverkum. Lestur er vart hægt að auka nema með auknu aðgengi að lesefni. Leikskólar kaupa ekki skipulega inn bækur og þar er engin innkaupaskylda eða fjárstuðningur. Á sama tíma hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að sjá til þess að barnabækur séu samdar og þeim dreift með löggildingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslenskur bókamarkaður er örmarkaður sem ber sig ekki og styðja þarf bæði við höfunda og útgefendur svo hægt sé að gefa út fjölbreytt og vandað efni og efla þannig hugsun og tungumál.

3) Rithöfundasamband Íslands hvetur stjórnvöld til að fjölga starfslaunum í launasjóði rithöfunda svo efla megi stétt atvinnuhöfunda, og skilgreina auk þess viðmið fyrir listamannalaun, sem ekki eru fyrir hendi lengur. Listamenn eru í lægstu launaþrepum og launasjóður á sér engin viðmið.

4) RSÍ hvetur stjórnvöld til að hafa kjark og menningarlegan metnað til að afnema virðisaukaskatt af bókum, en skatturinn er að sliga örmarkað í samfélagi sem kennir sig þó enn við bókmenntir.

5) Rithöfundasambandið hvetur einnig til þess að RÚV ofh fái stóraukinn stuðning til að standa undir merkjum og sinna mikilvægu hlutverki í þágu menningar.
Stjórn RSÍ:
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður
Vilborg Davíðsdóttir, varaformaður
Hallgrímur Helgason
Bjarni Bjarnason
Margrét Tryggvadóttir
Vilhelm Anton Jónsson
Sigurlín Bjarney Gísladóttir