Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar. Það hefur sitthvað gleðilegt gerst og allt hefur tilhneigingu til að fara á besta veg, eins og segir í bókum.

Við Ragnheiður, framkvæmdastjóri, hittum kollegana í NFOR, Norræna þýðenda- og höfundaráðinu, á dögunum. Fyrirferðarmest var umræðan um hljóðbækur og höfundarétt. Talsmaður Storytel hélt erindi um starfssemi þessarar ört vaxandi hljóðbókaútgáfu: https://www.storytel.com/ Í kjölfarið höfum við fundað með Stefáni Hjörleifssyni, forsvarsmanni fyrirtækisins hérlendis, enda hyggur Storytel á landvinninga á Íslandi. Brýnt er að gera sterka samninga fyrir hönd höfunda og standa þannig vörð um höfundaréttinn um leið og stuðlað er að fjölbreyttari leiðum til bóklesturs. Mál þessi eru í nákvæmri skoðun hjá okkur og lögmanni RSÍ og í haust stefnum við svo á ítarlegan félagsfund um hljóðbókamálin með sérstakri áherslu á Storytel. Við munum taka mið af reynslu okkar kollega á norðurlöndum í þessum efnum.

Þá sótti framkvæmdastjóri fund Evrópska rithöfundaráðsins – EWC í byrjun júní. Kollegar okkar í Evrópu óttast mjög um sinn hag og finnst að sér þrengt. Sérstaklega er varað við þeirri tilhneigingu að deila höfundarétti með útgefendum. Forsvarsmenn rithöfunda alls staðar í Evrópu standa fast á þeirri skilgreiningu að höfundarétturinn sé ævinlega einstaklingsbundinn og miðist við skapara verksins. Það er líka víðar en á Íslandi sem höfundar þurfa að berjast fyrir því að fá greitt fyrir upplestra og heimsóknir. „Ordet är fritt men inte gratis,“ segja Svíar og Svisslendingar hafa nýlega hleypt af stokkunum átakinu „Soyez RemunérAuteurs“.Slagorðaherferðir kollega okkar í Evrópu eru skilvirkar og við stefnum á að fara í slíkt verkefni með haustinu. Tinna, verkefnisstjóri, og Vilhelm, stjórnarmaður, munu halda utan um þá hugmyndavinnu.

IHM, Innheimtumiðstöð rétthafa, er sjóður sem geymir bætur úr ríkissjóði fyrir löglega afritun verka á rafrænum og stafrænum miðlum. Þessi sjóður hefur nánast horfið á undanförnum áratug, en í gjörbreyttu tækniumhverfi hefur hann síst glatað gildi sínu. Stjórnvöld samþykktu í fyrra að stækka þennan sjóð upp í um 250 milljónir króna sem deilast niður á félög og stofnanir sem eiga aðild að IHM og þjóna sem veitustofnanir.  RSÍ er veitustofnun fyrir þetta fjármagn til ólíkra textahöfunda, hvort heldur innan félags eða utan. Nú þegar sjóðurinn stækkar á ný mun starfshópur á vegum RSÍ hanna gagnsætt og aðgengilegt úthlutunarkerfi úr þessum sjóði. Nýafstaðinn er aðalfundur IHM, en einungis um fimmtungur heildarupphæðar ársins 2017 hefur skilað sér úr ríkissjóði í þennan söfnunarsjóð það sem af er ári og viðræður við ríkisvaldið standa enn yfir um þessar greiðslur.

Menntamálaráðherra hyggst setja af stað starfshóp sem koma á með tillögur að bókmenningarstefnu. Til stendur að skoða íslenska bókaútgáfu og aðstæður hennar. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, RSÍ, Hagþenki, Miðstöð íslenskra bókmennta, mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.  Hópurinn á að skila tillögum um hvernig stuðningskerfi rithöfunda sé best háttað og hvernig námsbókum og útgáfu þeirra sé best fyrir komið. Einnig verður fjallað um umhverfi rafræns lesefnis og hljóðbóka, útgáfu barnabóka með sérstöku tilliti til myndskreyttra verka og léttlestrarbóka. Fjalla á um hvernig auka megi kaup safna á bókakosti og sitthvað fleira sem starfshópurinn telur brýnt að ræða.

Samningamálin verða áfram til skoðunar á haustdögum. Enn standa yfir samningaviðræður við RÚV og verður þeim framhaldið að loknum sumarleyfum. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, er formaður nefndarinnar og hefur þar til fulltingis Sindra Freysson og Ottó Geir Borg. Vonir standa til þess að það takist að ljúka samningum við RÚV fyrir árslok.

Nýjum starfsstyrkjum úr Höfundasjóði RSÍ var úthlutað í fyrsta sinn nú í júní. Auglýst var eftir umsóknum í maí en alls sóttu 60 höfundar um og 10 höfundar fengu hver um sig starfsstyrk að upphæð 350.000 kr. Rithöfundasamband Íslands óskar þeim til hamingju og góðs gengis í ritstörfum sínum.

Menntamálaráðherra dró lappir við að skipa nefnd svo úthluta mætti úr Bókasafnssjóði nú á vordögum. Málið leystist á elleftu stundu og var nefndin loks skipuð með hraði eftir opið bréf og áskorun til ráðherra frá formönnum RSÍ, Hagþenkis og Myndstefs og greitt var úr sjóðnum um leið og nefndin kom saman.

Hið ánægjulega gerðist í vor að ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í fyrsta sinn og það var Sigurður Pálsson sem hlaut verðlaunin fyrir bók sína Ljóð muna rödd. Félagsmaður okkar, Kári Tulinius, kom þessum löngu tímabæru verðlaunum á koppinn. Maístjarnan er í samstarfi RSÍ við Landsbókasafn – Háskólabókasafn og leggur RSÍ til verðlaunafé.

Gaman er að geta þess að Gröndalshús í Grjótaþorpi er komið í gagnið hjá Bókmenntaborginni. Það er afar gleðilegt að sjá hve vel hefur til tekist, en Ragnheiður Þorláksdóttir, sem löngum var kennd við Sögufélagið, kom að máli við RSÍ og viðraði áhyggjur sínar af örlögum hússins með þeim afleiðingum að stofnaður var hollvinahópur sem hóf samtal við Reykjavíkurborg um skáldaskjól. Hafi Ragnheiður þakkir fyrir stóra sýn. Húsið er funda- og sýningahús auk vinnuaðstöðu sem leigð verður út til höfunda og fræðimanna. Einnig er skáldaskjól og fræðimannsíbúð í kjallara hússins. Íbúðin verður inni í bókunarkerfi RSÍ á heimasíðu og stendur erlendum höfundum og þýðendum til boða sem vilja koma hingað til að vinna.

Rithöfundasambandið er öflugt bandalag skrifandi stétta. Þannig fjölgar félagsmönnum stöðugt og er þar um að ræða virka höfunda fjölbreytts efnis, svo sem fræðihöfunda, ljóðskáld og leikskáld, skáldsagna- og handritshöfunda og barnabókahöfunda. Nú eru félagar orðnir 509 talsins. Það er afar ánægjulegt enda úreldist aldrei mátturinn sem býr í mörgum.

Skrifstofa Rithöfundasambandsins verður lokuð vegna sumarleyfa í fjórar vikur frá 13. júlí til 13. ágúst.

Gangi ykkur ritstörfin sem best og njótið sumardaganna.

Kristín Helga


Ársskýrsla formanns á aðalfundi 27. apríl.

Kæru félagar,

Það er skarð fyrir skildi, því átta félagsmenn létust á liðnu starfsári. Það voru þau: Sigríður Eyþórsdóttir, Ólöf Eldjárn, Ingibjörg Haraldsdóttir, Stefán Sigurkarlsson, Vigfús Geirdal, Þorvarður Helgason, Þórhallur Þórhallsson og Sigurður A. Magnússon

Við minnumst þessa góða fólks með þögn.

Í þessum hópi eru tveir fyrrum formenn og heiðursfélagar, þau Sigurður og Ingibjörg, sem lögðu línur og komu að mótun þess kjaraumhverfis sem við upplifum í dag. Réttindabarátta ritlistamanna er ýmist varnar- eða sóknarbarátta. Það er svo okkar, sem stöndum í brúnni hverju sinni, að meta hvenær skal sækja og hvenær skal verjast – allt eftir því við hverja á að etja og hvers eðlis hagsmunir eru. Sjaldan er það því miður þannig að allir geri sér grein fyrir gildi og vægi ritverka í siðmenningunni og í raun þykir mér alltaf jafn merkilegt að það þurfi að heyja baráttu fyrir sterkri umgjörð um ritlistina, berjast fyrir þessum grunntóni mannlegrar tilvistar. Svo einkennilegt að samfélagar okkar geri sér ekki alltaf og allir grein fyrir mennskunni og félagslæsinu sem felst í ritverkunum.

Á liðnu ári héldum við aðalfund að vori og svo framhaldsaðalfund í haust þar sem ljúka þurfti stjórnarkjöri frá vorfundi. Starfssemi RSÍ er nokkuð umfangsmikil og í mörg horn að líta. Ragnheiður er hér framkvæmdastjóri í fullu starfi, yfir og allt um kring,  og Tinna kom til liðs við okkur í fyrra sem verkefnisstjóri í hálfu starfi. Nýverið staðfesti stjórn fastráðningu hennar, enda er hún mikill happafengur.  Sjálf er ég oftast á þeytingi og dagarnir stundum langir, en sjaldnast leiðinlegir. Hér er atast í mörgu og má skipta starfsseminni í samninga, sjóðamál, samstarf við stjórnvöld og stofnanir, erlent samstarf og fræðslu-  og félagsstörf, svo sem rekstur orlofshúsa og skáldaskjóla.

Lesa meira


Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar!

Hér í Gunnarshúsi er alla daga unnið að því að styrkja stoðir ritlistarinnar.  Samningavinna er hafin á milli RÚV og RSÍ, en í samninganefnd RSÍ eru Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, Sindri Freysson og Ottó Geir Borg. Gamlir samningar eru teknir upp og unnið að því að lenda nýjum og nothæfum samningum um efni í útvarpi, sjónvarpi og á öðrum rafrænum miðlum. Við höfum óskað eftir viðræðum við bókaútgefendur til að skoða útgáfu- og þýðingasamninga ásamt því að ræða önnur sameiginleg hagsmunamál. Þá erum við á fundalista menntamálaráðherra og göngum fast á eftir því að fá fund með honum hið fyrsta um ritlistina og læsið í landinu.

Menntamálaráðherra er fagráðherra tungumáls og ritlistar og á sem slíkur að funda reglulega með hagsmunaaðilum. Ég vænti þess að það samtal hefjist innan tíðar. Við áttum gott samstarf við fyrrverandi menntamálaráðherra þótt ekki skilaði það afnámi virðisaukaskatts á bækur eða ýmsu öðru á óskalista okkar. Hinsvegar kom út úr því samstarfi myndarleg hækkun í Bókasafnssjóð sem fór úr 23 milljónum króna í ríflega 70 milljónir í stjórnartíð fyrrverandi ráðherra. En auðvitað er það samt ósköp lítilsverð upphæð fyrir afnot og aðgang almennings að öllum bókmenntum í landinu og nýr ráðherra þarf að láta verkin tala og stækka til muna sjóðinn. Þarna er ekki um að ræða styrki heldur beinar greiðslur fyrir afnot og það hefur stundum tekið tíma að útskýra það fyrir stjórnmálamönnum. Sanngjörn og réttmæt staða þessa sjóðs er að minnsta kosti 300 milljónir króna á ári miðaði við núgildandi verðlag, auk þess sem hann þarf að komast í mun stöðugra umhverfi svo afnotagjöld af bókum séu ekki háð geðþótta ráðamanna hverju sinni. Þá höldum við áfram að hamra á mikilvægi þess að afnema virðisaukaskatt á bókum, allt þar til ráðamenn gera sér grein fyrir alvöru máls og taka þá ábyrgu ákvörðun að hætta að skattpína bókmenntir. Katrín Jakobsdóttir tók þessa umræðu upp á Alþingi á dögunum og var ánægjulegt að finna fyrir stuðningi á þingi fyrir því að afleggja þennan ósið.

Þá má geta þess að viðræður eru að hefjast á milli RSÍ og menntamálaráðuneytis vegna samnings við Hljóðbókasafn.

Gunnarshús er mikið notað. Erlendir gestir skiptast á að nýta íbúð í kjallara og félagsmenn vinna á skrifstofum efri hæðar. Sögufélagið er í Norðurstofu og fundir og mannfagnaðir eru að staðaldri í húsinu. Framundan er spennandi sviðslistamálþing í Gunnarshúsi og verða lögðu undir það tvö kvöld, 14. og 27. mars, svo takið dagana endilega frá.  Hlín Agnarsdóttir hefur komið að því skipulagi. Nýlega var í húsinu ánægjulegur fundur þar sem Síung – félag barnabókahöfunda var endurvakið. Það er mikill styrkur að hafa innanhúss starfandi hagsmunahópa fyrir mismunandi greinar og svo gott að barnabókahöfundar taki höndum saman og þétti raðirnar.

Með aðgangi að nýju póstkerfi getur skrifstofa RSÍ nú auðveldlega staðið fyrir könnunum af ýmsu tagi. Slíkar kannanir verða nýttar til að styrkja gagnabankann okkar og kortleggja ritlistina, en það er nauðsynlegt til að skýra markmiðin og herða baráttuna fyrir ritverkafólk. Kannanir munu miðast við úrtakshópa. Sama kerfi gerir okkur nú kleift að hafa allar kosningar rafrænar á vegum félagsins. Því brýnum við fyrir félagsmönnum að taka þátt í lýðræðinu. Með virkri þátttöku byggjum við öflugt stéttarfélag.

Rithöfundasambandið hefur stækkað hratt undanfarin misseri. Það er ásókn í félagið og teljum við nú rétt undir fimmhundruð félagsmönnum. Þar hafa bæst í hópinn ungir ritlistamenn og eldri sem skrifa inn í alla og ólíka miðla samfélagsins. Við félagsmenn eigum það sameiginlegt að vilja lifa af ritstörfum og vera dugandi gæslumenn tungu og menningar.

Jæja, þetta átti nú ekki að verða svona langt, en að lokum fagna ég nýjum ljóðaverðlaunum sem Rithöfundasambandið og Landsbókasafnið standa saman að. Það er okkar maður, Kári Tuliníus, sem hefur veg og vanda að þessu verkefni ásamt öðru góðu fólki. Ákveðið hefur verið að halda ljóðaverðlaunahátíðina í maí og afhenda verðlaun fyrir bestu ljóðbók sem skilað hefur verið til Landsbókasafns á árinu 2016.

Þá bið ég alla vel að skrifa og lifa.

Kristín Helga


Jæja í desember

Jæja! þá eru margir félagsmenn á fleygiferð í jólabókaflóði og aðrir spinna sína þræði í fjölbreyttum miðlum ritlistarinnar. Höfundar koma enda víða við og hafa breiðvirk áhrif á samtímann með verkum sínum. Félagarnir sópa að sér vegtyllum og tilnefningum þessa dagana og þeir fá hér með hamingjuóskir. Upplestrarhrinan nær hámarki nú í desember og við minnum höfunda á mikilvægi þess að fá greitt fyrir vinnu sína, minnum aftur og aftur á nauðsyn þess að fá greitt fyrir að koma fram og troða upp!  Taxti RSÍ, sem sjá má á vefsíðu okkar, er afar hófsamur og ætlaður sem lágmarksviðmið.

Í Gunnarshúsi er þeytingur að venju. Við höfum fundað með útgefendum vegna hljóðbókamála, en RSÍ er með gildandi samning við menntamálaráðuneyti á grundvelli 19. greinar höfundalaga sem fjallar um réttindi prentleturshamlaðra. Víst er að margt er gallað við samninginn og við höfum óskað eftir viðræðum um endurupptöku svo laga megi ýmis ákvæði og setja í samhengi við tæknivæðingu og þróun rafrænna miðla, ásamt öðru sem uppfæra má og samræma í þessum samningi. Þessi vinna er að hefjast og munum við færa félagsmönnum fregnir eftir því sem línur skýrast.

Varðandi önnur samningamál þá má vænta þess að samningaviðræður við RÚV hefjist eftir áramótin. Útgáfu- og þýðendasamningar eru í skoðun.

Við Ragnheiður fórum nýverið á aðalfund Evrópusamtaka höfunda, EWC, í Brussel og urðum margs vísari. Þar var meðal annars rætt um bókasafnssjóði höfunda, en víða hefur ekki tekist að efla þessa sjóði svo þeir skili höfundum réttmætum afnotagjöldum. Nærtækt dæmi er frá Írlandi, en fulltrúi írskra höfunda sagði bókasafnssjóðinn þar nánast vera að hverfa og kallaði eftir stuðningi frá EWC. Við getum glaðst yfir stöðu sjóðsins hér á landi þótt hann sé enn langt frá okkar setta marki.  Á Evrópufundinum var einnig rætt um e-bækur og sýndist okkur fæstir vera komnir með nothæft og skilvirkt útlánakerfi fyrir þær. Vandinn felst víða í því að ná bókasöfnum samhæfðum að samningaborði. Hér á landi gegnir öðru máli. RSÍ hefur átt samstarf við  forsvarsmenn bókasafna og útgefenda um að koma á rafrænu útlánakerfi bókasafnanna. Borgarbókavörður hefur kynnt fyrir okkur kerfi sem til stendur að taka í gagnið og grunnhugsunin er að útlán rafbókar sé í engu frábrugðin útlánum bréfbóka, þ.e.a.s. eitt leyfi – eitt útlán.

Í Brussel var einnig tæpt á hlutverki ritlistarinnar þegar vernda skal tungumál á örtungusvæðum. Fulltrúi félags katalónskra höfunda sagði róðurinn þungan við verndun katalónskrar tungu á þeirra smáa málsvæði. Þó eru ríflega tíu milljónir manna mælandi á katalónska tungu. Norðmenn skilgreina sig líka sem örtunguþjóð og því má svo sannarlega reyna að finna nýja skilgreiningu fyrir málsvæði íslenskunnar. Evrópska samstarfið er afar mikilvægt og fulltrúar höfunda í EWC sérhæfa sig í því að rata um reglugerðarskóga Evrópusambandsins.

Gunnarshús er jólahús. Félagsmenn hafa svo sannarlega nýtt sér samkomuhúsið fyrir útgáfuteiti og upplestra undanfarnar vikur. Framundan er svo hið árlega jólaboð sambandsins. Það verður haldið fimmtudaginn 15. desember kl 17:00. Þá skreytum við húsið í einum grænum og fögnum lífinu og listinni. Félagsmenn eru vinsamlegast beðnir að taka daginn frá og fjölmenna á þann viðburð.

Ein er sú uppákoma í Gunnarshúsi í desember sem er löngu orðin ómissandi í jólahaldinu hér, en það er árlegur upplestur félagsmanna á Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Þá kyndum við upp í arninum og hitum kakó. Aðventa tekur ríflega tvo tíma í upplestri og er ljúft tækifæri til að hverfa inn á Mývatnsöræfin með Bensa, Eitli og Leó. Í þetta sinn verður það félagi Gunnar Helgason sem les. Það er tilvalið að líta inn, hlusta á sögubrot og ná sér í stutta kyrrðarstund, eða sitja söguna á enda. Sumir taka með sér handavinnu og allir eru hjartanlega velkomnir.  Þessi einstaka stund verður að venju þriðja sunnudag í aðventu, þann 11. desember,  og hefst stundvíslega kl. 14:00.

Og enn af Aðventu því um þessar mundir eru 80 ár liðin frá því að sagan kom fyrst út í Þýskalandi og Danmörku. Nýverið hefur hún verið þýdd á fleiri tungumál og kemur út nú fyrir jólin á hollensku, arabísku, ítölsku og norsku. Í tilefni af útgáfuafmælinu efna Gunnarsstofnun og RSÍ til málstofu um söguna í Gunnarshúsi miðvikudagskvöldið 7. desember næstkomandi, kl 20.00. Málstofan ber yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Fjórir fræðimenn munu fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum og er málstofan öllum opin.

Þann 20. desember skellum við skytturnar þrjár í lás hér í húsi og förum heim að halda jól. Nýja árið kemur svo með alls konar fyrir alla og við hlökkum til að glíma við þau stóru verkefni sem bíða ritlistamanna og erum svo sannarlega tilbúnar að taka slaginn fyrir land, sögu og tungu!

Hjartans kveðjur til ykkar allra og megi þessi jól verða okkur gleðileg bókajól!

Kristín Helga

 


Jæja í september

Jæja, félagar. Þá eru nú haustverkin hafin í Gunnarshúsi. Einhverjir eru búnir að sækja um starfslaun. Margir hafa skilað inn handriti til útgáfu eða birtingar og aðrir eru á lokasprettinum. Sumir eru með handrit í bígerð. Eins og gengur. Þeir sem sóttu snemma um starfslaun tóku væntanlega eftir nýjum reit í umsókninni þar sem umsækjanda var gert að semja greinargerð sem sérlega væri ætluð til opinberrar birtingar ef með þyrfti. RSÍ, ásamt BÍL, gerði alvarlegar athugasemdir við þennan nýja lið og dró Stjórn listamannalauna þessa kröfu til baka úr umsókninni.

Skáld í skólum eru að hefja flugið og grunnskólayfirvöld eru duglega að bóka höfundaheimsóknir. Davíð Stefánsson hefur stjórnað verkefninu í ár, ásamt Tinnu Ásgeirsdóttur verkefnisstjóra RSÍ. Þetta haustið er lögð áhersla á skapandi skrif og skapandi hugsun og við bendum félagsmönnum á að kynna sér verkefnið á heimasíðu félagsins: https://rsi.is/hofundamidstod/skald-i-skolum/

Að baki er afar gagnlegur framhalds-aðalfundur sem haldinn var til að ljúka við að manna stjórn RSÍ. Það tókst vel og rækilega því þeir Hermann Stefánsson og Davíð Stefánsson tóku sæti í stjórn og er þá fullt stjórnarhúsið og valinn maður í hverju rúmi.  Útgefendur heimsóttu félagsmenn í Gunnarshús og ræddu stöðuna á útgáfumarkaði. Sitt sýndist hverjum, en ljóst að mun meira sameinar höfunda og útgefendur en sundrar þeim.

Verkefnin eru mörg . Við höldum áfram að berjast gegn virðisaukaskatti á bókum og munum ekki linna látum fyrr en sú ómenningarlega skattpíning leggst af í sjálfu bókmenntalandinu.

Stjórn og bústýrur RSÍ funduðu nýverið með menntamálaráðherra. Slíkir fundir hafa verið reglubundnir, enda mikilvægt að forsvarsmenn sambandsins eigi stöðugt samtal við menningarmálayfirvöld. Að mati viðstaddra var fundurinn gagnlegur. Stjórnarmenn lýstu áhyggjum vegna virðisaukaskattsins. Fram kom að undanfarin ár hefur orðið mikill samdráttur í bóksölu og þá ekki síst eftir að hækkunin tók gildi. Ráðherra deildi þessum áhyggjum og sagði baráttunni alls ekki lokið.  Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að standa vörð um Bókasafnssjóð og auka framlög í hann. Vinna við að koma sjóðnum í stöðugra umhverfi stendur enn í ráðuneytinu og stjórn RSÍ mun fylgja því eftir. Ráðherra upplýsti á fundinum að miklar líkur væru á því að frumvarp um innheimtumiðstöð gjalda, IHM, yrði að lögum í haust og er það mikið fagnaðarefni.Þá var rætt um að styðja við skrif fyrir börn og ungmenni með ýmsum aðferðum. Sumsé, góður fundur með ráðherra og þótt hann hverfi til annarra verka höldum við áfram að hamra járnið og vinna með nýjum ráðherra og því ágæta fólki sem áfram starfar í menntamálaráðuneytinu.

Þá höfum við undanfarið verið að skoða hljóðbókasamninginn í samráði við lögmenn, enda löngu tímabært að endurskoða hann með hliðsjón af breyttu landslagi. Sú vinna heldur áfram og við upplýsum félagsmenn um gang mála.

Síðla í október mun RSÍ standa að málþingi um gildi orðlistar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg. Það verður jafnframt afmælishátíð Bókmenntaborgar og höfundar eru hvattir til að fjölmenna.

Það er mikið að gera á stóru heimili. Gunnarshús iðar af lífi. Allar vinnustofur eru í fullri notkun og Sögufélagið hefur hreiðrað um sig í Norðurstofu á neðri hæð. Þá er ys og þys á skrifstofunni þar sem þær Ragnheiður og Tinna spila tvíhendis. Í vetur verða höfundakvöld í stofunni á fimmtudagskvöldum. Sú nýbreytni verður að nú skipuleggja höfundar kvöldin sín sjálfir en RSÍ aðstoðar við að auglýsa eftir leiðum sambandsins. Að lokum viljum við minna á að Höfundasjóður auglýsir til umsóknar ferðastyrki höfunda. Umsóknarfrestur er til fyrsta október. Kæru félagar, þetta er nú svona það helsta að sinni. Gangi ykkur vel við ritverkin.

Bestu kveðjur,

Kristín Helga

 


Jæja … frá formanni!

Jæja! Góður aðalfundur að baki. Takk fyrir hann og fyrir gott samtal. Við þokuðum málum eins og alltaf og verklag við tilnefningar til úthlutunarnefndar starfslauna rithöfunda var kynnt, en því verkferli er lokið af hálfu RSÍ.

Fyrir tilstuðlan RSÍ var í vetur kallaður saman starfshópur á vegum BÍL. Þetta gerðum við til að lengja arminn enn meir við tilnefningar til úthlutunarnefndar. Starfshópurinn útbjó tillögur að verklagsreglum fyrir aðildarfélög BÍL að fara eftir. Þessar tillögur voru svo samþykktar á félagsfundi hjá okkur í marslok. Í kjölfarið var skipuð uppstillingarnefnd sem nú hefur skilað niðurstöðum og tilnefnt menn í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Uppstillingarnefnd skilaði þeim nöfnum inn til skrifstofu RSÍ sem hefur haft samband við tilvonandi nefndarmenn og tilkynnt tillögurnar til ráðuneytis. Stjórn RSÍ er ekki kunnugt um hverjir eru tilnefndir í úthlutunarnefnd. Stjórn er heldur ekki kunnugt um hverjir sátu í uppstillingarnefndinni. Sú nefnd er til komin með því að starfsmenn skrifstofu RSÍ lögðu fram nafnalista og stjórnarmenn lögðu fleiri nöfn í pott. Framkvæmdastjóri RSÍ fór með langan lista að vinna úr og að lokum fundust þrír viljugir til að setjast í uppstillingarnefnd og gera tillögur um tilnefningar í úthlutunarnefnd. Hafi menn svo einhverjar spurningar um þetta verkferli þá er það framkvæmdastjóri RSÍ sem svarar varðandi þann hluta sem snýr að Rithöfundasambandinu. Að öðru leyti er og verður úthlutunarnefnd alfarið á vegum og á ábyrgð Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stjórnar listamannalauna.

Nýr verkefnisstjóri félagsins, Tinna Ásgeirsdóttir kynnti á aðalfundi Höfundasjóð RSÍ sem er í mótun.  Og Gunnarshús er lífleg starfsstöð. Fjórir höfundar starfa nú í vinnustofum hússins og Sögufélagið hefur tekið skrifstofu á jarðhæð hússins á leigu og mun einnig hafa aðgang að funda- og samkomurými hússins.

Á aðalfundinum var samþykkt með lagabreytingu að halda framhalds aðalfund með haustinu og efna til kosninga í varastjórn félagsins.

Þrír menn gengu úr stjórn, þeir Jón Kalman Stefánsson sem gegndi embætti varaformanns, Gauti Kristmannsson varamaður og Andri Snær Magnason meðstjórnandi. Bjarni Bjarnason er nýkjörinn og sjálfkjörinn og fer inn sem meðstjórnandi og Sigurlín Bjarney Gísladóttir fer inn í aðalstjórn. Þar með er komin upp sú staða að það vantar tvo í varastjórn og því var samþykkt lagabreyting svo halda megi framhaldsfund í haust og fullmanna stjórn.

Vilborg Davíðsdóttir hefur tekið við varaformennsku, Hallgrímur Helgason er meðstjórnandi og Sigurlín Bjarney og Bjarni sömuleiðis.

Við bjóðum Bjarna Bjarnason hjartanlega velkominn í stjórn RSÍ og hlökkum til samstarfsins.

Fyrir hönd félagsmanna, stjórnar og skrifstofu RSÍ vil ég líka þakka Jóni Kalman, Gauta og Andra Snæ fyrir þeirra ómetanlegu sjálfboðavinnu í þágu félagsins. Stjórnarmenn eru alltaf boðnir og búnir að taka þátt í skipulagsvinnu, tala máli sambandsins í ræðu og riti og mæta á ótal fundi um ólíkustu málefni, allt í þágu fjöldans og félagsins. Það eru forréttindi að geta kallað til svo öfluga liðsmenn og verður seint full þakkað.

Félagsmenn munu fá aðalfundargerð ásamt skýrslu formanns á næstu dögum.

Bestu kveðjur,
Kristín Helga


Jæja …

Jæja, kæru félagar,

áfram miðar allt til góðs og öflugur félagsfundur að baki. Takk fyrir hann og fyrir stuðning og samstöðu. Fyrir fundinum lá að taka afstöðu til tillagna frá starfshópi á vegum BÍL og var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt:

Gunnarshúsi, 31. mars, 2016.

Félagsfundur Rithöfundasambands Íslands samþykkir að fara að tillögum starfshóps BÍL varðandi tilnefningar í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Stjórn RSÍ skal velja uppstillingarnefnd samkvæmt tillögum starfshóps BÍL. Uppstillingarnefndinni er svo falið að tilnefna einstaklinga í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda.

Með þessum breytingum eiga tilnefningar til úthlutunarnefnda að vera hafnar yfir vafann. Á fundinum ræddum við um það fjölmiðlafárviðri sem árlega skellur á vegna starfslauna til listamanna og þá sérstaklega hvernig rithöfundar verða fyrir heiftúðugum árásum, umfram aðra listamenn. Fundarmenn voru sammála um að seint yrði breyting á því, en þó væri orðið brýnt að leggja í upplýsingaferð, miðla og fræða um ritlistina, gildi og vægi í menningarsamfélagi sem glímir við að viðhalda einu af smæstu tungumálum veraldar. Sú upplýsingaveita er langhlaup sem leggjum í með okkar helstu samstarfsaðilum úr bókmenntaheiminum og það starf er þegar hafið. Upplýsing og samtal er enda eina leiðin til að efla menningarvitund fólks. Fundurinn hvatti til þess að RSÍ beiti sér áfram fyrir því að fjölga starfslaunum því ljóst megi vera af umræðunni á liðnum vetri að launasjóður rithöfunda sé alltof lítill og löngu orðið tímabært að stækka hann og bæta við nýliðalaunum. Enn og aftur, takk fyrir fína fundinn. Samtalið eflir og brýnir mannskapinn.

Og það er í mörg horn að líta í Gunnarshúsi. Samningaviðræður við RÚV eru í farvatninu og má búast við tíðindum af þeim vettvangi með haustinu. Vinnustofur Gunnarshúss eru nú fullmannaðar og fyrir kemur að höfundar sitji hér við skriftir fram á nætur. Norðurstofan, sem áður var bílskúr hússins, er nú komin í langtímaleigu. Sögufélagið hefur tekið rýmið á leigu og flytur inn nú um mánaðamót með sína starfssemi. Aðalfundur RSÍ er handan við hornið, þann 28. apríl, og ég hvet alla til að mæta, nota tækifærið til að hitta kollegana og ræða málin.
Bestu kveðjur,
Kristín Helga