Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Höfundakvöld í Gunnarshúsi í kvöld – Arthúr Björgvin Bollason

Í kvöld, þriðjudaginn 26. október mun Arthúr Björgvin Bollason kynna þýðingu sína á skáldsögunni Hýperíon eftir Friedrich Hölderlín í Gunnarshúsi. Kynningin hefst kl 18. 

Friedrich Hölderlín (1770 – 1843) var eitt af fremstu ljóðskáldum Þjóðverja. Hýperíon eða einfarinn á Grikklandi var eina skáldsagan, sem hann sendi frá sér um dagana. Sagan er talin eitt merkasta skáldverk rómantíska tímabilins í Þýskalandi í óbundnu máli. 


Arthúr Björgvin spjallar um skáldið Friedrich Hölderlín og les brot úr þýðingu sinni á þessu sígilda meistaraverki, sem nú kemur fyrir sjónir íslenskra lesenda í fyrsta sinn.

Léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir!


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 21. október – Ingibjörg Hjartardóttir

Fimmtudaginn 21. október verður fjallað um nýjustu skáldsögu Ingibjargar Hjartardóttur, Jarðvísindakona deyr, sem kom út í byrjun sumars.

Sagan gerist í Selvík, afskekktu þorpi á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Eftir dapurlegt tímabil í sögu byggðarlagsins, með miklu atvinnuleysi, horfir nú loks til betri vegar því erlendur auðkýfingur ætlar að reisa þar eitt stærsta kísilver í heimi. Hjól atvinnulífsins hafa þegar tekið að snúast því fátt sem skyggir á gleði þorpsbúa þegar fyrsta skóflustungan að verinu er tekin – ekki einu sinni hörmulegt slys sem varð á svæðinu aðeins nokkrum dögum áður þegar 32 ára gömul jarðvísindakona úr Reykjavík lést eftir að hafa ekið út af veginum skammt utan við þorpið. En þetta bílslys vekur forvitni Margrétar Guðmundsdóttur, sjálfskipaðs kvenspæjara, sem nýorðin er ekkja og komin af léttasta skeiði. Hún fer að rannsaka tildrög slyssins og linnir ekki látum fyrr en sannleikurinn liggur fyrir.   Á yfirborðinu virðist þetta vera sakamálasaga í léttum dúr en undir niðri er þetta háalvarleg samfélagsgagnrýni þar sem pólitískir og efnahagslegir hagsmunir svífast einskis.

Höfundakvöldið hefst kl 20:00 í Gunnarshúsi. Spyrill verður Björg Árnadóttir rithöfundur og ritlistakennari.

Léttar veitingar í boði. Allir velkomnir.


Höfundakvöld 2021 hefjast í kvöld

Rithöfundasambandið vekur athygli á því að nú er að hefjast röð höfundakvölda í Gunnarshúsi þar sem höfundar kynnar nýjar bækur haustsins. Líkt og undanfarin ár verða bókmenntaviðburðir í Gunnarshúsi í október og fram í byrjun desember. Kvöldin eru með ýmsu sniði enda móta þátttakendur þau eftir sínu höfði. Hver viðburður verður auglýstur sérstaklega þegar nær dregur.

Á sviðsbrúninni – ný bók um leiklist og menningarpólitík 

Í kvöld, fimmtudaginn 14. október kl. 20.00, verður fjallað um bók Sveins Einarssonar Á sviðsbrúninni sem Ormstunga gefur út. Bókin skiptist í fjóra meginkafla; þar er fjallað um að vinna í sjónvarpi og hvaða stefnu má fylgja en lítið hefur verið skrifað um þau mál áður; þar er rætt um á hverju verkefnaval í leikhúsi grundvallast, um sögu óperuflutnings á Íslandi allt frá 1951 og loks um ýmis verkefni á vettvangi sviðslista sem blasa við. Höfundakvöldið hefst kl. 20.00 og situr Sveinn þar fyrir svörum. Spyrlar eru Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri og Stefán Baldursson leikstjóri og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri. Ókeypis er á kynninguna að vanda, en léttar veitingar bornar fram.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 13. desember

Verið velkomin á höfundakvöld í Gunnarshúsi föstudaginn 13. desember kl. 18:00.

Þar munu sex höfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum – Bergþóra Snæbjörnsdóttir les úr skáldsögunni Svínshöfuð, Brynja Hjálmsdóttir les úr ljóðabókinni Okfruman, Gerður Kristný les upp úr ljóðabókinni Heimskaut, Hanna Óladóttir les úr ljóðabókinni Stökkbrigði, Kristín Ómarsdóttir les úr skáldsögunni Svanafólkið og Vigdís Grímsdóttir les úr bókinni Systa: bernskunnar vegna.

Léttar veigar í boði. Allir velkomnir.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 12. desember

Við bjóðum þér til stofu til þess að tala um barna- og ungmennabækur!

Rithöfundarnir Arndís Þórarinsdóttir, Brynhildur Þórarinsdóttir, Sigrún Elíasdóttir og Ævar Þór Benediktsson blása til notalegs upplestrarkvölds í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, kl. 20:00 þann 12. desember.

Þau segja frá nýjustu bókunum sínum og lesa brot úr sögunum fyrir gesti. Dagskráin er ætluð öllum þeim sem hafa unun af því að lesa bækur um ungar söguhetjur, öllum sem þekkja unga lesendur og öllum sem finnst að barna- og ungmennabækur skipti höfuðmáli í hverju samfélagi.

Bækurnar sem lesið verður úr eru:

Þinn eigin tölvuleikur eftir Ævar Þór Benediktsson

Leitin að vorinu eftir Sigrúnu Elíasdóttur

Ungfrú fótbolti eftir Brynhildi Þórarinsdóttur

Nærbuxnanjósnararnir eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Kaffi, piparkökur og kertaljós – og bækurnar verða til sölu og áritanir í boði. 


Þýðendakvöld í Gunnarshúsi 11. og 17. desember

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kynntar þann 7. desember sl. Þann 11. og 17. desember verða haldin þýðendakvöld í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, þar sem tilnefndir þýðendur lesa upp úr verkum sínum. Upplestrarnir hefjast kl. 20:00 báða dagana.

11. desember verður lesið úr eftirfarandi bókum:

Skáldið er eitt skrípatól. Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. Höfundur Guðbergur Bergsson. Þýðandi: Guðbergur Bergsson (þýðandi les). JPV gefur út.

Jónsmessunæturdraumur. Höfundur William Shakespeare. Þýðandi: Þórarinn Eldjárn (þýðandi les).Vaka-Helgafell gefur út.

Kona í hvarfpunkti. Höfundur Nawal el Saadawi. Þýðandi: Elísa Björg Þorsteinsdóttir (þýðandi les). Angústúra gefur út.

Hin ósýnilegu. Höfundur Roy Jacobsen. Þýðandi: Jón St. Kristjánsson (þýðandi les). Mál og menning gefur út.

17. desember verður lesið úr eftirfarandi bókum:

Kalli breytist í kjúkling. Höfundur Sam Copeland. Þýðandi: Guðni Kolbeinsson (þýðandi les). JPV gefur út.

Blá. Höfundur Maja Lunde. Þýðandi: Ingunn Ásdísardóttir (þýðandi les). Mál og menning gefur út.

Tími töframanna. Höfundur Wolfram Eilenberger. Þýðandi: Arthúr Björgvin Bollason (Egill Arnarson les). Háskólaútgáfan gefur út.

Boðið verður upp á léttvín, kaffi og konfektmola.

Allir velkomnir!


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 5. desember

Hvað er betra á aðventunni en að koma og hlusta á rithöfunda lesa úr verkum sínum og gæða sér á léttum veitingum í einu fallegasta húsi landsins? Fimmtudagskvöldið 5. desember kl. 20.00 verður einmitt höfundakvöld í Gunnarshúsi, allir velkomnir, léttar veitingar í boði. Höfundarnir sem munu lesa úr verkum sínum eru Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Hildur Kristín Thorstensen og Eygló Jónsdóttir.  

Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur gefið út ljóðabækur, smásagnasafn og nóvellu og nýjasta ljóðabókin, Undrarýmið, kom út fyrr á þessu ári. Undrunin og óravíddir tilverunnar eru meginstefin í ljóðunum sem spretta hér fram og tengjast á óvæntan hátt myndum úr aldagömlum ritum um náttúrufræði og læknisfræði.

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er rithöfundur og sviðslistakona. Hún hefur samið og unnið að leiksýningum, gjörningum og innsetningum hérlendis og erlendis. Ritverk hennar og ljóð hennar hafa birst í ýmsum útgáfum og heyrst í útvarpi. Hún er hluti af ljóðakollektívinu Svikaskáld, en saman hafa þær gefið út þrjár ljóðabækur. Ljóðabók hennar Sítrónur og náttmyrkur er hennar fyrsta í fullri lengd og kom út 21. nóvember.   

Eyrún Ósk Jónsdóttir vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2016. Auk þess að senda frá sér fjórar skáldsögur, fimm ljóðabækur og eina myndskreytta barnabók hefur Eyrún skrifað leikrit, kvikmyndahandrit, greinar og fyrirlestra, m.a um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma. Nýverið sendi hún frá sér ljóðabókina ,,Mamma má ég segja þér?“  

Hildur Kristín er 27 ára gömul listakona. Hún kláraði leiklistabrautina við Fjölbrautarskólann í Garðabæ 2014 og fór því næst í sviðslistarnám við Länsi-Suomen opisto í Finnlandi. Hún kláraði framhaldsprófið í klassískum söng og tónlist við Söngskólann í Reykjavík árið 2017. Hún lærði leiklist við Cours florent í París og síðar í Rose Bruford í London. Hún hefur gefið út ljóðabók og barnabók. Auk þess hefur hún skrifað leikrit og starfað við þýðingar. Hún hefur einnig leikstýrt verkum fyrir listahópinn Kvist. Hildur gaf út barnabókina Töfraloftbelgurinn nú á dögunum.  

Eygló Jónsdóttir er með meistaragráðu í ritlist. Hún situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Hún hefur gefið út barnabókina Ljóti jólasveinninn og ljóðabókina Áttun. Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð/tímarit og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum. Í ár var hún fengin til þess að semja 17. júní-ljóð fjallkonunar fyrir Hafnarfjarðarbæ og þessa dagana er hún að undirbúa útgáfu á smásagnasafni sínu sem Bókabeitan mun gefa út.  


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 4. desember

Andri Snær Magnason, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Kristín Eiríksdóttir

Verið velkomin á höfundakvöld í Gunnarshúsi miðvikudaginn 4. desember kl. 20:00.

Þar munu þrír höfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum – Ásta Fanney Sigurðardóttir les úr ljóðabókinni Eilífðarnón, Kristín Eiríksdóttir úr ljóðabókinni Kærastinn er rjóður, og Andri Snær Magnason úr fræðibókinni Um tímann og vatnið.

Léttar veigar í boði. Allir velkomnir.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 3. desember

Anna Dóra Antonsdóttir og Kristrún Guðmundsdóttir, kynna nýútkomna  matreiðslubók sína Uppskriftir stríðsáranna matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð á höfundakvöldi í Gunnarshúsi þann 3. desember kl. 20.00.

Hér er á ferðinni öðruvísi matreiðslubók með aðkomu fjögurra kvenna. Uppskriftirnar urðu kveikjan að samtali milli höfunda við leit að formi nýrrar matreiðslubókar.

Höfundar árita bækur.

Kaffi og léttar veitingar í boði.

Allir eru velkomnir.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 28. nóvember kl. 20:00

Hvað eiga fornaldargarðar, kafbátar og revíur sameiginlegt? Því er hægt að komast að á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20:00, en þá munu þrír höfundar, þau Una Margrét Jónsdóttir, Illugi Jökulsson og Árni Einarsson kynna nýútkomnar bækur sínar í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8.

Þórarinn Eldjárn stýrir umræðum.

Höfundar árita bækur.

Kaffi og léttar veitingar.

Allir eru velkomnir.

Verkin sem kynnt verða:

Árni Einarsson

Tíminn sefur. Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi.

Bókin fjallar um umfangsmikið kerfi torfveggja sem nú hefur verið rannsakað í nærfellt tvo áratugi og eru að miklu leyti frá þjóðveldisöld. Torfveggir þessir hafa legið svo þúsundum kílómetra skiptir um flestar byggðir landsins. Samanlögð lengd þeirra jafngildir fjarlægðinni milli Hornafjarðar og Hong Kong.

Illugi Jökulsson

Úr undirdjúpunum til Íslands. Julius Schopka, U-52 og heimsstyrjöldin fyrri.

Árið 1920 kom ungur Þjóðverji til Íslands, háseti á skonnortu. Hann veiktist og varð eftir þegar skipið hans sigldi og bjó hér síðan. Hann átti viðburðaríka ævi að baki, hafði verið háseti á kafbátnum U-52 og átti þátt í að sökkva mörgum skipum og upplifði hræðilega atburði. Bókin er byggð á minningum Schopka sjálfs en einnig fjölda annarra heimilda og þar segir ekki aðeins frá Schopka og U-52 heldur einnig frá gangi stríðsins og heimsmálanna.

Una Margrét Jónsdóttir

Gullöld revíunnar.

Bókin er saga revíunnar á Íslandi, fyrri hluti sem nær frá 1880 til 1957. Rakinn er söguþráður í öllum revíum sem Una Margrét hefur fundið frá þessu tímabili, sagt frá revíunum og viðtökum við þeim, og frá höfundum og helstu leikurum. Einnig er sérstaklega fjallað um revíusöngvana.