Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Gröndalshús

gröndalshusGröndalshús er komið á nýjan grunn í Grjótaþorpi. Hollvinir hússins fengu leiðsögn Hjörleifs Stefánssonar, arkítekts, um bygginguna nú fyrir helgi, en hópurinn hefur lagt til að húsið verði bókmennta- og fræðahús í eigu Reykjavíkurborgar. Í erindi hópsins til borgarinnar segir:

,,Þótt Reykjavík sé elsti sögustaður þjóðarinnar er sögulagið býsna þunnt þegar kemur að sjálfri höfuðborginni. Það er því sannkallaður hvalreki að fá Gröndalshús í Grjótaþorpið. Þetta fallega hús sem ber svo sterkt svipmót nítjándu aldar fyllist ósjálfrátt anda hennar fyrir tilstilli íbúans sem þar lifði og dó. Benedikt Gröndal (1826-1907) er glæsilegur fulltrúi nítjándu aldarinnar: ljóðskáld í fremstu röð, fornfræðingur, náttúrufræðingur, fagurfræðingur, myndlistarmaður – í einu orði fjölfræðingur eins og 19. öldin átti besta. Og síðast en ekki síst var hann Reykvíkingur af lífi og sál sem lét bæjarmál mjög til sín taka, höfundur greina og greinaflokka um lífið í Reykjavík og allt sem betur mátti fara.

Benedikt Gröndal var mikill áhrifavaldur í stílþróun Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness og hefur gengið í endurnýjun lífdaga í nýlegum skáldverkum á  borð við Sæmd Guðmundar Andra og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar, að ógleymdum splunkunýjum hljómdiski trúbadúrsins Teits Magnússonar þar sem hann á vinsælasta textann. Þá njóta náttúrufræðirit Benedikts mikillar hylli. Íslenskir fuglar eru gott dæmi þar um.

Með Gröndalshúsi á forræði borgarinnar eru allar líkur á að ævintýrið nái nýjum hæðum.
Bókmenntaborgir UNESCO státa af athvarfi fyrir skáld og fræðimenn, líkt og fjölmargar aðrar borgir heims. Víða á landsbyggðinni hafa menn lagt metnað í lista- og fræðimannasetur. Þannig hafa íslenskir og erlendir lista- og fræðimenn lykil að samfélaginu og yfirvöld fá rekstrargrunn.“

Lokað er fyrir athugasemdir.