Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Bókaverðlaun barnanna 2015

bokaverdlaun barnanna 2015-cropBókaverðlaun barnanna voru afhent í Borgarbókasafninu í Grófinni sumardaginn fyrsta, þann 23. apríl. Verðlaunin eru afhent einu sinni á ári og öll börn á landinu geta tekið þátt í valinu: þær bækur hljóta verðlaunin sem hljóta flest atkvæði, svo einfalt er það. Þá eru nokkrir krakkar, sem taka þátt í kjörinu, valdir af handahófi og hljóta viðurkenningu fyrir. Einn heppinn þátttakandi fær að venju verðlaunahöfundinn í heimsókn í bekkinn sinn.

Í ár eru það bækurnar Þín eigin þjóðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson (Forlagið gaf út) og Dagbók Kidda klaufa: kaldur vetur eftir Jeff Kinney (Tindur gaf út), í þýðingu Helga Jónssonar, sem hljóta verðlaunin. Þeir Ævar og Helgi tóku á móti verðlaununum og hittu nokkra af krökkunum sem fengu viðurkenningu í ár.

Fréttin er tekin af vef Borgarbókasafnsins.


Íslensku þýðingaverðlaunin 2015 afhent á Gljúfrasteini

gyrdir(crop)
Í dag, 23. apríl 2015, voru Íslensku þýðingaverðlaunin afhent í ellefta sinn við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Forseti Íslands afhenti verðlaunin en þau hlaut Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn, þýðingu á ljóðum japanska skáldsins Shuntaro Tanikawa. Gyrðir hefur áður hlotið Íslensku þýðingaverðlaunin en þau fékk hann árið 2012 fyrir annað ljóðasafn, Tunglið braust inn í húsið.

Gyrðir Elíasson er íslenskum lesendum að góðu kunnur, bæði sem skáld og þýðandi, og hefur hlotið margar aðrar viðurkenningar og verðlaun, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011. Ljóðskáldið Shuntaro Tanikawa (f. 1931) er einnig margverðlaunaður, talinn til merkustu skálda Japan og helstu stórskálda heimsins og því er mikill fengur að því að fá safn af ljóðum hans í vandaðri íslenskri þýðingu.

Dómnefnd Íslensku þýðingaverðlaunanna skipuðu Árni Matthíasson, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir og hafði hún þetta að segja um Listina að vera einn:

Með þýðingu sinni á ljóðum Shuntaro Tanikawa kynnir Gyrðir Elíasson okkur eitt helsta núlifandi skáld Japana. Tanikawa er meðal annars þekktur fyrir glímu sína við tungumálið og það hvernig hann teygir það og togar, en þó þykir texti hans tær og virðist áreynslulaus líkt og skilar sér í þýðingum Gyrðis á ljóðunum.

Aðrir tilnefndir þýðendur voru Herdís Hreiðarsdóttir fyrir Út í vitann eftir Virginia Woolf, Hermann Stefánsson fyrir Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares, Jón St. Kristjánsson fyrir Náðarstund eftir Hannah Kent og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Lífið að leysa eftir Alice Munro.


Barnabókaverðlaun skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur

barnabokaverdlaunin2015_031                                                         Birgitta Elín Hassel og Bryndís Björgvinsdóttir.

Tvær ung­linga­sög­ur fá barna­bóka­verðlaun reyk­vískra fræðslu­yf­ir­valda 2015;
Hafn­f­irðinga­brand­ar­inn eft­ir Bryn­dísi Björg­vins­dótt­ur var val­in besta frum­samda bók­in.
Eleanor og Park var val­in best þýdda barna­bók­in en Birgitta Elín Hassel og Marta Hlín Magna­dótt­ir sneru þeirri sögu eft­ir banda­ríska rit­höf­und­inn Rain­bow Rowell.

Bryn­dís Björg­vins­dótt­ir tók í gær við barna­bóka­verðlaun­um skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur, en þau voru af­hent í Höfða. Verðlaun­in fær hún fyr­ir bók­ina Hafn­f­irðinga­brand­ar­ann sem Vaka Helga­fell  gaf út. Marta Hlín Magna­dótt­ir og Birgitta Elín Hassel fengu verðlaun­in fyr­ir þýðingu sína á Eleanor og Park sem gef­in var út af Bóka­beit­unni.

Barna­bóka­verðlaun­in voru nú af­hent í 43. sinn. Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri og Skúli Helga­son formaður skóla- og frí­stundaráðs fluttu stutt ávörp við at­höfn­ina í Höfða, grunn­skóla­nem­end­ur úr Aust­ur­bæj­ar­skóla sungu og sig­ur­veg­ar­ar úr Stóru upp­lestr­ar­keppn­inni lásu upp úr verðlauna­bók­un­um.

Í um­sögn val­nefnd­ar um verðlauna­bók­ina Hafn­f­irðinga­brand­ar­ann seg­ir m.a.:
Hafn­f­irðinga­brand­ar­inn er marglaga skáld­saga þar sem fjallað er um sí­gild stef í lífi ung­linga eins og fyrstu ást­ina og ástarsorg­ina, fé­lags­líf og sam­skipta­mynst­ur sem aldrei er eins flókið og á unglings­ár­um, ofsa­kvíða, ofsakæti og allt þar á milli. Sag­an er um­fram allt skrifuð af leiftrandi stíl­gáfu, um­vefj­andi hlýju og heil­næm­um húm­or sem fær les­end­ur á öll­um aldri til að njóta lestr­ar­ins og hrein­lega tæta bók­ina í sig.  

Í um­sögn um þýðingu ung­linga­bók­ar­inn­ar Eleanor og Park  seg­ir m.a. :
Eleanor og Park hef­ur hlotið fjölda verðlauna og viður­kenn­inga er­lend­is og dýr­mætt þegar slík­ar bæk­ur rata inn í ís­lenskt mál­sam­fé­lag og verða hluti af því. Það er vanda­verk að skrifa bók í nú­tím­an­um fyr­ir nú­tímaunglinga á trú­verðugu orðfæri ung­linga fyr­ir tutt­ugu árum á þann hátt að text­inn virki hvorki fram­andi né klisju­kennd­ur. Þegar bæt­ist svo í ofanálag að þýða sama texta yfir á annað tungu­mál verður málið enn snún­ara. Þeim Mörtu Hlín Magna­dótt­ur og Birgittu El­ínu Hassell tekst ein­stak­lega vel að ná þessu tak­marki án þess að það sé á kostnað læsi­leika og flæðis text­ans.

Barna­bóka­verðlaun skóla- og frí­stundaráðs þjóna þeim til­gangi að vekja at­hygli á gildi góðra bók­mennta í upp­eld­is­starfi og á metnaðarfullri út­gáfu barna­bóka.  Val­nefnd var að þessu sinni skipuð Bryn­hildi Björns­dótt­ur for­manni, Jónu Björgu Sætr­an og Gunn­ari Birni Mel­sted.

(mynd með frétt af vef Reykjavíkurborgar)


Pistill frá höfundi

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Pétur Gunnarsson:

Teningunum kastað

Sagt er að aðeins 4% af efni alheims sé sýnilegt, afgangurinn er hulduefni plús orka tómsins sem mun vera hvorki meira né minna en hreyfiafl alls sköpunarverksins. Eins er um egó unga mannsins, mjög lítill hluti af því er sýnilegur, hið innra rúmar hann hulduefni og svarthol. Haustið ´66 hef ég samt afráðið að taka örlagaríkt skref inn á hinn opinbera vettvang. Ég ýtti upp glerhurð Morgunblaðshallarinnar. Vélarhljóð frá prentvélum á jarðhæð barst til eyrna inn í lyftuna á leið upp á þriðju hæð. Brosmild stúlka vísaði mér á skrifstofu þar sem ritstjóri Lesbókar, Sigurður A. Magnússon, sat með hárið í bylgjum upp frá háu enni, vangaskegg og hökutopp eins og grískur Pan. Jafnframt hárbeittum Lesbókarpistlum, var hann hnífskarpur leikdómari blaðsins. En tók mér af ljúfmennsku, meðtók ljóðið og sagði mér að hringja eftir helgi.

Um leið var eins og jörðin hægði á snúningi sínum, það var föstudagur og um kvöldið fór ég á Borgina og fékk mér að venju tvöfaldan asna. En að þessu sinni fann ég ekki nein hrif. Ég sló Stebba vin minn fyrir öðrum, en það sama gerðist, það gerðist ekki neitt. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég átt að verða þvoglumæltur og riða á fótum. Á heimleið lék ég mér að því að ganga eftir þráðbeinni línu gangstéttanna.

Kominn heim úr skóla á mánudeginum hóf ég að hringja í skiptiborðið á Mogganum. En Sigurður var ekki í húsi. Ekki heldur á hálftíma fresti. Á þriðjudeginum hafði ég skipt um skoðun og hætt við birtingu, vonaði að ljóðið fengi að lognast út af í skúffu ritstjórans. En á föstudeginum greip mig einhver hybris og nú var engu líkara en Sigurður hefði beðið við símann. Hann ætlaði að birta ljóðið.

Hvenær?
Núna!

Það þyrmdi yfir mig. Lesbók Morgunblaðsins var þvílíkt stórveldi. Hún fylgdi sunnudagsblaðinu sem var þeim mun voldugri stærð að dagblöð komu ekki út á mánudögum, þetta var lesforði til þriggja daga. Gamall maður, kinnfiskasoginn með yfirgreidda kúpu, hóf að afgreiða blöð út um lúgu seint á laugardagskvöldi. Á stéttinni fyrir framan var ævinlega hristingur af fólki, fólk sem var úti á lífinu, unglingar í útisetum, en líka virðulegir borgarar sem þágu með þökkum að geta skyggnst inn í framtíðina með lestri sunnudagsblaðs á laugardagskvöldi. Og svo auðvitað ungskáld sem biðu óþreyjufull eftir að sjá hvort ljóðið þeirra eða smásaga hefði hlotið náð.

Óðar og ég hafði klófest eintak leitaði ég hælis í Fischersundi og opnaði blaðið við gluggaljósin frá Ingólfsapóteki. Og þarna var það. Á samri stundu helltust yfir mig áhrifin af asnanum fjórfalda frá því fyrir viku, ég fléttaði götuna heim. Heimkominn las ég ljóðið aftur, líkt og það gæti tekið breytingum frá einum lestri til annars. Sem það og gerði! Í n-tu yfirferð kom ég auga á prentvillu. Það var eins og rýtingur stingist í hjartað á mér, upphefðin snerist í niðurlægingu, ég var búinn að vera.

Undir hádegi á sunnudegi vakti mamma mig, útgrátin, með blaðið í hendinni. Ég hélt í fyrstu að hún væri að gráta út af prentvillunni, en það var ljóðið sem hafði orkað svona sterkt á hana. Hafði hún þá ekki tekið eftir prentvillunni? Ég renndi hratt yfir hennar eintak og prentvillan var líka þar.

Það voru þung sporin í skólann á mánudeginum. Og nú gerist atvik sem staðsetur okkur rækilega í öðrum tíma: fyrir einu ári fátt í hálfri öld lásu allir menntskælingar Lesbók Morgunblaðsins með ljóði og öllu.

ljod-lesbok-1966-PGunn

Og enginn hafði tekið eftir prentvillunni.

 


Höfundakvöldin 2014

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Hallgrímur Helgason: 

Höfundakvöldin 2014

Höfundakvöldin í Gunnarshúsi á haustmánuðum 2014 voru tilraun til að gefa nýjum bókum meira pláss og lyfta jólabókavertíðinni á ögn hærra plan. Hingað til hefur íslenska aðferðin verið sú að hrúga höfundum saman á upplestrarkvöld þar sem hver bók fær 10 mínútur í upplestri en enginn tími gefst til að spjalla eða kafa dýpra í verkin. Erlendis tíðkast fremur að fjallað sé um eitt og eitt verk í einu, og höfundurinn spurður út í það af stjórnanda sem lesið hefur bókina. Hér var sama leið farin; hverju höfundakvöldi stjórnaði nýr spyrjandi.

Höfundakvöldin voru á hverju fimmtudagskvöldi frá því í lok október og fram yfir miðjan desember og var hvert þeirra helgað tveimur höfundum og nýjum bókum þeirra. Alls voru kvöldin tíu talsins og því voru bækur 20 höfunda kynntar á þessum vettvangi, af tíu stjórnendum. Verkin voru valin af Húsráði og valið takmarkað við bækur sem komu út hjá forlögum á haustvertíð, skáldsögur jafnt sem ljóð og barna- og unglingabækur. Flestir höfundanna sem haft var samband við þáðu boðið. Tilraun þessi þóttist heppnast vel og verður vonandi framhald á haustið 2015. Aðsókn var misjöfn frá en nokkrum sinnum varð húsfyllir, setið á 70 stólum, í stigaþrepum og staðið með veggjum þannig að mikil stemmning skapaðist.

Til að hægt væri að bjóða upp á veitingar í hléi var farin sú leið að láta kosta 500 kr. inn. Mæltist þetta ágætlega fyrir og engar kvartanir heyrðust um þetta fyrirkomulag. Fyrir vikið komu kvöldin út á sléttu. Velta má því fyrir sér hvort hækka ætti aðgangseyrinn í 1000 krónur fyrir næsta haust, og þannig gæti tekist að greiða spyrlum og höfundum fyrir sitt framlag.

Nokkur kvöldanna voru hljóðrituð fyrir Útvarp. Jórunn Sigurðardóttir frá Rás eitt mætti með míkrófón og sendi efnið út í þætti sínum Orð um bækur. Flest kvöldin voru einnig tekin upp á myndband. Það var Halldór Árni Sveinsson frá vefmiðlinum netsamfelag.is sem var svo elskulegur að gera það endurgjaldslaust. Enn á hinsvegar eftir að hlaða mesta efninu inn á netið, en á slóðinni http://netsamfelag.is/index.php/bein-utsendin/menning-og-listir/bokmenntir má þó sjá helminginn af tveimur kvöldum.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 30. október, 2014: fullt út úr dyrum.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 30. október, 2014: fullt út úr dyrum.


Nýr heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands

veggurinn
Sigurður Pálsson, skáld, var í kvöld gerður að heiðursfélaga í Rithöfundasambandi Íslands.

Hann er þrítugasti og þriðji heiðursfélagi sambandsins frá upphafi.

Sigurður Pálsson gerðist félagi í Rithöfundasambandi Íslands árið 1976. Hann var formaður sambandsins á árunum 1984-1988. Hann er eitt af okkar kunnustu ljóðskáldum, en auk þess hefur Sigurður sent frá sér leikverk, skáldsögur og þýðingar.
Sigurður er margverðlaunaður höfundur með stórt höfundarverk. Nýlega lauk hann við magnaða þrenningu sína með Táningabók, en fyrir voru út komnar Minnisbók og Bernskubók. Fyrir Minnisbók fékk hann íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007.
Sigurður var verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir ljóðabók sína Ljóð námu völd. Hann hefur verið Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar og árið 2009 var hann valinn leikskáld ársins og fékk Grímuverðlaunin fyrir leikverkið Utan gátta.
Frakkar hafa tvívegis heiðrað Sigurð Pálsson fyrir skáldskap. Hann fékk árið 2008 Riddarakross frönsku heiðursorðunnar fyrir framlag við kynningu á franskri menningu á Íslandi. Fyrir átti hann Riddarakross af orðu lista og bókmennta frá franska ríkinu sem hann fékk árið 1990.
Nýliðið starfsár hefur verið viðburðarríkt hjá skáldinu. Í vetur frumsýndi Þjóðleikhúsið Segulsvið, nýtt verk eftir Sigurð, Táningabók kom út fyrir jól og vakti mikla athygli.
Í vetur var Sigurður valin fyrstur skálda til að gegna starfi við hugvísindasvið Háskóla Íslands sem kennt er við Jónas Hallgrímsson. Starfið er ætlað rithöfundum til að vinna með ritlistarnemum í eitt eða tvö misseri í senn og efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.