Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Gröndalshús

gröndalshusGröndalshús er komið á nýjan grunn í Grjótaþorpi. Hollvinir hússins fengu leiðsögn Hjörleifs Stefánssonar, arkítekts, um bygginguna nú fyrir helgi, en hópurinn hefur lagt til að húsið verði bókmennta- og fræðahús í eigu Reykjavíkurborgar. Í erindi hópsins til borgarinnar segir:

,,Þótt Reykjavík sé elsti sögustaður þjóðarinnar er sögulagið býsna þunnt þegar kemur að sjálfri höfuðborginni. Það er því sannkallaður hvalreki að fá Gröndalshús í Grjótaþorpið. Þetta fallega hús sem ber svo sterkt svipmót nítjándu aldar fyllist ósjálfrátt anda hennar fyrir tilstilli íbúans sem þar lifði og dó. Benedikt Gröndal (1826-1907) er glæsilegur fulltrúi nítjándu aldarinnar: ljóðskáld í fremstu röð, fornfræðingur, náttúrufræðingur, fagurfræðingur, myndlistarmaður – í einu orði fjölfræðingur eins og 19. öldin átti besta. Og síðast en ekki síst var hann Reykvíkingur af lífi og sál sem lét bæjarmál mjög til sín taka, höfundur greina og greinaflokka um lífið í Reykjavík og allt sem betur mátti fara.

Benedikt Gröndal var mikill áhrifavaldur í stílþróun Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness og hefur gengið í endurnýjun lífdaga í nýlegum skáldverkum á  borð við Sæmd Guðmundar Andra og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar, að ógleymdum splunkunýjum hljómdiski trúbadúrsins Teits Magnússonar þar sem hann á vinsælasta textann. Þá njóta náttúrufræðirit Benedikts mikillar hylli. Íslenskir fuglar eru gott dæmi þar um.

Með Gröndalshúsi á forræði borgarinnar eru allar líkur á að ævintýrið nái nýjum hæðum.
Bókmenntaborgir UNESCO státa af athvarfi fyrir skáld og fræðimenn, líkt og fjölmargar aðrar borgir heims. Víða á landsbyggðinni hafa menn lagt metnað í lista- og fræðimannasetur. Þannig hafa íslenskir og erlendir lista- og fræðimenn lykil að samfélaginu og yfirvöld fá rekstrargrunn.“


Frá formanni – jæja

Jæja, kæru félagar.

Það er nóg að gera í Gunnarshúsi. Nýverið var lokið við að útdeila úr Bókasafnssjóði og vonandi eru flestir sáttir.

Ný stjórn. Aðalfundur var haldinn í apríl.  Nýir stjórnarmenn eru Vilborg Davíðsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Andri Snær Magnason. Andri er kominn aftur eftir nokkurra ára fjarveru en hann var jafnframt varaformaður RSÍ um margra ára skeið. Ég býð nýja stjórnarmenn hjartanlega velkomna og hlakka til samstarfsins.

Heiðursfélagi. Á aðalfundi var kjörinn nýr heiðursfélagi, Sigurður Pálsson. Það er mikil ánægja að bæta honum á heiðursskáldavegginn í Gunnarshúsi, en Sigurður er jafnframt gamall formaður RSÍ og þrítugasti og þriðji heiðursfélagi sambandsins.

Norrænn fundur. Í maí héldum við ásamt Hagþenki aðalfund norrænu rithöfunda- og þýðendasamtakanna, NFOR. Nær fimmtíu fulltrúar norrænu félaganna mættu til fundar sem stóð yfir í Hörpu í tvo daga. Fundurinn var mjög gagnlegur þar sem fjallað var um höfundarétt og rafræna útgáfu og félagar báru saman bækur á milli landa, en þróun og staða mála er afar mismunandi. Magnea J.Matthíasdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, hélt merkiserindi um þýðingar á milli Norðurlandanna á fundinum og Dr. Ágúst Einarsson gerði grein fyrir rannsóknum sínum á hagrænum áhrifum ritlistar. Auk þessa flutti lögmaður bandaríska Writers´Guild afar áhugavert erindi um tíu ára langa baráttu við Google risann um höfundaréttarmál. Þeim slag er langt frá því að vera lokið. Nú í júní er framundan fundur formanns og framkvæmdastjóra RSÍ með kollegum í höfundafélaga í Evrópu. Allt er þetta samstarf afar nauðsynlegt til að samhæfa aðgerðir, taka mið af og halda svipaðri stefnu í hagsmunabaráttu höfunda.

Fundur með ráðherra. Eftir að virðisaukaskattur var hækkaður á bækur hefur samningsstaða höfunda gagnvart útgefendum síst batnað. Ráðamönnum var tíðrætt um mótvægisaðgerðir vegna hækkunarinnar og nefndu oftar en ekki Bókasafnssjóð. Sá sjóður var lækkaður um helming árið 2013 af núverandi stjórnvöldum, en hækkaður á síðustu fjárlögum upp í fyrri upphæð. Hækkunin var síðan nefnd mótvægisaðgerð þótt aðeins sé hægt að túlka hana sem leiðréttingu. Ljóst er að það er afar brýnt að koma Bókasafnssjóði í lagaramma þar sem stærð hans stjórnist ekki af geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna hverju sinni, heldur taki mið af samningaviðræðum við höfunda eins og tíðkast í nágrannalöndum. Nefnd á vegum ráðuneytis var ætlað að kanna þetta í vetur og eigum við aðild að henni. Nú í maílok náðist fundur með menntamálaráðherra þar sem þessi mál voru rædd og varð að samkomulagi að ráðuneytið vinni að frumvarpsgerð upp úr hugmyndum nefndarinnar á næstu mánuðum svo koma megi sjóðnum í lagalegt umhverfi. Við bindum miklar vonir við að þetta takist. Þá fyrst verður hægt að hefja málefnalegar viðræður um viðunandi stærð sjóðsins.

Heiðurslaun. Á dögunum var haldinn fundur á vegum BÍL um heiðurslaun listamanna. Ljóst var á fundinum að enginn er sáttur við ástandið eins og það er varðandi heiðurslaunin. Formaður menntamálanefndar Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, er afar ósátt við núverandi fyrirkomulag og nokkrar hugmyndir um breytingar komu fram á fundinum. Pétur Gunnarsson, rithöfundur, lagði fram tillögur um akademíu sem væri sjálfstætt starfandi og leggði til heiðurslistamenn hverju sinni og fundarmenn veltu fyrir sér samhenginu á milli velferðarhlutverks launanna og heiðursins sem þau eiga að fela í sér.

Samningamálin. Ráðsmenn í öllum samningaráðum eru að skoða samninga. Ljóst er að brýnt er að setjast niður með forsvarsmönnum RÚV og gera nýja samninga þar sem hinir gömlu eru löngu úreltir og fallnir úr gildi. Þá er verið að skoða kvikmyndasamninga vegna bókverka og frumsaminna handrita. Þýðendasamningurinn og almenni útgáfusamningurinn eru báðir í skoðun. Margar gagnlegar athugasemdir hafa borist frá félagsmönnum og allar ábendingar eru vel þegnar. September fer að öllum líkindum í að skoða upptöku og hugsanlegar viðræður við viðsemjendur.

Námsgagnastofnun. Nýverið funduðum við með starfshópi frá Námsgagnastofnun ásamt formanni Hagþenkis. Þessi hópur á að skoða samstarf við höfunda, hvað vel er gert og hvað má betur fara í ljósi þess að Námsgagnastofnun verður nú hluti af nýrri stofnun. Við lögðum á það höfuðáherslu að ná þyrfti nýjum og nothæfum samningum fyrir höfunda nú þegar ný stofnun tekur til starfa. Auk þess gerðum við athugasemdir við efnisval og faglega og skapandi nálgun við gerð kennsluefnis.

Höfundahúsið. Að lokum vil ég minna þá félagsmenn sem á þurfa að halda, á að tryggja sér vinnuaðstöðu í húsinu fyrir næsta vetur. Gjaldið er málamynda og næði og aðstaða til fyrirmyndar. Munið einnig að skoða orlofshúsin á vefnum okkar www.rsi.is og nýta ykkur lausa daga í Sléttaleiti og á Eyrarbakka.

Gröndalshús. RSÍ hefur ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi beitt sér fyrir því að Reykjavíkurborg geri Gröndalshús að skáldaskjóli rithöfunda og fræðimanna í hjarta bókmenntaborgarinnar. Hópur áhugamanna og fólks úr báðum félögum hefur sent áskorun þessa efnis til borgarstjóra og jafnframt óskað eftir fundi með borgarstjórn um framtíð hússins í eigu borgarinnar.

 

Kærar kveðjur,

Kristín Helga


nfor-1 nfor-4 nfor-5

Afkoma, réttindi og framtíð rithöfunda á Norðurlöndum

Ársfundur Norræna rithöfunda- og þýðendaráðsins í Hörpu

             Um miðjan maí hélt Rithöfundasamband Íslands í samráði við Hagþenki ársfund Norræna rithöfunda- og þýðendaráðsins. Til fundarins mættu fjörutíu og fimm fulltrúar félaga okkar á Norðurlöndum auk fulltrúa RSÍ og Hagþenkis.

            Rætt var um fjárhagslega afkomu höfunda og opnaði Dr. Ágúst Einarsson þá umræðu með erindi um hagræn áhrif ritlistar á Íslandi. Í kjölfarið voru gagnlegar og upplýsandi umræður um ástandið í nágrannalöndunum. Samanburður leiddi í ljós að við megum nokkuð vel við una þegar að samningum við útgefendur kemur, en erum aftarlega á merinni hvað varðar bókasafnsgreiðslur og rafræna þróun.

            Jan Constantine, lögmaður bandaríska rithöfundasambandins Authors´Guild, var sérlegur gestur fundarins. Hún flutti afar forvitnilegt erindi um áralanga baráttu rithöfunda við rafræna risann Google um höfundarrétt. Sú barátta stendur enn og sér ekki fyrir endann á henni og hvergi bilbug að finna á bandarískum höfundum sem berjast gegn frjálsri og ótakmarkaðri birtingu bókverka á veraldarvefnum. Þessi málaferli eru fordæmisgildandi um alla veröld og því fylgjast aðrir grannt með.

            Þá var staða höfundarréttar á Íslandi til umfjöllunar á fundinum og hélt Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, erindi um nýleg frumvörp um breytingar á höfundaréttarlögum. Í kjölfarið spannst afar forvitnileg pallborðsumræða á milli lögmanna félaganna þar sem fram kom að höfundarréttarmálin eru að þróast með ólíkum hætti á norðurlöndunum og ljóst að nauðsynlegt er að þessar þjóðir gangi í takt og gæti samræmis svo Norðurlöndin búi við svipað lagaumhverfi í framtíðinni.

            Magnea J. Matthíasdóttir, formaður Félags þýðenda og túlka, hélt erindi um þýðingar á milli Norðurlandanna, verðlaun og útgáfustyrki. Magnea kynnti sláandi tölur sem sýna að þýðingum á milli norrænu þjóðanna fækkar ört. Einna helst eru bókverk þýdd á milli Danmerkur og Noregs, en lítt á milli hinna landanna.

            Starfssemi Reykjavíkur Bókmenntaborgar var einnig kynnt á fundinum og góður rómur gerður að. Fundurinn var afar gagnlegur og ljóst að félögin á norðurlöndum þurfa að ganga þétt saman í þeim rafræna frumskógi sem fer ört stækkandi.


Fjögur verkefni fengu styrk

images-stories-frettir-uthlutun18mai2015-230x120

Mánudaginn 18. maí, á fæðingardegi Gunnars Gunnarssonar rithöfundar, var úthlutað í fyrsta sinn úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar. Athöfnin fór fram á Skriðuklaustri. Til úthlutunar var ein milljón króna en í máli Helga Gíslasonar, formanns sjóðsstjórnar, kom fram að markmiðið væri að ná höfuðstól sjóðsins upp í 100 m.kr. þannig að í framtíðinni yrði hægt að úthluta meira fé til fleiri verkefna. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar auk þess að renna stoðum undir starfsemi stofnunarinnar.

Níu umsóknir bárust til sjóðsstjórnar og ákvað hún að veita fjórum verkefnum styrki. Þrjú verkefni fengu 200 þús. kr. styrk: Hallveig K. Eiríksdóttir og Þorvaldur S. Helgason til að vinna leiksýningu eftir skáldsögu Gunnars Sælir eru einfaldir; Jón Hjartarson til að skrifa leikverk upp úr þremur smásögum Gunnars; Oskar Vistdal til að þýða Svartfugl á norsku. Hæsta styrkinn, 400 þús. kr., hlaut Sigurgeir Orri Sigurgeirsson til að skrifa handrit að heimildarmynd um ævi og verk Gunnars Gunnarssonar.


Heiðurslaun listamanna Málþing í Iðnó miðvikudag 27. maí nk. kl. 14:00 – 16:00

Bandalag íslenskra listamanna gengst fyrir málþingi um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir árlega nokkrum hópi listamanna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþóðavettvangi“ [orðalag laga um heiðurslaun nr. 25/2012]

Kveikjan að fundinum er fengin frá meistaraprófsritgerð sem Guðni Tómasson listsagnfræðingur varði nýlega við Háskólann á Bifröst. Guðni verður frummælandi á fundinum og kallar hann erindi sitt

Heiður þeim sem heiður ber

Heiðurslaun listamanna, Alþingi Íslendinga og virðingin sem við sýnum afburðarólki í listum á Íslandi

 

Að loknu erindinu verða pallborðsumræður um málefnið. Gestir í pallborði, auk Guðna, verða:

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis

Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður starfshóps BÍL um heiðurslaun 2010-2011

Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrv. alþingismaður.

Umræðum stýrir Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL.

BÍL hefur oftsinnis fjallað um fyrirkomulag heiðurslauna Alþingis til listamanna og reynt að benda á aðrar leiðir við framkvæmdina en tíðkast hafa. Til marks um þá vinnu er ályktun aðalfundar BÍL frá 2011, sem aðgengileg er á heimasíðu BÍL. Á málþinginu gefst tækifæri til að ræða mismunandi sjónarmið um heiðurslaun, inntak þeirra og fyrirkomulag.

Málþingið er ætlað félögum í aðildarfélögum BÍL, stjórnmálamönnum og öðru áhugafólki um málefnið.


Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

vorvindar2015

Í gær voru í Gunnarshúsi afhentar Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi. Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu.

Viðurkenningarnar hlutu:

Bergur Þór Ingólfsson. Bergur Þór Ingólfsson er leikhúslistamaður sem hefur undanfarin ár gefið sig æ meira að verkefnum sem höfða til allrar fjölskyldunnar. Bergur vinnur verk sín af alúð og virðingu fyrir áhorfendum og sýningar hans eru til þess fallnar að búa til leikhúsunnendur fyrir lífstíð.

  • Guðni Líndal Benediktsson. Leitin að Blóðey er fyrsta bók höfundar og er fjörleg ýkju- og gamansaga sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin síðastliðið haust. Bókin er vel heppnuð frumraun og líkleg til að kæta lesendur á öllum aldri.
  • Hilmar Örn Óskarsson. Bækur Hilmars um Kamillu vindmyllu eru orðnar þrjár og einnig hefur hann skrifað bókina Funi og Alda falda sem ætluð er yngstu lesendunum. Ærsl og húmor einkenna stílinn, sem er markaður af náinni meðvitund höfundar um langanir og þarfir lesenda sinna.
  • Kristín Ragna Gunnarsdóttir. Myndheimur Kristínar Rögnu er orðinn hluti af æsku heillar kynslóðar, en hann birtist henni í bókum, á sýningum og í kennslustofum. Metnaður Kristínar Rögnu og stöðugt samtal hennar við áhorfendur tryggir óvæntar og áleitnar myndir sem lifa lengi í hugskotinu.

Vorvindaviðurkenningar IBBY hafa verið afhentar árlega frá árinu 1987 og eiga þær að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása í barnamenningunni hverju sinni.

Meðfylgjandi er ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru (frá vinstri) Sigurjóna Rós Benediktsdóttir, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Guðna Líndal Benediktssonar, Hilmar Örn Óskarsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson.

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.