Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Íslensku barnabókaverðlaunin

barnabókaverðlaun

Ragnheiður Eyjólfsdóttir hlýtur íslensku barnabókaverðlaunin 2015 fyrir fantasíubókina Arftakinn. Bókin var valin úr 28 handritum sem send voru dómnefnd verðlaunanna.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hagaskóla í morgun. Eftir þverflautuleik Sigrúnar Valgeirsdóttur, nemanda við Hagaskóla, lagði skólastjórinn Ómar Örn Magnússon áherslu á mikilvægi þess og fagnaði því að skrifaðar væru spennandi barna- og unglingabækur. Næst söng Steinunn Lárusdóttir, nemandi, lagið Ást. Þá steig Sigþrúður Gunnarsdóttir, fyrir hönd stjórnar barnabókaverðlaunanna, á svið og kynnti sigurhöfundinn.

Arftakinn er fyrsta bók Ragnheiðar en tilgangur verðlaunanna er einmitt meðal annars að hjálpa ungum rithöfundum að koma sér á framfæri. Sigþrúður sagði alla dómnefndina hafa fallið fyrir bókinni sem fjallar um unglingsstelpuna Sögu sem uppgötvar falinn furðuheim rétt fyrir 13 ára afmælisdaginn. Ragnheiður segir bókina fjalla um „upprunann, völd, svik, fortíðina, furður, vinskap og fjandskap.“

Íslensku barnabókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1986 en stofnað var til þeirra í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar. Auk fjölskyldu hans standa Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið að verðlaununum og skipa fulltrúar þessara aðila dómnefndina. Í ár bárust dómnefndinni 28 handrit undir dulnefni og valdi hún sigurbókina í samstarfi við tvo nemendur úr áttunda bekk í Hagaskóla, Hrafnhildi Einarsdóttur og Matthías Löve. Verðlaunaféð sem sigurvegarinn hlýtur er hálf milljón króna.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi

1hofundakvold

Húsráð Gunnarshúss stendur nú í annað sinn fyrir vikulegum höfundakvöldum í Gunnarshúsi í aðdraganda jóla. Höfundakvöldin verða alls átta og standa fram í desemberbyrjun. Á hverju fimmtudagskvöldi mæta tveir til þrír höfundar nýrra bóka, spjalla um bækur sínar og lesa úr þeim, og síðan gefst áhorfendum kostur á að spyrja líka.

Fimmtudaginn 15. október kl. 20.00 ríða þrjú ljóðskáld á vaðið, þau Bubbi Morthens, Linda Vilhjálmsdóttir og Óskar Árni Óskarsson. Bubbi Morthens hefur lengi verið með vinsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar en gefur um þessar mundir út sína fyrstu ljóðabók, Öskraðu gat á myrkrið. Linda Vilhjálmsdóttir sendir frá sér sína sjöttu ljóðabók, Frelsi, en auk ljóða hefur hún skrifað sjálfsævisögulega skáldsögu sem vakti mikla athygli, Lygasögu. Óskar Árni Óskarsson gefur út Blýengilinn, sína þrettándu ljóðabók, en hann hefur einnig skrifað prósa og þýtt bæði ljóð og smásögur. Bubbi, Linda og Óskar Árni munu lesa upp úr bókum sínum og svara spurningum Hauks Ingvarssonar um þær.

Gunnarshús, hús Rithöfundasambands Íslands, er staðsett á Dyngjuvegi 8. Aðgangseyrir er 1000 krónur, veitingar innifaldar. Allir velkomnir á meðan stólar leyfa.


LEIKSKÁLD BORGARLEIKHÚSSINS – Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur auglýsir eftir umsóknum

Stjórn sjóðsins velur leikskáld úr hópi umsækjenda sem býðst eins árs samningur við Borgarleikhúsið. Laun sem greidd eru mánaðarlega taka mið af starfslaunum listamanna. Skáldið fær aðstöðu í leikhúsinu, vinnur þar á samningstímanum, verður hluti af starfsliði Borgarleikhússins og mun njóta aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra og leiklistarráðunauta.
Unnið skal að ritun leikverks á tímabilinu með uppsetningu í huga. Stefnt er að því að leikverk, eitt eða fleiri, sem unnin eru á samningstíma, verði sviðsett í Borgarleikhúsinu. Þetta er þó ekki skilyrði.

Umsókn skal innihalda:
• Nafn, heimilisfang, netfang, símanúmer
• Ferilskrá
• Sýnishorn af leikrænum texta (5 – 10 blaðsíður)
• Æskilegt er að umsækjandi sendi með umsókn sinni hugmynd að leikverki sem hann hefur í huga að vinna á samningstímanum og einnig er heimilt að láta annað fylgja með sem umsækjandi telur að eigi erindi með umsókninni.

Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál og öll gögn endursend umsækjendum að loknu vali. Umsóknir skulu sendar í pósti stílaðar á Borgarleikhúsið/Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur, Listabraut 3, 103 Reykjavík eða með tölvupósti, borgarleikhus@borgarleikhus.is, merkt “Leikskáld” fyrir 23. október 2015.


Tilnefningar á heiðurslista alþjóðlegu IBBY samtakanna

Barnabókmenntasamtökin IBBY á Íslandi hafa tilnefnt verk þriggja einstaklinga á heiðurslista alþjóðlegu IBBY samtakanna, en hver landsdeild samtakanna tilnefnir einn rithöfund, einn myndhöfund og einn þýðanda. Heiðurslistinn er birtur annað hvert ár og fá bækurnar á honum mikla alþjóðlega kynningu, bæði á heimsþingi IBBY sem næst verður haldið í ágúst 2016 í Auckland, Nýja-Sjálandi, og á farandsýningu bóka sem ferðast um allan heim í tvö ár.

• Ármann Jakobsson er tilnefndur fyrir Síðasta galdrameistarann.
• Áslaug Jónsdóttir er tilnefnd fyrir Skrímslakisa.
• Magnea J. Matthíasdóttir er tilnefnd fyrir þýðinguna á Afbrigði eftir Veronicu Roth.


KÚBA, HVAÐ ERTU, KÚBA?

Opinn fundur með kúbanska rithöfundinum Orlando Luis Pardo Lez

Laugardaginn 10. október klukkan 14:00 býður PEN á Íslandi í samvinnu við Borgarbókasafnið í Grófinni til opins félagsfundar um stöðu málfrelsis og mannréttinda á Kúbu með kúbanska rithöfundinum Orlando Luis Pardo Lazo. Á fundinum mun hann fara yfir sögu mannréttindabrota á Kúbu undir stjórn kommúnistaflokksins ásamt því að lýsa ástandinu eins og það er í dag og segja frá ástæðum þess að honum varð ekki lengur vært í landinu.

Orlando Luis Pardo Lez er ljóðskáld, sagnahöfundur, ljósmyndari og samfélagsrýnir sem árið 2013 var neyddur í útlegð frá Kúbu vegna skrifa sinna en fyrir utan skáldskaparritun var hann ritstjóri sjálfstæðu stafrænu tímaritanna, Cacharro (s)The Revolution Evening Post, og Voces. Í dag er Orlando gestur Skjólborgar  Reykjavíkur sem er þáttakandi í ICORN alþjóðlegu neti borga sem veita ofsóttum rithöfundum skjól. Hann er vefstjóri vefsins Boring Home Utopics og heldur úti bloggsíðunni Lunes de post-Revolución.

PEN á Íslandi er samtök rithöfunda, ritstjóra og útgefenda sem standa vörð um tjáningarfrelsið heima og erlendis í samstarfi við alþjóðasamtökin PEN International.

Samkvæmt síðustu úttekt nefndar PEN International um málefni fangelsaðra rithöfunda, Writers in Prison Committee, situr fjöldi kúbanskra höfunda í fangelsi eða sætir stöðugum lögsóknum og líkamsárásum. Það er því dýrmætt að fá þá beinu innsýn inn í líf þeirra sem Orlando mun veita fundargestum í Grófarhúsi næsta laugardag klukkan 14:00. Fundarstjóri verður Sjón, forseti PEN á Íslandi.


Jæja … frá formanni!

Jæja …  góður félagsfundur er að baki um samningamálin.
Fundurinn var ætlaður til að bera saman bækur og taka niður ábendingar og tillögur. Ég fór í upphafi fundar yfir hinar margvíslegu samningsgerðir RSÍ. Hallgrímur Helgason sagði frá samningnum við útgefendur  og Gauti Kristmannsson fjallaði um  þýðingasamninginn og Sölvi Björn Sigurðsson kynnti könnun sína á kvikmyndarétti fyrir bókverk.
Samráðsfundur sem þessi er nauðsynlegur á hverju hausti , til að ræða kjaramálin, skoða landslagið og sóknarfærin. Við verðum að vera í góðu samtali svo stjórn fái skýr skilaboð og sterkt umboð til þess að þoka hlutum áfram.

1. Samningur höfunda við útgefendur. Það er skoðun stjórnar og ráðgefandi félagsmanna eftir að hafa skoðað málið að segja þessum samningum ekki upp að svo stöddu. En taka þá upp í vetur með viðsemjendum til að lagfæra og endurskoða eftirfarin atriði. Þar eru einkum fjögur atriði sem félagsmenn hafa verið ósáttir við:

a. Kiljuprósentin átján, en Hallgrímur gerði grein fyrir þeim í sínu erindi.

b. Ákvæði um skiptingu á fyrirframgreiðslum til höfunda sem fóru út við síðustu samninga og við viljum fá aftur inn á einhverju formi.

c. Rafbókaákvæði samninganna eru loðin, sérlega hvað varðar gildistíma. Við viljum skoða þessi ákvæði vel í ljósi þróunarinnar sem er hröð. Fram undan er málþing um rafbókina sem RSÍ stendur að ásamt öðrum og þar skýrast línur vonandi aðeins.

d. Staða höfunda við gjaldþrot forlaga. Nýlegt dæmi frá Uppheimum er nöturleg saga þar sem höfundar standa berskjaldaðir á meðan banki heldur útgáfunni gangandi til að fá upp í skuldir. Höfundar fara aftast í röðina og fá ekki greitt fyrir verk sín á meðan verið er að selja þau. Lögfræðingur RSÍ skoðar með okkur hvort hægt sé að innleiða í okkar samninga ákvæði sem verja okkar fólk við þessar aðstæður.

Þessi atriði viljum við fá viðsemjendur til að skoða með okkur fyrir áramót og við erum að setja saman afar öfluga nefnd félagsmanna til að ganga í viðræðurnar.

2. ÞÝÐINGASAMNINGUR er frá 21. des 2010 og endurnýjaði sig sjálfkrafa í desember í fyrra.  Við getum sagt þeim upp þegar við viljum, en verðum að vita nákvæmlega hvert við ætlum og hvar við ætlum að enda áður en það er gert. Við teljum mun vænlegra til árangurs að opna samninginn á sama hátt og við hyggjumst opna útgáfusamninginn og ræða þannig þá hluti sem betur mega fara. Í þýðingasamningum hefur flokkunarkerfið ekki virkað sem skyldi. Magneu Mattíasdóttur leiðir þetta skoðunarstarf í samvinnu við stjórn RSÍ.

Og það er nauðsynlegt að skoða landslagið í kringum okkur:

Við fórum á fund með kollegum okkar í Brussel í júní. Víða í Evrópulöndum eru menn ekki með útgáfusamninga og nærtækt dæmi er Svíþjóð, en þar eru höfundar samningslausir. Austurríkismenn voru að lenda samningi en þar eru engar prósentur og sömuleiðis Hollendingar, en þá dreymir um að fá prósentur inn í sína samninga þegar fram líða stundir. Það kom fram í framsöguerindum félaga okkar í Evrópu að algengt er að höfundar fái fimm til tíu prósent af verkum sínu og þó nokkuð um að nýir höfundar fái ekki greitt með öðru en væntingum um útgáfu á næstu bók. Og þetta vita okkar viðsemjendur hér á Íslandi.  Við teljum ekki fýsilegt að segja upp samningum nú, en að opna þá til að ræða einstaka ákvæði er afar nauðsynlegt og skyldi gerast reglulega því reynsla verður að komast á allt til að sjá hvort það gengur í raun.

3. RÚV SAMNINGAR verða væntanlega umfangsmestu viðræðurnar sem framundan eru í vetur . Nothæfir samningar við RÚV eru löngu tímabærir. Þeir eru tvíþættir- útvarp og sjónvarp. Viðsemjandi okkar er sammála um nauðsyn þess að gera nothæfa og virka samninga sem allra fyrst á milli RSÍ og RÚV og sammála um að núgildandi samningar okkar séu löngu úreltir. Við höfum verið með RÚV samningana í skoðun undanfarna mánuði og litið til samninga við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum. Þar stöndumst við alls ekki samanburð. Viðræður munu óhjákvæmilega taka mið af þeim samanburði. Samninganefnd er í burðarliðnum. Eftir samtal við útvarpsstjóra liggur fyrir að þessar viðræður geta hafist í október. Okkur hafa einnig borist margar þarfar og góðar ábendingar frá félagsmönnum varðandi greiðslur fyrir leikverk og flutning útgefins efnis í útvarpi og sjónvarpi, endurflutning á gömlu efni og varðandi framkvæmd við greiðslu til höfunda.

4. BÍÓRÉTTARSAMNINGUR.  Vinna við viðmiðunarplagg fyrir félagsmenn vegna sölu á kvikmyndarétti á bókverki hefur farið fram og Sölvi Björn Sigurðsson hefur haft veg og vanda að þeirri samantekt.  Við gerum ráð fyrir að geta lagt viðmiðunarplagg inn á síðuna hjá okkur fljótlega auk þess sem hægt verður að fá frekari upplýsingar á skrifstofunni, að venju.  Þessar upplýsingar er nauðsynlegt að hafa aðgengilegar svo höfundur viti hvernig hann á að taka fyrstu skref ef falast er eftir kvikmyndarétti og hvernig hann á að snúa sér í framhaldinu. Á félagsfundinum gerði Sölvi Björn grein fyrir sinni samantekt.

5. BÍÓHANDRITASAMNINGUR. Verið er að skoða kvikmyndasamninga fyrir frumsamið handrit. Til stendur að klára, með aðstoð lögfræðings félagsins, viðmiðunarsamning vegna kvikmyndahandrits og verður hann aðgengilegur á heimasíðunni. Við leggjum mikla áherslu á að kvikmyndasamningarnir séu skýrir, einfaldir og aðgengilegir  svo höfundar geti nýtt sér þá eða haft til hliðsjónar þegar þeir gera sína samninga við framleiðendur. Þessi vinna liggur sem stendur hjá reynslumiklu fólki í þessum efnum og stefnt er að því að samningurinn verði tilbúinn síðar í vetur.

6. LEIKHÚSSAMNINGAR: Leikhússamningarnir við stóru húsin hafa verið skoðaðir og það er álit allra að þeir séu góðir og þeir verða því ekki hreyfðir um sinn.

7. MENNTASTOFNUN eða Námsgagnastofnunin sáluga. Menntastofnun hefur tekið við kyndlinum og þar erum við í samráði við Hagþenki sem leiðir samninga við Menntastofnun líkt og við Námsgagnastofnun fyrr. Í vor komu til fundar við okkur og forsvarsmenn Hagþenkis fulltrúar frá vinnuhópi sem kannaði hvað betur má fara í samstarfi nýrrar Menntastofnunar við höfunda. Við bentum þar fyrst og fremst á samningsleysi sem hefur endað með einhliða plaggi frá Námsgagnastofnun til höfundar. Þetta vakti undrun á þessum vorfundi og okkur var heitið því að ný stofnun gangi hið allra fyrsta til samningaviðræðna svo gera megi nothæfa og tvíhliða samninga við höfunda. Að auki er brýnt að endurnýja endurbirtingarsamninginn okkar við nýja stofnun og Ragnheiður okkar er með það á sinni könnu.

Þá eru upptaldir okkar helstu samningar.

BÓKASAFNSSJÓÐUR: En við mæðumst í mörgu þegar kemur að kjaramálum höfunda. Þannig höfðu núverandi stjórnvöld tekið Bókasafnssjóð höfunda niður úr 45 milljónum í 23 milljónir og var staðan þannig fyrir rúmlega ári. Í fyrra náðist varnarsigur þegar okkur tókst með viðræðum, pexi og poti í menntamálaráðuneyti og meðal þingmanna, að koma þessum sjóði aftur upp í 45 milljónir. Við höfum haldið áfram viðræðum við ráðherra um Bókasafnssjóðinn og umhverfi hans og leggjum á það ofuráherslu að hann komist í ásættanlegt lagalegt umhverfi svo hann verði ekki háður geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna í framtíðinni og að ekki verði hægt að taka hann aftur fyrirvaralaust niður um helming. Ráðherra lofaði okkur í vor að vinna við lagafrumvarp um umhverfi Bókasafnssjóðs gæti farið fram í ráðuneytinu á þessu ári og jafnvel klárast á áramótum. Það er mikilvægt svo hægt verði að koma sjóðnum í stöðugri aðstæður.
Þetta var rætt á fundi með ráðherra í vor og svo bárust okkur þau gleðitíðindi í haust að sjóðurinn er í fjárlagafrumvarpi næsta árs 70 milljónir króna.
Bókasafnssjóðurinn er mjög mikilvægur. Hér er um að  ræða afnotagjöld . Langtímamarkmiðið er að sjóðurinn verði amk 300 milljónir miðað við núgildandi verðlag.

LAUNASJÓÐUR. Varðandi launasjóð rithöfunda þá er löngu orðið tímabært að auka í hann duglega. Það er gamalt markmið sem ekki hefur náðst í gegn ennþá. Þarna þarf að auka verulega í, ekki síst til að gæta að nýræktinni og taka vel á móti ungum höfundum sem ákveða að leggja skrifin fyrir sig. Við höfum farið fram á viðræður við menntamálaráðherra um launasjóð höfunda nú í haust. Við munum taka það samtal samhliða vinnunni við að koma Bókasafnssjóði í lagaumhverfi. Þarna verðum við þó að muna að við erum ekki eyland. Það er ekki hægt að bæta í launasjóð rithöfunda án þess að skoða samtímis alla listamannasjóðina. Við erum afar meðvituð um mikilvægi þess að eiga samtalið um launasjóð höfunda beint við ráðherra og viljum reka okkar málflutning á menningarlegum forsendum og leggjum áherslu á sérstöðu okkar, tungumál, bókmenntir, læsi og þjóðararf.
Mikilvægt er að vera í reglubundnu samtali við viðsemjendur okkar , halda góðu og stöðugu sambandi við yfirvald menntamála því með samtalinu vinnum við litlar orrustur og þokum málum í rétta átt.

Margar góðar tillögur voru lagðar fram á félagsfundinum, kraftmikið nesti fyrir viðræður framundan og fyrir það landslag sem til stendur að hanna áður en sest verður niður með viðsemjendum.

bestu kveðjur
Kristín Helga


Bókin í rafheimum – er ástæða til að óttast eða fagna?

Föstudaginn 2. október, á öðrum degi Lestrarhátíðar í Reykjavík, verður haldið opið málþing um mögulega framtíð bóka á íslensku í stafrænum heimi. Þingið er samstarfsverkefni Rithöfundasambands Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns Íslands, Borgarbókasafns, Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.

Markmiðið er að skoða stöðuna á íslenskum bókamarkaði og velta vöngum yfir því sem framtíðin gæti borið í skauti sér.

Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsog stendur frá kl. 13 – 17. Það er öllum opið og ekkert kostar inn.

DAGSKRÁ:

13.00
Halla Oddný Magnúsdóttir setur þingið og stýrir umræðum.

13.10
Gauti Kristmannsson, prófessor: Menningarpólitísk áhrif tæknibyltinga
Hér verður farið yfir hvernig tæknibyltingar breyta landslagi menningar og tungumáls og verður þetta fyrst og fremst skoðað út frá íslenskum sjónarhóli, en þó með samanburði við það sem er að gerast erlendis.

13.30
Egill Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda: Rafbókaútgáfa á Íslandi
Farið verður yfir þróun íslenskrar rafbókaútgáfu undanfarin ár og einnig innviðina og aðferðafræðina við útgáfu og sölu rafbóka. Egill mun einnig lýsa framtíðarsýn sinni á miðlun og sölu rafbóka á Íslandi á komandi misserum.

13.50
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður: Rafbækur í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Fjallað verður um stafræna endurgerð íslenskra bóka og hugmyndir um íslenska Bókahillu, móttöku íslenskra rafbóka í skylduskilum og aðgengi að þeim. Einnig um erlendar fræðibækur og handbækur sem safnið kaupir og eru ýmist aðgengilegar á háskólasvæðinu eða opnar öllum landsmönnum á hvar.is.

14.10 Kaffihlé

14.30
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands: Rithöfundur í rafheimum: Stjórnlaus lukka?
Vangaveltur um stöðu höfunda í rafrænu samfélagi og rafrænni útgáfu. Nær höfundur nú milliliðalausu sambandi við lesendur sína eða verða milliliðirnir mikilvægari en nokkru sinni? Verður höfundur útgefandi og rekur sitt eigið bókasafn?

15.00
Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður (Guðríður Sigurbjörnsdóttir flytur): Rafbækur og almenningsbókasöfn
Bókasöfn og ekki síst almenningsbókasöfn eru afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem tryggir læsi og lesskilning í samfélaginu. Víða um heim hafa bókasöfn og útgefendur leitað leiða til að finna útlánaform sem hentar öllum aðilum. Til eru nokkrar leiðir sem hafa verið farnar. Þeim verður lýst í stuttu máli ásamt þeirri leið sem Borgarbókasafn ásamt Landskerfi bókasafna er að skoða núna til að geta boðið upp á rafbækur sem safnkost. Það er trú okkar á Borgarbókasafninu að það séu sameiginlegir hagsmunir bókasafna, höfunda og útgefanda að sátt náist um hvernig þessu er háttað.

15.20
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur: Á ráfi í rafbókarheimi: lesendur, lesskilningur og lestraránægja
Í erindinu veltir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir fyrir sér rafbókum út frá sjónarhóli lesenda. Hún fjallar um lestrarskilning og lestraránægju, og veltir sérstaklega fyrir sér hvaða möguleika áframhaldandi tækniþróun veitir prentleturshömluðum og hvaða kröfur skulu gerðar um aðgengi að rafbókum.

15.40
Pallborðsumræður

17.00
Léttar veitingar

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.