Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Fjögur verkefni fengu styrk

images-stories-frettir-uthlutun18mai2015-230x120

Mánudaginn 18. maí, á fæðingardegi Gunnars Gunnarssonar rithöfundar, var úthlutað í fyrsta sinn úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar. Athöfnin fór fram á Skriðuklaustri. Til úthlutunar var ein milljón króna en í máli Helga Gíslasonar, formanns sjóðsstjórnar, kom fram að markmiðið væri að ná höfuðstól sjóðsins upp í 100 m.kr. þannig að í framtíðinni yrði hægt að úthluta meira fé til fleiri verkefna. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar auk þess að renna stoðum undir starfsemi stofnunarinnar.

Níu umsóknir bárust til sjóðsstjórnar og ákvað hún að veita fjórum verkefnum styrki. Þrjú verkefni fengu 200 þús. kr. styrk: Hallveig K. Eiríksdóttir og Þorvaldur S. Helgason til að vinna leiksýningu eftir skáldsögu Gunnars Sælir eru einfaldir; Jón Hjartarson til að skrifa leikverk upp úr þremur smásögum Gunnars; Oskar Vistdal til að þýða Svartfugl á norsku. Hæsta styrkinn, 400 þús. kr., hlaut Sigurgeir Orri Sigurgeirsson til að skrifa handrit að heimildarmynd um ævi og verk Gunnars Gunnarssonar.


Heiðurslaun listamanna Málþing í Iðnó miðvikudag 27. maí nk. kl. 14:00 – 16:00

Bandalag íslenskra listamanna gengst fyrir málþingi um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir árlega nokkrum hópi listamanna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþóðavettvangi“ [orðalag laga um heiðurslaun nr. 25/2012]

Kveikjan að fundinum er fengin frá meistaraprófsritgerð sem Guðni Tómasson listsagnfræðingur varði nýlega við Háskólann á Bifröst. Guðni verður frummælandi á fundinum og kallar hann erindi sitt

Heiður þeim sem heiður ber

Heiðurslaun listamanna, Alþingi Íslendinga og virðingin sem við sýnum afburðarólki í listum á Íslandi

 

Að loknu erindinu verða pallborðsumræður um málefnið. Gestir í pallborði, auk Guðna, verða:

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis

Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður starfshóps BÍL um heiðurslaun 2010-2011

Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrv. alþingismaður.

Umræðum stýrir Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL.

BÍL hefur oftsinnis fjallað um fyrirkomulag heiðurslauna Alþingis til listamanna og reynt að benda á aðrar leiðir við framkvæmdina en tíðkast hafa. Til marks um þá vinnu er ályktun aðalfundar BÍL frá 2011, sem aðgengileg er á heimasíðu BÍL. Á málþinginu gefst tækifæri til að ræða mismunandi sjónarmið um heiðurslaun, inntak þeirra og fyrirkomulag.

Málþingið er ætlað félögum í aðildarfélögum BÍL, stjórnmálamönnum og öðru áhugafólki um málefnið.


Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

vorvindar2015

Í gær voru í Gunnarshúsi afhentar Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi. Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu.

Viðurkenningarnar hlutu:

Bergur Þór Ingólfsson. Bergur Þór Ingólfsson er leikhúslistamaður sem hefur undanfarin ár gefið sig æ meira að verkefnum sem höfða til allrar fjölskyldunnar. Bergur vinnur verk sín af alúð og virðingu fyrir áhorfendum og sýningar hans eru til þess fallnar að búa til leikhúsunnendur fyrir lífstíð.

  • Guðni Líndal Benediktsson. Leitin að Blóðey er fyrsta bók höfundar og er fjörleg ýkju- og gamansaga sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin síðastliðið haust. Bókin er vel heppnuð frumraun og líkleg til að kæta lesendur á öllum aldri.
  • Hilmar Örn Óskarsson. Bækur Hilmars um Kamillu vindmyllu eru orðnar þrjár og einnig hefur hann skrifað bókina Funi og Alda falda sem ætluð er yngstu lesendunum. Ærsl og húmor einkenna stílinn, sem er markaður af náinni meðvitund höfundar um langanir og þarfir lesenda sinna.
  • Kristín Ragna Gunnarsdóttir. Myndheimur Kristínar Rögnu er orðinn hluti af æsku heillar kynslóðar, en hann birtist henni í bókum, á sýningum og í kennslustofum. Metnaður Kristínar Rögnu og stöðugt samtal hennar við áhorfendur tryggir óvæntar og áleitnar myndir sem lifa lengi í hugskotinu.

Vorvindaviðurkenningar IBBY hafa verið afhentar árlega frá árinu 1987 og eiga þær að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása í barnamenningunni hverju sinni.

Meðfylgjandi er ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru (frá vinstri) Sigurjóna Rós Benediktsdóttir, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Guðna Líndal Benediktssonar, Hilmar Örn Óskarsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson.


Bókaverðlaun barnanna 2015

bokaverdlaun barnanna 2015-cropBókaverðlaun barnanna voru afhent í Borgarbókasafninu í Grófinni sumardaginn fyrsta, þann 23. apríl. Verðlaunin eru afhent einu sinni á ári og öll börn á landinu geta tekið þátt í valinu: þær bækur hljóta verðlaunin sem hljóta flest atkvæði, svo einfalt er það. Þá eru nokkrir krakkar, sem taka þátt í kjörinu, valdir af handahófi og hljóta viðurkenningu fyrir. Einn heppinn þátttakandi fær að venju verðlaunahöfundinn í heimsókn í bekkinn sinn.

Í ár eru það bækurnar Þín eigin þjóðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson (Forlagið gaf út) og Dagbók Kidda klaufa: kaldur vetur eftir Jeff Kinney (Tindur gaf út), í þýðingu Helga Jónssonar, sem hljóta verðlaunin. Þeir Ævar og Helgi tóku á móti verðlaununum og hittu nokkra af krökkunum sem fengu viðurkenningu í ár.

Fréttin er tekin af vef Borgarbókasafnsins.


Íslensku þýðingaverðlaunin 2015 afhent á Gljúfrasteini

gyrdir(crop)
Í dag, 23. apríl 2015, voru Íslensku þýðingaverðlaunin afhent í ellefta sinn við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Forseti Íslands afhenti verðlaunin en þau hlaut Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn, þýðingu á ljóðum japanska skáldsins Shuntaro Tanikawa. Gyrðir hefur áður hlotið Íslensku þýðingaverðlaunin en þau fékk hann árið 2012 fyrir annað ljóðasafn, Tunglið braust inn í húsið.

Gyrðir Elíasson er íslenskum lesendum að góðu kunnur, bæði sem skáld og þýðandi, og hefur hlotið margar aðrar viðurkenningar og verðlaun, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011. Ljóðskáldið Shuntaro Tanikawa (f. 1931) er einnig margverðlaunaður, talinn til merkustu skálda Japan og helstu stórskálda heimsins og því er mikill fengur að því að fá safn af ljóðum hans í vandaðri íslenskri þýðingu.

Dómnefnd Íslensku þýðingaverðlaunanna skipuðu Árni Matthíasson, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir og hafði hún þetta að segja um Listina að vera einn:

Með þýðingu sinni á ljóðum Shuntaro Tanikawa kynnir Gyrðir Elíasson okkur eitt helsta núlifandi skáld Japana. Tanikawa er meðal annars þekktur fyrir glímu sína við tungumálið og það hvernig hann teygir það og togar, en þó þykir texti hans tær og virðist áreynslulaus líkt og skilar sér í þýðingum Gyrðis á ljóðunum.

Aðrir tilnefndir þýðendur voru Herdís Hreiðarsdóttir fyrir Út í vitann eftir Virginia Woolf, Hermann Stefánsson fyrir Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares, Jón St. Kristjánsson fyrir Náðarstund eftir Hannah Kent og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Lífið að leysa eftir Alice Munro.


Barnabókaverðlaun skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur

barnabokaverdlaunin2015_031                                                         Birgitta Elín Hassel og Bryndís Björgvinsdóttir.

Tvær ung­linga­sög­ur fá barna­bóka­verðlaun reyk­vískra fræðslu­yf­ir­valda 2015;
Hafn­f­irðinga­brand­ar­inn eft­ir Bryn­dísi Björg­vins­dótt­ur var val­in besta frum­samda bók­in.
Eleanor og Park var val­in best þýdda barna­bók­in en Birgitta Elín Hassel og Marta Hlín Magna­dótt­ir sneru þeirri sögu eft­ir banda­ríska rit­höf­und­inn Rain­bow Rowell.

Bryn­dís Björg­vins­dótt­ir tók í gær við barna­bóka­verðlaun­um skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur, en þau voru af­hent í Höfða. Verðlaun­in fær hún fyr­ir bók­ina Hafn­f­irðinga­brand­ar­ann sem Vaka Helga­fell  gaf út. Marta Hlín Magna­dótt­ir og Birgitta Elín Hassel fengu verðlaun­in fyr­ir þýðingu sína á Eleanor og Park sem gef­in var út af Bóka­beit­unni.

Barna­bóka­verðlaun­in voru nú af­hent í 43. sinn. Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri og Skúli Helga­son formaður skóla- og frí­stundaráðs fluttu stutt ávörp við at­höfn­ina í Höfða, grunn­skóla­nem­end­ur úr Aust­ur­bæj­ar­skóla sungu og sig­ur­veg­ar­ar úr Stóru upp­lestr­ar­keppn­inni lásu upp úr verðlauna­bók­un­um.

Í um­sögn val­nefnd­ar um verðlauna­bók­ina Hafn­f­irðinga­brand­ar­ann seg­ir m.a.:
Hafn­f­irðinga­brand­ar­inn er marglaga skáld­saga þar sem fjallað er um sí­gild stef í lífi ung­linga eins og fyrstu ást­ina og ástarsorg­ina, fé­lags­líf og sam­skipta­mynst­ur sem aldrei er eins flókið og á unglings­ár­um, ofsa­kvíða, ofsakæti og allt þar á milli. Sag­an er um­fram allt skrifuð af leiftrandi stíl­gáfu, um­vefj­andi hlýju og heil­næm­um húm­or sem fær les­end­ur á öll­um aldri til að njóta lestr­ar­ins og hrein­lega tæta bók­ina í sig.  

Í um­sögn um þýðingu ung­linga­bók­ar­inn­ar Eleanor og Park  seg­ir m.a. :
Eleanor og Park hef­ur hlotið fjölda verðlauna og viður­kenn­inga er­lend­is og dýr­mætt þegar slík­ar bæk­ur rata inn í ís­lenskt mál­sam­fé­lag og verða hluti af því. Það er vanda­verk að skrifa bók í nú­tím­an­um fyr­ir nú­tímaunglinga á trú­verðugu orðfæri ung­linga fyr­ir tutt­ugu árum á þann hátt að text­inn virki hvorki fram­andi né klisju­kennd­ur. Þegar bæt­ist svo í ofanálag að þýða sama texta yfir á annað tungu­mál verður málið enn snún­ara. Þeim Mörtu Hlín Magna­dótt­ur og Birgittu El­ínu Hassell tekst ein­stak­lega vel að ná þessu tak­marki án þess að það sé á kostnað læsi­leika og flæðis text­ans.

Barna­bóka­verðlaun skóla- og frí­stundaráðs þjóna þeim til­gangi að vekja at­hygli á gildi góðra bók­mennta í upp­eld­is­starfi og á metnaðarfullri út­gáfu barna­bóka.  Val­nefnd var að þessu sinni skipuð Bryn­hildi Björns­dótt­ur for­manni, Jónu Björgu Sætr­an og Gunn­ari Birni Mel­sted.

(mynd með frétt af vef Reykjavíkurborgar)

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.