Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Jón Kalman fær frönsk bókmenntaverðlaun.

kalman

Skáld­saga Jóns Kalm­ans Stef­áns­son­ar, Fisk­arn­ir hafa enga fæt­ur, hlaut í gær­kvöldi eft­ir­sótt bók­mennta­verðlaun í Frakklandi.

Var hún val­in sem besta er­lenda skáld­sag­an sem komið hef­ur út þar í landi á ár­inu.

Verðlaun­in veitti virt bók­mennta­tíma­rit, LIRE, og voru þau af­hent við hátíðlega at­höfn í Grand Pala­is í Par­ís í gær þar sem val­in voru bestu nýju verk­in í hinum ýmsu flokk­um bók­mennta.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – nr. 7

höfundakvöld 7

 

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 26. nóvember, kl. 20.00, fer sjöunda höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Kristján Guðjónsson spjalla við þau Mikael Torfason og Auði Jónsdóttur, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum: Týnd í Paradís og Stóra skjálfta. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Týnd í Paradís er sjötta skáldsaga Mikaels Torfasonar, en í henni segir hann sögu sína, foreldra sinna og forfeðra. Við sögu koma guð, djöfullinn og Vottar Jehóva. Ennfremur hippar, læknar, sjómenn, bændur, húsmæður, drykkjumenn, reykingafólk og börn. Mikael hefur þá einnig unnið sem blaðamaður og skrifað leikrit og handrit að kvikmyndum.

Auður Jónsdóttir sendir nú frá sér sína sjöunda skáldsögu, Stóra skjálfta. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og þá einnig starfað sem sjálfstætt starfandi blaðamaður. Sagan Stóri skjálfti rekur sögu Sögu sem rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Upp vakna ýmsar spurningar varðandi traust, samskipti og sjálfsþekkingu. Skáldsögur Auðar Jónsdóttur hafa vakið athygli hér heima og erlendis fyrir fágæta blöndu af nístandi einlægni og húmor.

Spyrill kvöldsins er Kristján Guðjónsson, en hann hefur starfað sem blaðamaður á síðustu árum, nú síðast sem menningarritstjóri DV.


Verðlaun Jónasar Hallgrímsonar

GF

Guðjón Friðriksson hlaut í gær verðlaun Jónasar Hallgrímsonar á Degi íslenskrar tungu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra veitti verðlaunin í Bókasafni Mosfelssbæjar síðdegis. Bubbi Morthens fékk sérstaka viðurkenningu.

Guðjón Friðriksson hefur hin síðari ár skrifað viðamiklar ævisögur manna eins og Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein, Jóns Sigurðssonar forseta og Jónasar frá Hriflu. Þá hefur hann ritað sögu Faxaflóahafna, sögu Reykjavíkur og sögu  Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að hann hafi með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna. Stíll Guðjóns sé þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi. Það megi telja víst að Jónas Hallgrímsson hefði kunnað að meta þannig stílbrögð.

Bubbi fékk sérstaka viðurkenningu

Þá fékk Bubbi Morthens  sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Bubbi hafi alla tíð lagt áherslu á vandaða textasmíð á kraftmikilli íslensku, hvort heldur sem hann hafi sungið um verbúðarlífið, ástina eða brýn samfélagsmál.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi nr. 6

6-höfundakvöld

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 19. nóvember kl. 20.00, fer sjötta höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Ármann Jakobsson spjalla við skáldin Bergsvein Birgisson, Sjón og Kára Tulinius, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Bergsveinn Birgisson vakti athygli í Noregi árið 2013 fyrir fræðirit sitt um Geirmund heljarskinn sem hann ritaði á norsku og nefndi Svarta víkinginn. Í skáldsögunni sem Bergsveinn sendir nú frá sér hjá Bjarti er hins vegar loks hægt að lesa stórbrotna sögu Geirmundar sjálfs. Sjón hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013 fyrir síðustu skáldsögu sína, Mánastein, en hann er ekki síður afkastamikið ljóðskáld og gefur í haust út hjá JPV ljóðabókina Gráspörvar og ígulker. Kári Tulinius hefur fengist lengi við ljóðagerð, sem og önnur skrif, en sendir nú frá sér sína fyrstu sjálfstæðu ljóðabók. Hún kallast Brot hætt frum eind og kemur út hjá Meðgönguljóðum.


Ályktun frá stjórn RSÍ!

Stjórn Rithöfundasambandsins ályktar:
Rithöfundasamband Íslands harmar að eina ferðina enn skuli veist að einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar í tilefni af nýútkominni og umdeildri skýrslu um fjárhag hennar. Ár eftir ár höfum við nú fylgst með skipulegu niðurbroti á stofnun sem heldur utan um eitt af fjöreggjum þjóðarinnar í sögulegu og menningarlegu tilliti. Hvar væri íslensk ritlist, tónlist, myndlist, kvikmyndalist, leikilist í fjölmiðlum ef ekki væri fyrir RÚV? Ríkisútvarpið sinnir öllum þessum listgreinum, auk fjölmargra annarra samfélagslegra þátta sem enginn önnur stöð kemur nálægt. Það er því fyllsta ástæða, einmitt núna, þegar þrýstingurinn á íslenskar listir og tungu hefur aldrei verið meiri, að efla og styrkja Ríkisútvarpið. Það er menningarlegt torg allrar þjóðarinnar og það eina sem við eigum.
Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.